Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 17:08:25 (1231)

1996-11-14 17:08:25# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[17:08]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil að það komi strax fram varðandi sérsköttun og samsköttun og það er hárrétt hjá hv. þm. að tvær meginleiðir koma til greina. Sjálfur hef ég verið hallur undir sérsköttunarleiðina, ég held að hún sé betri og einmitt betri með tilliti til þess sem hv. þm. benti á, sjálfstæði einstaklinganna til að velja og hafna. Minn flokkur er ekki sömu skoðunar. Reyndar man ég þá tíð að Kvennalistinn sneri líka við blaðinu í þessum efnum og hér inn á þing kom mál sem var alls ekki í þá veru sem hv. þm. var að lýsa sem stefnu Kvennalistans. Það hefði verið fróðlegt að heyra þau sjónarmið líka þegar hv. þm. var að ræða málið. (KH: Þá hefur þú ekki hlustað.) Þá hef ég ekki hlustað nægilega vel og biðst afsökunar á því. Ég man eftir að hafa áður rætt þetta við fulltrúa Kvennalistans sem voru ekki sömu skoðunar og hv. þm. hér úr þessum ræðustól. Svo vil ég að það komi fram að ég vissi ekki betur en að búið væri að jafna þann mun sem kemur fram á framtalseyðublöðum. Breyting var gerð á yfirstandandi ári sem átti að jafna muninn. En ég skal viðurkenna að ég man ekki nákvæmlega hver röðin er í því sambandi en að minnsta kosti var gerð breyting á framtalseyðublaðinu, sérstaklega með tilliti til þess að ekki væri hægt að halda því fram að annar væri rétthærri en hinn. Því miður á ég engin svör við því þegar um fólk í sambúð er að ræða, þ.e. tvo einstaklinga af sama kyni, hvor verður skráður á undan. En ég held að hv. þm. sem kallaði fram í með því að benda á að stafrófsröð er oft notuð þegar skera þarf úr slíkum ágreiningi.