Afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 18:04:44 (1239)

1996-11-14 18:04:44# 121. lþ. 24.15 fundur 127. mál: #A afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[18:04]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því, þegar hv. þm. var að rökstyðja þá tillögu sína að áskriftargjöldum vegna Ríkisútvarps yrði aflétt af þjóðinni, að hann vísaði til þess að við byggjum í frjálsu markaðskerfi. Mér finnst þetta svolítið sérkennilegur rökstuðningur og vildi gjarnan inna flutningsmann frekar eftir þessu frjálsa markaðskerfi sem hann telur að við búum við. Við erum með víðfeðmt velferðarkerfi fyrir fólkið í landinu. Er það hluti af frjálsa markaðskerfinu hans? Sem betur fer erum við með nokkuð víðtækan stuðning við menntun og menningu. Ég veit ekki hvort hann flokkar það sem hluta af frjálsu markaðskerfi. Að auki er ótrúlega mikill stuðningur af hálfu hins opinbera við atvinnulífið. Ég vildi líka fá að vita hvort það er hluti af þessu frjálsa markaðskerfi sem hann notar sem rökstuðning í sínu máli.