Fjárstyrkur til heilsárshótela á landsbyggðinni 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 13:55:52 (1195)

1996-11-14 13:55:52# 121. lþ. 24.95 fundur 87#B fjárstyrkur til heilsárshótela á landsbyggðinni 1995# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[13:55]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Í framhaldi af því sem ég sagði fyrr í þessari umræðu held ég að alveg nauðsynlegt sé að fram komi að við tillögugerð til samgrh. um úthlutun á þessum fjármunum komu aðilar frá Ferðamálaráði og Ferðamálasjóði auk þess sem hér talar og kom berlega í ljós í upphafsræðu málshefjanda að aðalatriðið í málinu virtist vera að vekja athygli á því. Þessir einstaklingar sem sátu í úthlutunarnefndinni sem gerði tillögur leituðu sér að sjálfsögðu gagna og upplýsinga frá hinum ýmsu aðilum sem að ferðamálum koma og það var samdóma og sameiginleg niðurstaða að gera tillögur um að styrkja þessi tilteknu hótel til markaðsátaks. Aðferðin við úthlutunina var að metin var stærð viðkomandi hótela. Efnahagsleg geta þeirra til markaðsátaks fyrir svæðin í heild var metin og í þriðja lagi var reynt að leggja mat á möguleikana til þess að auka ferðaþjónustu á svæðinu. Þannig var á fullkomlega faglegan hátt reynt að leggja mat á það hvernig þessum fjármunum yrði sem best varið.

Að lokum vil ég vekja athygli á því sem hvergi hefur komið fram, að stórum hluta af þessum 20 millj. var varið til svokallaðra Regnbogahótela sem eru samtök hótela á landsbyggðinni og reyndar annars staðar, þannig að það er ekki einungis að þessir fjármunir hafi runnið til þessara tilteknu fyrirtækja.