Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 15:41:53 (1217)

1996-11-14 15:41:53# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[15:41]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var sérkennileg ræða og ég mun víkja að henni betur síðar. Það sem hv. þm. sagði um skýrslu Þjóðhagsstofnunar var líka nokkuð sérkennilegt, ekki síst ef hv. þm. hefur kynnt sér það sem er að gerast annars staðar. Það kemur nefnilega fram í frétt Þjóðhagsstofnunar mjög skýrlega að dreifing atvinnutekna hefur ekki breyst mikið undanfarin ár. En það er einmitt það sem hefur verið að gerast víðast hvar í heiminum. Og það stendur meira að segja, alveg orðrétt, í þessari frétt: ,,Þessi stuðull stendur hins vegar í stað milli áranna 1994 og 1995.`` Með öðrum orðum það er ekki meiri munur á þeim efstu og þeim lægstu á árunum 1994 og 1995 í þessum samanburði og ég staðhæfi það að munurinn á þeim efstu og lægstu í launum hér á landi og annars staðar er fyrst og fremst sá að líklega finnst ekki það land í heiminum þar sem er minni launamunur og tekjumunur á milli fólks eins og er hér á landi. Og ég bið hv. þm., sem er fyrrum prófessor í hagfræði, að benda mér á eitt einasta Evrópuríki þar sem munurinn er minni heldur en hér á landi. Mér þætti fróðlegt að heyra það. Ég hef ekki rekist á það og hef ég þó nokkuð kynnst þessum málum. Í þessari frétt er einmitt bent á hvernig álagning skatta og greiðsla barna- og vaxtabóta jafna mjög tekjudreifinguna. Um það fjallar þetta fréttabréf fyrst og fremst.

Áætlað er að byggingarvísitalan hækki líklega um 6% á þessu ári og neysluvöruverðsvísitalan um 2%. En ég bendi á að þetta virkar í báðar áttir, t.d. þegar maður lítur á söluhagnaðinn þá er það ívilnandi og þess vegna er mjög erfitt að segja til um hvað þetta kostar ríkissjóð eða hverju ríkissjóður verður af o.s.frv. Það er ekki hægt í þessu sambandi. En ég minni á að hlutabréfaafslátturinn sem hefur verið mjög mismunandi mikill frá ári til árs var síðast um 650 millj. Hann hefur oftast verið á milli 400 og 500 eða 300 til 500 millj. kr.