Einelti í skólum

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 14:21:38 (1203)

1996-11-14 14:21:38# 121. lþ. 24.96 fundur 88#B einelti í skólum# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[14:21]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta alvarlega mál upp utan dagskrár og þakka hæstv. ráðherra fyrir undirtektir hans. Þetta er mjög alvarlegt mál og t.d. er vitað að margir þeir unglingar sem leiðast út í ofneyslu áfengis og annarra vímuefna hafa orðið fyrir einelti og jafnvel sjálfsvíg hafa verið rakin til eineltis. Það skiptir því miklu að vandinn sé greindur sem fyrst og brugðist við áður en í óefni er komið.

Aðgerðir gegn einelti eru fyrirbyggjandi starf sem varða samfélagið miklu jafnt og einstaklingana sem um ræðir. Kvennalistinn hefur ítrekað vakið athygli á þessu vandamáli og fékk reyndar samþykkta tillögu á 113. löggjafarþingi, tillögu sem Anna Ólafsdóttir Björnsson, fyrrv. þingkona Kvennalistans, hafði forgöngu um þess efnis að unnið yrði að áætlun um úrbætur og aðgerðir gegn einelti. Því miður hefur minna orðið úr framkvæmd en efni stóðu til og stendur til enn, en sennilega er þó kvikmyndin sem hæstv. ráðherra minnti á í orðum sínum komin til í framhaldi af þessari ályktun. En mér heyrðist reyndar á máli hæstv. ráðherra að hann vissi ekki um þessa samþykkt Alþingis fyrir rúmum sex árum og það er býsna athyglisvert.

Herra forseti. Oftast er um slíkt einelti að ræða sem hér er til umfjöllunar að börn eða unglingar leggja önnur börn eða unglinga í einelti. En vissulega geta fullorðnir átt hlut að máli og sé það rétt að kennarar geri sig seka um að leggja nemendur í einelti verður að bregðast hart við. Það verður að rannsaka þessi mál, ræða þau og gera skýrar kröfur um að slíkt eigi sér alls ekki stað.

Hv. málshefjandi minnti á þá staðreynd að ekki aðeins börn og unglingar verði fyrir einelti heldur einnig fullorðið fólk og einmitt þetta hefur orðið mér umhugsunarefni því að satt að segja man ég ekki eftir neinu tilviki alla mína skólagöngu þar sem nemendur urðu fyrir einelti, hvorki annarra nemenda né kennara, en ég minnist a.m.k. tveggja kennara á þessum árum sem nemendur lögðu í einelti. En það er önnur saga. Með þessu er ég síður en svo að gera lítið úr öðrum hliðum þessa máls, á því þarf að taka í heild.