Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 16:31:14 (1224)

1996-11-14 16:31:14# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[16:31]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru örfá atriði úr ræðu hv. þm., sem er nú mjög svipuð ræðunni sem hann flutti í fyrra reyndar og kannski ekki skrýtið. (RG: Fjmrh. man vel.) Hann man sumt vel. Varðandi það sem kom fram hjá hv. þm. um samstarf okkar í síðustu ríkisstjórn þá tek ég undir það. Það var unnið kerfisbundið að því að bæta hag atvinnulífsins í ákveðnu skyni. Nú er verið að gera aðra hluti, eðlilega þó. Það er verið að reyna draga úr hagsveiflunum hér á landi í gegnum skattkerfið. Það kemur fram í því frv. sem nú er um að ræða. Og það er verið að jafna samkeppnisskilyrði á milli atvinnugreina. Þetta er gamall draumur hv. þm., veit ég. Það er áfram unnið kerfisbundið í þessum málum þó að viðfangsefnin séu ekki nákvæmlega þau sömu.

Sem betur fer hefur það gerst, af því hv. þm. kom inn á það, að ráðstöfunartekjur, þ.e. tekjur manna eftir að tekið hefur verið tillit til skatta, hafa aukist á undanförnum árum og heldur meira en þjóðartekjurnar. Það þarf að koma fram hér því stundum er látið að því liggja að svo sé ekki. Loks ætla ég að minna hv. þm. á það, en hv. þm. er fyrrum formaður Alþfl., að fyrrv. varaformaður hans í Alþfl. sat í nefninni sem samdi frumvarpið um fjármagnstekjuskattinn og bar auðvitað ábyrgð á því starfi eins og aðrir nefndarmenn. Og loks, af því talað er um að samskiptin séu léleg við aðila vinnumarkaðarins og verkalýðshreyfinguna, þá skal það tekið fram að í þeirri títtnefndu nefnd sem vinnur að jaðarskattsáhrifunum, sitja fulltrúar aðila vinnumarkaðarins þar á meðal fulltrúi ASÍ og þar er verið að vinna að málunum í hinu besta samkomulagi.