Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 16:34:55 (1226)

1996-11-14 16:34:55# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[16:34]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég átti við er að þetta er sama ræðan og hv. þm. flutti við umræðuna um fjármagnstekjuskattinn í fyrra. Það var alveg sérstakt mál. En hann segir að nefndarstarf hafi dregist á langinn. Er það svo? Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar segir berum orðum nákvæmlega að nefndarstarfinu skuli ljúka fyrir árslok 1996. Það ár er ekki liðið. Ég veit ekki betur en að þetta starf sé nákvæmlega á áætlun. Þá segir hv. þm.: Er nú ekki ráð fyrir fjmrh. að opna nefndina og bæta við fulltrúum Alþfl., Alþb., Kvennalistans o.s.frv.? Finnst nú hv. þm. það vera eðlilegt í ljósi reynslunnar frá því í fyrra þegar fulltrúar Alþfl. og Alþb. tóku þátt í samningu frv., skiluðu skýrslu og hlupu svo frá öllu saman? Það gerði reyndar ekki fulltrúi Kvennalistans. Ég held að sporin hræði.