Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 17:38:19 (1237)

1996-11-14 17:38:19# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[17:38]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil taka undir seinustu orð hv. ræðumanns sem var hér á undan að þetta er allt of algengt. En þarna skilur kannski mest á milli hversu húsbóndahollir menn eru því framkvæmdarvaldi sem þeir þurfa að þjóna hverju sinni. Það er mesti veikleiki þingsins að búa við það að framkvæmdarvaldið hefur það sterk tök á þinginu að það má mjög um það deila hvort þingskipuð stjórn sitji yfir landinu eða hvort það sé þing sem sé bundið af framkvæmdarvaldinu. Og nú glottir hæstv. fjmrh. því ég hygg að hann skilji mætavel hvað ég er að tala um.

Ég held að hann hafi staðið sig nokkuð vel í sinni vörn hér í dag. Hann hefur þurft að standa í nokkuð mikilli vörn eins og oft vill verða með fjmrh. Þeir eiga að gæta ríkiskassans og verða að gera það því það er nú einu sinni svo að það vilja fleiri ná fé úr þeim kassa en leggja peninga í hann. Það var einu sinni sagt um fjmrh. í röðum Framsfl. að hann hefði haft það ráð að sitja á kassanum og lemja frá sér með lyklinum og varðist nokkuð vel. En hvað um það.

Það var kannski ein athugasemd sem var dálítið hæpin. Það var þegar hæstv. ráðherra tók undir með hv. þm. Agli Jónssyni að það gæti bjargað málum ef stafrófið yrði látið ráða hvor aðili ætti að skrást á undan á skatteyðublaðið. Vegna fámennis þá áttaði ég mig strax á því af því tilfelli sem umræðan snerist um að það bjargaði engu. Þannig getur verið í sumum tilfellum að ekki aðeins séu karlarnir þetta hátt settir heldur líka á undan í stafrófinu.

Ég geri mér grein fyrir því að ég breyti ekki þeim texta sem hér er og því sem hér verður lagt til. Hins vegar ætla ég að ræða örlítið um það sem á bak við býr. Ég er sannfærður um að á sínum tíma var rétt að taka upp skattafslátt til að örva kaup á hlutabréfum. Og ég er sannfærður um að það er miklu betra fyrir íslenska hagkerfið að ekki sé hægt að skipta því alveg í launþega og fyrirtæki eins og menn eru að gera. Flestir eigendur fyrirtækja eru líka launþegar ef þetta er skoðað. Ég tel að það hafi verið kannski of rýmilega skammtað. En það þurfti að skammta mjög rýmilega til þess að koma mönnum af stað til að leggja fé í atvinnureksturinn. Ég hefði talið það betra ef hæstv. fjmrh. hefði ekki stigið þetta skref að fullu. Ef hann hefði þrengt þetta ákvæði en haldið þessu inni bara til þess að tryggja það hugarfar hjá íslenskri þjóð að það sé nauðsyn að setja peninga í atvinnurekstur.

Þetta segi ég vegna þess að það er búið að halda því að þjóðinni og launamönnum fyrst og fremst að þeir eigi að setja peninga í húsnæði. Kannski er það aðalmeinsemd hins íslenska efnahagslífs að við erum búnir að fjárfesta miklu meira í íbúðarhúsnæði en þjóðirnar í kringum okkur. Það er auðvelt t.d. að bera saman hvaða rými er á hvern einstakling í höfuðborg Finnlands og í íslensku höfuðborginni. Skekkjan er ekkert smáræði. Ég segi þetta hér vegna þess að þó vissulega sé ekki hægt að segja að það sé öruggt að allt það fé sem fer í íslensk fyrirtæki muni skila sér í möguleikum þeirra til þess að greiða fleiri aðilum laun eða greiða hærri laun, vegna þess að þeim er að sjálfsögðu frjálst að fjárfesta erlendis eins og búið er að ganga frá málum, þá er það samt svo að það er grunnurinn. Það er grunnurinn undir því að allt hitt haldi velli að atvinnurekstur í landinu sé svo öflugur að launþegahreyfingin hafi einhverja til þess að krefjast þess af að þeir greiði betri laun. Við ætlum launþegahreyfingunni að hafa þann styrkleika að hún geti fylgst með því að þar verði ekki slík auðsuppsöfnun að óeðlilegt geti talist en ég undirstrika það að ég vil að íslensk fyrirtæki eigi eigið fé og ég vil að sem flestir eigi í þeim. Það er miklu meira atriði en menn halda og þess vegna var þetta skynsamlegt á sínum tíma. Það var skammtað mjög rúmt. Ég hefði talið það mun betra ef þetta hefði verið þrengt en þessu hefði verið haldið.

[17:45]

Ég held að þegar menn standa hér upp og segja að allir flokkar hafi lofað lækkun á jaðarsköttum fyrir seinustu kosningar þá sé það út af fyrir sig hárrétt. Það er út af fyrir sig hárrétt að við höfum tekið mikinn tíma í þetta, ef til vil meiri tíma en æskilegt væri. Hluti af dæminu er kannski sá að ríkissjóður hefur verið rekinn með alvarlegum halla. En menn hafa líka sveiflast út í öfgana. Heill þingflokkur boðaði það einu sinni að það ætti að leggja tekjuskattinn af. Þess vegna verð ég að segja eins og er að mér brá illa á seinasta kjörtímabili að sjá það gerast að við hækkuðum þennan tekjuskatt. Við hækkuðum hann verulega. Og með því að bæta jaðarsköttunum við lokuðum við þeirri leið sem ungir og skuldugir menn höfðu áður til að vinna sig út úr skuldunum. Við lokuðum henni og við sögðum hreinlega við þessa menn: Annaðhvort verðið þið gerðir gjaldþrota eða að þið brjótið lög. Stór hluti hefur lent í því að verða gjaldþrota. En þeir eru líka margir sem hafa tekið þá ákvörðun að skynsamlegra sé þá að brjóta lögin. Í reynd höfum við komið okkur upp kerfi sem verðlaunar tvöfalt ef menn fara í það að komast hjá því að borga það sem þeim ber með svartri atvinnustarfsemi. Við launum það í fyrsta lagi með lækkun tekjuskattsins og við launum það líka í gegnum jaðarskattana mjög ríflega. Ég er sannfærður um að tekjuskatturinn er í prósentum of hár í þessu landi. Ég minnist þess einu sinni að faðir núverandi formanns Alþfl. stóð á sviðinu í Alþýðuhúsinu á Ísafirði og sagði: ,,Sá sem vinnur verður ávallt að hafa stóran ávinning vinnu sinnar.`` Og það sem meira er þetta er undirstaðan þess að hið vestræna hagkerfi haldi velli vegna þess að meinsemd kommúnismans var sú að þar var kenningin hin: ,,Menn eiga að leggja fram eftir getu sinni og fá eftir þörfum sínum.`` Það var ekki til það fífl sem ekki vildi fá eftir þörfum sínum. En þeir voru ansi margir sem komu sér undan því að leggja fram sitt framlag eftir getu sinni. Jafnvel Stalín sem trúði á kerfið, sem betur fer var hann kannski ekki of trúaður, sá að þessi fjandi gekk ekki og útbjó svokallaða Stakanov-kenningu sem flestir kannast við, um kolaverkamanninn sem hann sagði að mokaði þrefalt á við hina. Og á hann að hafa sama kaup, spurði Stalín. Það kemur ekki til greina, hann á að hafa meira. Og út á þennan kolaverkamann komst hann að þeirri niðurstöðu að það væri réttlátt að hafa mismun og mismunurinn er driffjöðrin.

Ef menn aftur á móti halda að Íslendingar séu svo heimskir að þeir hagi sér ekkert eftir því hvernig skattarnir eru, þeir puði alveg jafnmikið og taki þessu bara þegjandi og hljóðalaust, þá þekkja þeir ekki íslenska þjóð. Íslenska þjóðin skoðar skattkerfið og hagar sér að verulegu leyti eftir því, að sjálfsögðu. Við værum ekki svona gáfaðir Íslendingar ef við reyndum ekki að gera það. Ég veit að hæstv. fjmrh. gerir sér grein fyrir því að tekjuskattskerfið er komið út í öfgar. Það er komið út í öfgar. Ég er sannfærður um að hæstv. fjmrh. gerir sér grein fyrir því. Ég hef tekið eftir því meira að segja stundum að hann hefur sagt erfiða hluti fyrir Sjálfstfl. eins og þegar hann vakti athygli á því að stefna flokksins í ríkisfjármálum væri ekki beint raunhæf. Hún gengi ekki upp nema þegar menn væru í stjórnarandstöðu. Ég hef nú kannski málað þetta örlítið of sterkt en þó var það mætur stuðningsmaður Sjálfstfl. og skólastjóri til margra ára sem skrifaði sérstaka grein þar sem hann krafðist þess að fjmrh. gerði grein fyrir þessum orðum sínum og útskýrði hvað hann ætti við. Það er nefnilega hlutur sem við hinir höfum lengi vitað að stefna Sjálfstfl. í ríkisfjármálum gengur ekki að öllu leyti upp nema þegar hann er í stjórnarandstöðu.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt að ræða eitt atriði sem gerðist varðandi skattlagninguna. Fjmrh. var búinn að glíma við það sem mjög erfitt vandamál hvernig ætti að ná sáttum um fjármagnstekjuskatt. Það veit hver einasti Íslendingur sem eitthvað þekkir til í pólitík að það var ekkert auðvelt hjá hæstv. fjmrh. að vera fjmrh. fyrir Sjálfstfl. og fá niðurstöðu í það mál. Ég get þess vegna ekki láð honum það þegar fulltrúar atvinnurekenda og launþega og flokkanna komust að þeirri niðurstöðu að hann skyldi láta skynsemina ráða og fara eftir tillögunni þó vitlaus væri --- þó vitlaus væri. Það hefði nú margur gert í hans sporum, ekki satt, að kjósa heldur frið um vitlausa tillögu heldur en að fara út í ófrið bæði innan síns flokks og einnig hér í þinginu því vafalaust hefði mönnum sýnst sitt hverjum. En hættan við þetta tiltæki liggur í því að hér á landi er fullt af litlum hlutafélögum. Og þessi litlu hlutafélög geta einfaldlega sagt og munu að sjálfsögðu gera það: ,,Það er miklu skynsamlegra að við borgum okkur út arð heldur en að við borgum okkur út laun. Höfum launin lág en borgum bara út góðan arð.`` Og hvað gerist þá? Jú, menn sleppa þokkalega frá þessum jaðarsköttum með tiltækinu og fá ekki nema 10% skatt á hitt sem þeir borga út sem arð. Niðurstaðan er þess vegna sú að þetta kerfi hlýtur að ýta mjög undir að hin gáfaða íslenska þjóð stofni nú einkahlutafélög í stórum stíl. Þetta veit ég að hæstv. fjmrh. er ljóst. Og hví skyldu menn ekki gera það? Ég er ekki viss um að það sé auðvelt að stofna hlutafélag um hjónabandið en það getur vel verið að Kristín Halldórsdóttir, hv. þm., gæti fengið upplýsingar um það hvernig hægt væri að koma því fyrir og menn létu reyna á þetta í alvöru. Verktakastarfsemi er heimil þannig að að sjálfsögðu er hægt að ráða sig sem verktaka við hin ýmsu störf og það væri hægt að koma þessu skynsamlega fyrir. Ritstjóri getur alveg jafnt verið í verktakastarfsemi eins og hann getur verið launþegi. Það er ekkert sem mælir á móti því. Hann getur haft það sem verktaki að skrifa leiðara eða stjórna blaði. En við þingmenn búum við það stórkostlega vandamál að við yrðum sennilega að breyta þessu með mjög áberandi hætti þannig að ég er ekki viss um að það væri hægt að koma því í hlutafélagsform svo auðveldlega í ljósi þess að hæstv. fjmrh. mundi trúlega snúast gegn slíkum breytingum. (Fjmrh.: Er ekki ástæða til að krefjast útboðs?) Svo er það náttúrlega þetta með úboðin sem hér hefur komið fram og þá hluti alla að menn vilja ná auðlindaskatti og ætla að leggja sérstakan skatt á útvarpsrásir og sjónvarpsrásir. Þetta leiðir náttúrlega hugann að því að embættisveitingar voru einu sinni seldar. Það er hópur manna sem sækir um sum hæstlaunuðu embættin. Það mætti nú bjóða það út. Þannig að þetta er út af fyrir sig rökrænn tekjustofn ef menn horfa á þetta út frá þessu sjónarmiði. En það hefur ekki orðið sú stefna enn þá í Alþfl. að það sé boðið út hver verður formaður þar. Það eru kosningar hafðar innan flokksins þó sá möguleiki hafi verið ræddur í þingsölum af núverandi formanni, að auðlindaskatturinn væri kominn á ef menn færu að úthluta sjónvarpsrásum eftir sérstöku kerfi þar sem yrði látið greiða fyrir slíka hluti.

Ég ætla að staldra við eitt sem vafalaust á eftir að koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum og það er þessi blessaður persónuafsláttur. Sannleikurinn er nefnilega sá að það er mikil spurning hvort ekki á alveg að afnema persónuafsláttinn. Og hvers vegna? Lækka prósentuna. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. hefur hugleitt þetta. En það er nú einu sinni svo að eftir því sem prósentan er orðinn hærri, þeim mun ákveðnar leita menn að útgönguleiðum. Þeim mun lægri sem hún er, þeim mun fremur sætta menn sig við hlutina. Og það er líka að sumu leyti hollt að útrýma þeirri skoðun að verið sé að refsa mönnum með því að leggja skatta á. Það heyrist á ólíklegustu stöðum að skattar séu lagðir á til að refsa mönnum. Skattar eru lagðir á til þess að ríkið fái tekjur, ekki til refsingar. Og ef menn ætla að halda tekjuskattinum við þá þarf það viðhorf að vera til staðar að eðlilegt sé að menn þurfi að greiða eitthvað af sínum tekjum til ríkisins. En ef menn standa frammi fyrir því að með jaðarsköttum og öllu þessu dóti, húsaleigubótum og hvernig sem menn setja þetta upp, séu menn kannski komnir í 80% skatta til ríkisins, þá er nú ekkert skrýtið þó að menn fari nú að setjast niður og hugsa: Hvernig í dauðanum á ég að komast undan þessu og út úr þessu? (Gripið fram í: Finna nýtt starf.) Sumir hafa fundið nýtt land og komið sér upp skattaparadís erlendis. Það er út af fyrir sig staðreynd varðandi söluhagnað o.fl. En það sem ég held að menn verði að átta sig á er að íslenska skattkerfið hefur ekki náð þeirri fullkomnun að þar verði að hætta öllum breytingum. Við verðum að fara í stórtækar breytingar á þessu kerfi. Og við verðum að lækka virðisaukaskattinn og við getum ekki gert það nema með því að leggja virðisaukaskatt á fleira en við leggjum á í dag. En það er eins með þetta og fleira að það eru heilagar kýr sem enginn má hreyfa við jafnvel þó það sé sannað mál að hægt væri að tryggja að það færi allt í ríkissjóð. Við viljum ekki leggja skattinn á heitt vatn t.d. Það má ekki. Og til að kóróna þetta höfum við fundið okkur ótrúlegustu undankomuleiðir, t.d. er það upplýst að nektardansmeyjar séu skattlausar á Íslandi. Þær fara af landi brott eftir að þær eru búnar að vera þann tíma sem þær mega njóta þessara skattfríðinda og þær eru listamenn. Mér þætti vænt um að það yrði upplýst hvort það væri hæstv. fjmrh. sem sjálfur hefur úrskurðað hvort þær séu listamenn eða ekki, eða hvort einhver annar lægra settur í ráðuneytinu hefur komist að þeirri niðurstöðu.