Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 16:08:33 (1222)

1996-11-14 16:08:33# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[16:08]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru örfá atriði sem mig langar til að svara nú strax. Í fyrsta lagi kemst ég ekki hjá að benda á að atvinnuleysi hér á landi hefur orðið heldur minna en í öðrum löndum sem hafa orðið fyrir búsifjum eins og við, kannski fyrst og fremst vegna þess að við höfðum vit á því að laga til skatta fyrir fyrirtækin þannig að fyrirtækin gætu starfað og ráðið fólk eða haldið fólki í vinnu. Það er það sem skiptir afar miklu máli að við skiljum öll saman.

Í öðru lagi spurði hv. þm. um eftirlit með skattsvikum. Það vill svo til að í hólfum þingmanna liggur núna fréttabréf frá Starfsmannafélagi ríkisstofnana og í leiðara þess koma fram allar þessar upplýsingar. Átak hefur verið gert tvívegis og skilað verulegum árangri. Ég vil benda hv. þm. á að lesa leiðara þessa fréttabréfs mjög vel en fréttabréfið liggur í hólfum þingmanna.

Um tapsfrádráttinn er lítið hægt að segja annað en að í heildina er hann uppsafnaður um 75 milljarðar. Það sem er frá 1991 og eldra er um 30 milljarðar, en þeirri upphæð er ekki skipt upp milli ára þannig að það er ómögulegt að átta sig á því nákvæmlega hvað mikið tilheyrir árunum 1988, 1989 og 1990.

Loks vil ég taka fram að ég get ekki lýst í einstökum atriðum hver verður niðurstaða nefndar sem á eftir að skila störfum. Við höfum búist við því að til reiðu væru fjármunir sem fengjust með því að draga úr afsláttum tekjuskattskerfisins. Ég nefni til að mynda hlutabréfaafsláttinn í því sambandi. Hins vegar mætti nota í þessu skyni tekjur sem koma af fjármagnstekjuskatti, en ýmsir hafa bent á að þær ætti frekar að nota til að lækka eignarskatta.