Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 15:44:13 (1218)

1996-11-14 15:44:13# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[15:44]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ræddi í minni ræðu ekki um tekjumun á Íslandi og annars staðar. Ég benti á í minni ræðu, og vitnaði réttilega í þessa skýrslu, að fyrir tíu (Gripið fram í: Efstu og lægstu...) --- efstu og lægstu já, ég ræddi um það og bar saman, eins og kemur fram í þessari skýrslu, að þessi munur er núna 3,5-faldur, fyrir tíu árum var hann þrefaldur. Ég ræddi ekki um breytinguna frá 1994 til 1995. Ég las nákvæmlega upp úr þessari skýrslu hvað þennan þátt varðar. Hins vegar þá get ég sagt hæstv. fjmrh. að munur milli hæstu og lægstu tekna á Íslandi er líklega einn sá lægsti sem um getur. (Fjmrh.: Hvar er hann lægri?) Eins og ég segi, ég fullyrði ekki hvort hann er einhvers staðar lægri. Ég veit hins vegar að í langflestum löndum, því ég treysti mér ekki til að fara með tölur fyrir allan heiminn, en ég veit ekki til þess að hann sé minni einhvers staðar annars staðar. Ég hef ekki heyrt nefnt það land. Það hefur ekki verið neitt leyndarmál í íslensku þjóðfélagi að tekjujöfnun er mjög mikil miðað við hvað gerist í nágrannalöndunum. Ég bendi hins vegar á, sem hér kemur fram, að tekjujöfnunaráhrifin hafa minnkað og ég bendi á að tekjumunur í þjóðfélaginu hefur verið að breikka hvort sem það er meira í öðrum löndum sem búa við aðra uppbyggingu en við. Það hafa menn vitað mjög lengi. Íslendingar hafa hins vegar ekki viljað hafa mjög mikinn mun í tekjum hjá fólki og hafa flestir stjórnmálaflokkar komið að því með einum eða öðrum hætti.

Ráðherra staðfestir raunverulega tölurnar mínar um það sem ég var að segja um muninn á byggingavísitölu og neysluvöruvísitölu, það eru 6% og 2% og (Forseti hringir.) áhrif þess á verðbreytingafærsluna. Þetta verður eitt að því sem hv. efh.- og viðskn. mun kanna sérstaklega og afla sér talnagagna um því um þetta snýst málið. Eins og ég nefndi er verið að færa til geysilega mikla fjármuni (Forseti hringir.) varðandi tekjufærslu hjá fyrirtækjum í ársreikningum.