Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 15:50:56 (1221)

1996-11-14 15:50:56# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[15:50]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er byrjuð árleg umræða um breytingar á skattalögum af ýmsu tagi. Ég velti því fyrir mér, skyldi það gerast í nokkru ríki eða nokkru lýðræðisríki svo ég fari ekki mjög langt að það sé verið að breyta skattalögum og það stórlega á hverju einasta ári? Þeir sem hafa komið á fund efh.- og viðskn. á undanförnum árum vegna skattamála hafa einmitt bent á það hvílíkt óöryggi fylgir því að eiga eða reka fyrirtæki og vita aldrei á hverju er von frá ríkisstjórninni að maður tali nú ekki um vinnandi fólk sem veit heldur aldrei við hverju er að búast. Að mínum dómi er þetta arfur frá verðbólgutímunum og ég held að ríkisstjórnin verði að fara taka sig á og hugsa lengra fram í tímann og að skapa stöðugt skattaumhverfi þannig að breytingar séu ekki gerðar á hverju einasta ári. Þetta eru ekki góðir stjórnarhættir.

Það er líka ástæða til þess að spyrja sig til hvers eru skattar. Þeir gegna einkum tvenns konar hlutverki, en það má eflaust tíunda fleiri. Við erum að innheimta skatta til þess að afla ríkinu tekna til þess að standa undir þjónustu hins opinbera. Við getum svo deilt um það hvaða þjónustu á að veita o.s.frv. Hinn tilgangurinn er auðvitað sá að nota skatta sem jöfnunartæki í samfélaginu og þar hefur ríkisstjórnin stórlega brugðist sínu hlutverki. Ef við horfum yfir undanfarin ár þá höfum við séð að sköttum hefur verið stórlega létt af fyrirtækjum sem hefur gert mörgum fyrirtækjum kleift að taka á vandamálum sínum og rétta reksturinn af og þar með auðvitað bæta stöðu fyrirtækjanna. En staða einstaklinganna, staða vinnandi fólks hefur ekki batnað að sama skapi heldur hefur skattbyrðin aukist. Það felst m.a. í því að persónuafslátturinn hefur lækkað og það sem er kannski það sorglegasta í okkar kerfi hvað fólk er að greiða skatta af lágum launum. Nú hef ég heyrt það og þykist svo sem vita að kannski séu til lægri viðmiðanir í öðrum ríkjum en þar á móti kemur að stuðningur við fólk svo sem húsaleigubætur, barnabætur og annar félagslegur stuðningur er meiri, sérstaklega við barnafólk. Megingallinn í skattkerfi okkar er að mínum dómi sá hvað fólk er að greiða skatta af lágum launum. Slíkt hvetur til þess að fólk stundi svarta atvinnu og við vitum það að hér eiga sér því miður stað gríðarleg skattsvik sem ríkisstjórnum undanfarinna áratuga hefur ekki tekist að ná neinum tökum á. Úr því ég nefni þetta beini ég þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvað sé að frétta af eftirliti með skattsvikum og hverju starf skattrannsóknastjóra og fólks hans hafi skilað að undanförnu. Stofnun þessa embættis hefur vissulega skilað ákveðnum árangri en hér má miklu betur gera.

Í umræðunni hefur skýrsla Þjóðhagsstofnunar komið nokkuð til umræðu og þó að í henni sé ekki að finna miklar breytingar milli ára koma mjög athyglisverðar upplýsingar þar fram. Hún speglar þjóðfélag okkar eins og það er og kannski er það vegna þess að kjarasamningar eru fram undan sem úttekt Þjóðhagsstofnunar hefur vakið meiri athygli en undanfarin ár. Kannski höfum við hreinlega ekki gefið okkur tíma til þess á undanförnum árum að skoða þessar upplýsingar grannt en ég lagðist yfir þetta og finnst margt mjög athyglisvert en líka að þessar niðurstöður sýni ansi dökka hlið á íslensku samfélagi. Það er rétt sem kom áðan fram í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar að þegar litið er yfir lengri tíma hefur tekjubil aukist. Ekki hefur orðið mikil breyting milli áranna 1994 og 1995, enda hvers vegna hefði það átt að gerast? Hvað hefur verið á ferð sem hefði átt að skapa einhverja slíka breytingu? Við höfum heldur verið að rétta úr kútnum eftir margra ára samdrátt og milli áranna 1994 og 1995 urðu engar slíkar breytingar sem gæfu tilefni til þess að þetta bil væri eitthvað að aukast sérstaklega en ég held að við ættum að hafa augun vel opin núna og á næstu mánuðum vegna þess að þá má svo sannarlega búast við því að hér fari af stað töluvert launaskrið ef það er ekki þegar hafið. Til lengri tíma litið hefur launabil aukist og eins og kemur fram í frétt Þjóðhagsstofnunar segir þar að dreifingin hneigist í átt til meiri tekjumunar. Við verðum vör við meiri tekjumun og þetta höfum við auðvitað séð í samfélagi okkar á undanförnum árum.

Það sem vekur ekki síst athygli mína er það sem hér kemur fram um laun karla annars vegar og kvenna hins vegar sem eru alveg himinhrópandi tölur og er þá alveg sama hvort maður hugar að vinnutíma eður ei. Tölurnar endurspegla þau hrikalega lágu laun sem eru greidd í samfélagi okkar og ekki síst þau laun sem stórir kvennahópar hafa og það er mjög athyglisvert sem kemur hér fram að rúmlega þriðjungur framteljenda var undir skattleysismörkum. Í þessum hópi eru líka hátt í helmingur allra giftra kvenna í landinu en aðeins 11% kvæntra karla. Mér finnst mjög athyglisvert að helmingur giftra kvenna, sem telur fram, er undir skattleysismörkum og það segir okkur að sjálfsagt er stór hluti þeirra í hlutastörfum. Þetta segir okkur líka hve launin eru óskaplega lág eins og þetta kemur fram í meðallaunum í landinu sem eru nú 106 þús. kr. á mánuði. Þetta finnst mér lág tala. Ef við skoðun aðrar tölur yfir laun leiða þær í ljós að meðallaun giftra karla eru yfir 2 milljónir og ef sjómenn eru teknir sérstaklega, þ.e. þeir sjómenn sem eru töluverðan tíma á sjó, fara laun þeirra upp í 3,4 milljónir á ári. Allar þessar tölur endurspegla mikinn launamun og mikinn mun milli stétta. Það er líka mjög athyglisvert að skoða hvernig laun dreifast á landinu. Þar er nú þessi sérkennilega mótsögn að í þeim landshluta sem ár eftir ár missir meira og meira af sínu fólki hingað suður á bóginn, þ.e. Vestfjörðum, eru meðaltekjur hæstar á landinu og langt yfir landsmeðaltali. Það væri nú fróðlegt að vita hvernig menn skýra þetta. Ég hygg að það sé rétt sem fram kemur hjá sveitarstjórnarmönnum á höfuðborgarsvæðinu, að þeir sem verst standa á Vestfjörðunum flytja gjarnan hingað til höfuðborgarsvæðisins. Þetta eru allt mjög athyglisverðar tölur og endurspegla, hæstv. forseti, að það þarf að taka á skattamálum einstaklinga. Það gengur ekki að horfa endalaust á fyrirtækin og bæta stöðu þeirra en gera ekkert í málum einstaklinga. Það dugar ekki, hæstv. forseti, að hæstv. fjmrh. bíði eftir nefnd sem er að skoða jaðarskattana. Auðvitað skipta jaðarskattarnir mjög miklu máli og koma verst niður á barnafjölskyldum. En hvað um tekjuskattinn? Hvað um launakerfi ríkisins? Hvað ætlar fjmrh. að gera í þeim efnum? Við hverju er að búast? Við komum alltaf að þessu sama. Það eru lág laun í landinu sem koma í bakið á okkur aftur og aftur.

[16:00]

Ég ætla að víkja að einstökum atriðum frv. og gæti ég þó haldið lengi áfram að ræða almennt um skattana. Ég vil ítreka þær spurningar sem fram komu hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni. Mér finnst skorta mjög á eitt í þessu frv. og hefur maður þó iðulega ekki þurft að kvarta yfir útfærslu fjmrn. og fjárlagaskrifstofunnar, en í frv. er ekki greint frá þeim áhrifum sem hver tillaga hefur á tekjuöflun ríkisins. Ég spyr fyrst: Hvað áætla menn að breyttar reglur um yfirfærslu á tapi fyrirtækja kosti ríkissjóð? Hvaða áhrif mun þetta hafa á skatta fyrirtækjanna? Hverju breytir þetta varðandi þá breytingu sem hér á að gera á viðmiðunum varðandi vísitölur? Hverju mun þetta muna í skattheimtunni? Ég held að það sé rétt sem fram kom áðan að það hafa verið miklu meiri breytingar á byggingarvísitölu en á vísitölu neysluverðs sem af mörgum ástæðum hefur breyst fremur lítið. Hvað þýðir þetta? Mér finnst að hæstv. fjmrh. þurfi að skýra þetta fyrir okkur.

Það kemur fram að tekjuskattshlutfallið er lækkað í samræmi við þann samning sem gerður var við sveitarfélögin á sínum tíma vegna flutnings grunnskólans og það er gott að sjá það staðfest að staðið er við þann samning. Varðandi það atriði að fella niður afslátt vegna kaupa á hlutabréfum þá vil ég taka undir að það þarf að vera samræmi milli fjármagnstekjuskattsins og þessa afsláttar. En ég held að við hljótum að kanna hvort það sé ekki of stórt skref að fella þennan afslátt niður alveg á einu bretti. Við þurfum að átta okkur á því hvaða áhrif það muni hafa á markaðinn. Að vísu kemur fjármagnstekjuskatturinn og lækkun skatts þar á móti. En þetta er atriði sem þarf að skoða rækilega.

Ég ætla ekki að gera önnur atriði þessa skattafrv. að umræðuefni. Það verður farið rækilega í gegnum það í efh.- og viðskn. En ég vil ítreka að þessari ríkisstjórn er afar annt um fyrirtækin í landinu og allar hennar tillögur ganga út á það að bæta stöðu fyrirtækjanna. Auðvitað er það að mörgu leyti góð stefna. En það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að létta af fyrirtækjunum og velta yfir á einstaklingana. Það hefur verið gert á undanförnum árum með því að einstaklingar hafa ekki fengið leiðréttingu. Reyndar hefur Alþýðusambandið ár eftir ár lagt fram útreikninga á því hvað persónuafsláttur og skattleysismörk ættu að vera ef þau mörk hefðu fylgt öðrum verðbreytingum. Í því felst m.a. að skattheimta á einstaklinga hefur aukist.

Ég vona að hæstv. fjmrh. svari þessum spurningum sem ég hef borið fram. Jafnframt krefst ég þess að hann geri okkur grein fyrir því hvað ríkisstjórnin ætlast fyrir varðandi skattlagningu einstaklinga. Það kom fram í máli hans að nefnd er nú að störfum og eins og hér hefur verið sagt á stjórnarandstaðan engan hlut þar að máli. Nefndin á að skila af sér fyrir árslok. Hvað þýðir það? Hvað er það sem menn ætla sér að gera? Hvað á að draga mikið úr jaðarsköttunum? Hvert er markmið ríkisstjórnarinnar í þeim efnum? Í því samhengi, þó ég taki undir það markmið að draga úr jaðarsköttum þá þurfa menn náttúrlega að kanna hvaða hópar í samfélaginu standa verst að vígi. Það er ekki endilega þannig að meðaltekjufólkið og fólkið sem er með börnin sé sá hópur sem stendur verst að vígi. Það geta verið aðrir hópar svo sem aldraðir sem ríkisstjórnin er sífellt að ráðast á ár eftir ár. Það geta verið fatlaðir og að ég nefni nú ekki einstæðar mæður sem koma náttúrlega inn í þessa bótaflokka eins og barnabætur og barnabótaauka. En menn verða að gera sér grein fyrir því hvernig dreifingin er. Hverjir eru það sem verða fyrir barðinu á skattheimtunni? Hvar eru mörkin? En enn og aftur eru það auðvitað hin lágu laun sem eru aðalbölvaldurinn í okkar kerfi.