Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 14:53:16 (1211)

1996-11-14 14:53:16# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., RA
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[14:53]

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Á því er brýn þörf að endurskoða tekjuskattskerfið. Það þarf að leiðrétta ýmsa agnúa sem á því eru, leiðrétta ýmiss konar ranglæti sem viðgengst og stuðla að jöfnun lífskjara.

Það frv. sem hér liggur fyrir er hluti af stærri skattapakka sem lagður hefur verið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar og felur einkum í sér fjögur meginatriði, þ.e. í fyrsta lagi nýtingu rekstrartaps fyrri ára. Í öðru lagi afnám hlutafjárfrádráttar. Í þriðja lagi hækkun tryggingagjalds á sjávarútveg og landbúnað en um leið lækkun á flestar tegundir viðskipta og verslunar. Og í fjórða lagi breytingar á vörugjöldum. Auk þess er um að ræða nokkrar minni háttar breytingar.

Þessi frv. sem hér eru lögð fram varða einkum rekstur fyrirtækja. Sum þessi ákvæði eru verulega ívilnandi, eins og heimildin til að nýta rekstrartöp allt aftur til ársins 1988, en önnur eru íþyngjandi og má þá einkum nefna væntanlega hækkun tryggingagjaldsins. En yfirleitt snerta þessar tillögur og þessar skattbreytingar ekki fólk með lágar tekjur eða meðaltekjur nema þá helst afnám hlutafjárfrádráttarins sem virðist hafa verið nýttur af býsna stórum hópi skattgreiðenda svo og mikil hækkun á tryggingagjöldum á einyrkja, t.d. á trillusjómenn og bændur sem sannarlega hafa oft mjög lágar tekjur.

Nýlega kom fram að fjöldi þeirra skattgreiðenda sem skulda hærri fjárhæð en þeir eiga, þ.e. eiga minna en ekki neitt, hefur tvöfaldast á mjög skömmum tíma. Þetta sýnir betur en margt annað hvílík neyð ríkir í okkar þjóðfélagi. Þegar saman fara lág laun, dýr framfærsla og háir jaðarskattar, verður afleiðingin svo skelfileg sem raun ber vitni í allt of mörgum tilvikum. Ég tel að langbrýnustu endurbæturnar sem þarf að gera á tekjuskattskerfinu séu það sem ég vék að hér í upphafi. Jaðarskattarnir eru allt of háir. Þann vanda verður að leiðrétta. Og skattbyrði á lágar tekjur og meðaltekjur er allt of þung. Það þarf að auka skattlagningu á háar tekjur og miklar eignir og skattlagning fjármagnstekna er ranglát auk þess sem vel stæð fyrirtæki sem skila miklum hagnaði skila sannarlega mjög litlu, óeðlilega litlu, til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins.

Hæstv. ráðherra hefur upplýst að skipuð hafi verið nefnd sem í eigi sæti fulltrúar stjórnvalda og aðilar vinnumarkaðarins sem vinni að því að gera tillögur um lækkun jaðarskatta. Ég hefði nú talið eðlilegast að allar þær skattalagabreytingar, allar breytingar á tekjuskattslögum sem fyrirhugaðar eru á þessu hausti hefðu komið fram á einu bretti og um þær hefði verið fjallað í einu heildarsamhengi frekar en að fara að slíta þær sundur í marga parta eins og hér er verið að gera. En hvað um það. Tillögurnar virðast ekki liggja fyrir og fer nú að verða mjög skammur tími að undirbúa það mál þannig að vel megi fara vegna þess að lögin eiga að taka gildi frá byrjun næsta árs. En ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær er þá von á þeim tillögum sem boðaðar hafa verið og um hvaða meginhugmyndir eru menn að ræða? Ég tel að nefndin sem fær þetta mál til umfjöllunar hljóti að verða að vita eitthvað um hvaða tillögur eru í bígerð af hálfu hæstv. fjmrh., um leið og hún fjallar um veigamikla þætti tekjuskattslaga í framhaldi af vísun þessa máls til nefndar.

Svo ég víki nánar að jaðarsköttunum þá er það alkunn staðreynd að margvíslegar bætur sem ríkið greiðir út, m.a. vaxtabætur og barnabætur, skerðast þegar tilteknum heildartekjum er náð. Þetta hefur leitt til þess að jaðarskattur getur orðið býsna hár hjá fólki með meðaltekjur. Ég vil láta þess getið að við alþýðubandalagsmenn höfum hreyft þessu máli á hverju þingi nú um margra ára skeið. Þetta er ekki eitthvað sem er alveg nýtilkomið og sem núverandi ríkisstjórn eða hæstv. fjmrh. hefur rekið augun í. Þetta hefur verið til umræðu í þinginu ár eftir ár. Ég minni t.d. á tillögu sem við alþýðubandalagsmenn fluttum á þinginu 1994--1995. Það var gert ráð fyrir að tekin væri upp sérstök regla varðandi jaðarskatta. Tillagan var þannig með, leyfi virðulegs forseta: ,,að sett sé þak á tekjutengda skerðingu bótaliða, svo sem vaxtabóta og barnabóta, þannig að jaðarskattshlutfall fari aldrei yfir 55%.``

[15:00]

Það hafa sem sagt legið fyrir í þinginu býsna skýrar og ákveðnar tillögur um þetta efni og ég tel að það sé heldur öfugsnúið að hæstv. fjmrh. sé að vakna upp við vondan draum á síðustu mánuðum þessa árs til að fara að garfa eitthvað í þessu máli á allra seinustu stundu og hefði verið betur að hann hefði litið á þær tillögur sem hér hafa verið fluttar í þinginu og reynt að vinna þetta mál í tengslum við þær.

En háir jaðarskattar eru ekki eina ranglætið í tekjuskattskerfinu. Persónuafsláttur í tekjuskatti einstaklinga hefur ekki hækkað í eðlilegu hlutfalli við verð- og tekjubreytingar í þjóðfélaginu á mörgum undanförnum árum og persónuafslátturinn hefur því í raun verið að lækka. Alþb. leggur á það áherslu að skattleysismörk verði hækkuð á nýjan leik í nokkrum áföngum. Það er einnig sanngirnismál að foreldrar með lágar tekjur geti notað sér ónýttan persónuafslátt unglinga á aldrinum 16--20 ára sem dveljast í heimahúsum og eru því að mestu á framfæri foreldranna. Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar voru við álagningu 1994, en það eru seinustu upplýsingar sem ég hef undir höndum, samtals rúmlega 20.000 framteljendur á aldrinum 16 til og með 20 ára. Persónuafsláttur þessara framteljenda nam um 5,8 milljörðum kr. Af þessum framteljendum voru rúmlega 16.000 sem ekki nýttu persónuafslátt sinn að fullu. Ónýttur persónuafsláttur þessara framteljenda var þá rétt um 2,5 milljarðar kr. Því miður lágu ekki fyrir upplýsingar um það fyrir einu ári síðan hversu mikið foreldrar þessara barna gætu nýtt af persónuafslætti þeirra. En þar sem heimildin sem við alþýðubandalagsmenn teljum að ætti að setja í tekjuskattslögin yrði bundin við lágar tekjur foreldra og veru unglinganna í heimahúsum þá er nokkuð ljóst að upphæðin sem þyrfti að verja í þessu skyni væri aðeins lítið brot af þeirri upphæð sem ég hef nú nefnt, þ.e. þessum 2,5 milljörðum kr. Þannig að ég tel að þetta viðfangsefni sé ekki óviðráðanlegt og komi mjög sterklega til greina við endurskoðun tekjuskattslaga nú á þessu hausti.

Eins og kunnugt er fellur ónýttur persónuafsláttur niður ef hann nýtist ekki til framfærslu eða frádráttar sköttum. Með því að greiða ónýttan persónuafslátt út væri fundin leið til þess að styðja sérstaklega þá fjöldamörgu í okkar þjóðfélagi sem eru með laun undir skattfrelsismörkum. Nokkur hluti þessa fólks er unga fólkið á aldrinum 16--20 ára sem þegar hefur verið nefnt.

Ég vil í þessu samhengi, úr því að hæstv. fjmrh. hefur ekki kosið þá leið að koma með allan sinn skattapakka hér á einu bretti og er að vinna í þessum málum þessa dagana, þá vil ég nota þetta tækifæri til að minna líka alveg sérstaklega á ranglætið sem viðgengst í skattkerfinu gagnvart öldruðum. Langflestir sem komnir eru á lífeyrisaldur hafa greitt af launum sínum í lífeyrissjóði áratugum saman. Og af þessu framlagi sínu hafa þeir greitt skatt að fullu. Þetta er því inneign þeirra rétt eins og sparisjóðsinnstæða sem tekin er út þegar hennar gerist þörf. Samt sem áður eru lífeyrisgreiðslur til aldraðra skattlagðar að fullu án nokkurs tillits til þess að um sé að ræða augljósa tvísköttun. Á árinu 1995 var á það fallist að lífeyrisþegar ættu rétt á sérstökum frádrætti af þessari ástæðu. En á þessu ári var þeirri ákvörðun kippt til baka og tvísköttun hafin á nýjan leik. Vissulega var þá jafnframt ákveðið að framlög fólks í lífeyrissjóði skyldu ekki framvegis skattlögð og það væri í sjálfu sér sanngjörn og ágæt ákvörðun, en hvers eiga aldraðir að gjalda? Það er spurningin. Þessi ósanngirni hvað varðar tvísköttun á hinum öldruðu heldur þar af leiðandi áfram. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra, sem var að grípa hér eitthvað fram í fyrir mér án þess að ég gæti numið hvers eðlis það var, hver hans svör séu í þessu efni og hvort hann muni ekki leitast við að leiðrétta það ranglæti sem í þessu er fólgið enda veit ég að fjöldamargir fulltrúar Samtaka aldraðra hafa einmitt leitað til hans og krafist leiðréttinga á þessum málum.

Um þær fáu breytingartillögur sem felast í þessu frv. hef ég út af fyrir sig ekki margt fleira að segja. Ég get fallist á að það eru heilmikil rök fyrir því að tryggingagjald sé samræmt og sé eins á allar stéttir manna en við hljótum að velta því um leið fyrir okkur hvort þetta sé sérstaklega sanngjarn skattur. Eins og menn vita er þessi skattur lagður á launagreiðslur og þetta er því veltuskattur. Skattbyrðin sem í þessu er fólgin er þeim mun þyngri þeim mun meira vinnuafl sem viðkomandi fyrirtæki hefur í sinni þjónustu. Skattbyrðin leggst því af auknum þunga á vinnuaflsfrekar atvinnugreinar. Því miður er það svo að okkar frumvinnslugreinar í sjávarútvegi og landbúnaði eru eðli sínu samkvæmt frekar vinnuaflsfrekar miðað við veltu. Þar af leiðandi eru þær viðkvæmari fyrir álagningu af þessu tagi heldur en þær greinar þar sem mikið fjármagn er saman komið og margt annað kemur inn í reksturinn heldur en hreint vinnuafl.

Það eru ekki liðin mörg ár síðan aðstöðugjald var afnumið. Það var afnumið vegna þess að það var talið ósanngjarnt. Þar væri um að ræða veltuskatt sem ekki tæki neitt tillit til afkomu fyrirtækjanna. En auðvitað gilda nákvæmlega sömu rök gagnvart tryggingagjaldinu að því leyti að fyrirtækin verða að borga tryggingagjald jafnvel þótt þau stórtapi í sínum rekstri og þar af leiðandi stöndum við frammi fyrir því að þetta er skattlagning sem í sjálfu sér er ekkert miklu sanngjarnari en aðstöðugjaldið. Það geta verið viss rök fyrir mismunun eins og ég hef rakið þannig að mér fyndist á margan hátt eðlilegra að aflagning þessa gjalds í heild sinni yrði tekin til endurskoðunar og ég hef ekki mikla sannfæringu fyrir því að þessi skattur eigi að eiga langa framtíð fyrir sér.

Um afnám skattafsláttar á hlutafjárkaup vil ég segja það eitt að ég tel að þessi skattafsláttur hafi í sjálfu sér gert mikið gagn í þjóðfélagi okkar. Það eru tugir þúsunda manna í þjóðfélaginu sem hafa nýtt sér skattafslátt vegna hlutafjárkaupa. Það liggja fyrir tölur um að þarna er ekki um neitt fámennan hóp að ræða heldur hinn breiða massa í þjóðfélaginu, tugi þúsunda manna. Fólk hefur verið hvatt til þess að leggja fram áhættufé í atvinnurekstri sem það sennilega hefði ekki gert ef þessi hvatning hefði ekki komið til. Þetta held ég að gildi í mjög stórum stíl. Þetta hefur svo aftur leitt til þess að fjöldamörg stórfyrirtæki hafa opnað rekstur sinn og boðið hlutafé á almennum markaði. Þau hafa því styrkt sig verulega með stórauknu hlutafjárframboði og eigið fé þeirra hefur verulega aukist sem aftur hefur leitt til miklu betri rekstrarafkomu þessara fyrirtækja. Ég held að t.d. bætt afkoma margra stórra fyrirtækja í sjávarútvegi eigi m.a. rót sína að rekja til þess að eigið fé fyrirtækjanna hefur verið að vaxa í kjölfar þessara hlutafjárkaupa almennings.

Nú eru aftur á móti breyttar aðstæður vegna þess að ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn sem hér er hefur ákveðið að aðeins verði greiddur 10% tekjuskattur af greiddum arði. Áður var um að ræða ákveðið frítekjumark þannig að allir skattgreiðendur gátu haft vissan arð af fyrirtækjum og borguðu ekki neinn skatt af þeim arði en þegar kom upp fyrir þetta ákveðna frítekjumark lagðist skattur á að fullu. Þetta kerfi var að minni hyggju miklu heilbrigðara og eðlilegra heldur en það sem nú hefur verið tekið upp, þ.e. að það er ekkert frítekjumark, en aftur á móti hefur skattgreiðslan verið lækkuð verulega eða niður í 10%. Ég var andvígur þessum breytingum sem áttu sér stað á sl. vori og hlýt þar af leiðandi að hafa þennan fyrirvara á, ég hefði frekar kosið hið eldra kerfi að arðurinn væri skattlagður að fullu en þó leyft ákveðið frítekjumark og almenningur hvattur til þess að kaupa hlutabréf. En úr því að ríkisstjórnin hefur valið þessa leið þá hlýt ég að fallast á það með hæstv. fjmrh. að það gengur auðvitað ekki að gera hvort tveggja að lækka skattgreiðslur á arðinn og leyfa þar að auki skattafslátt vegna hlutafjárkaupa þannig að að því leyti er þetta skynsamleg ákvörðun út frá forsendum ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjmrh.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál en vænti þess að enn betra tækifæri gefist til að ræða skattamálin almennt þegar hæstv. fjmrh. kemur með stóra skattapakkann inn í þingið. Þetta er bara forskot á sæluna sem við fáum nú og ég læt þetta því nægja.