Afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 18:05:58 (1240)

1996-11-14 18:05:58# 121. lþ. 24.15 fundur 127. mál: #A afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu# þál., Flm. VK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[18:05]

Flm. (Viktor B. Kjartansson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e., Svanfríður Jónasdóttir, beindi þeim spurningum til mín eða kom með þá ábendingu að við byggjum í frjálsu markaðsþjóðfélagi en héldum úti annars konar starfsemi í þjóðfélaginu í senn. Og það er alveg rétt. Við höldum úti velferðarkerfi. Ég lít ekki svo á að rekstur Ríkisútvarpsins sé nauðsynlegur þáttur í velferðarkerfi þjóðarinnar. Ég tel ekki að það teljist til velferðarkerfis að halda úti ríkisútvarpi. Hún sagði einnig að við héldum úti menntun og menningu og hvort ég teldi að það væri hluti af hinu frjálsa markaðsþjóðfélagi. Og það var akkúrat það sem ég nefndi í ræðu minni. Ef menn telja ástæðu til að halda úti sérstakri mennta- og menningardagskrá á Ríkisútvarpinu þá á að endurskilgreina þá starfsemi og greiða fyrir þá starfsemi á fjárlögum ef menn líta á það sem nauðsynlegt menningarlegt gildi sem þar er flutt. Og það er nákvæmlega það sem ég benti á í ræðu minni. Einnig benti hún á að víðtækur stuðningur væri af hendi ríkisins til atvinnulífsins. Ég held að menn séu að færast óðum frá slíkum stuðningi og telji að það sé ekki í hlutverki ríkisins að mismuna fyrirtækjum eða einstaka atvinnugreinum með ríkisstyrkjum. Það kom mjög bersýnilega í ljós t.d. í umræðum um Byggðastofnun þar sem menn bentu á að eðlilegt væri að draga úr ríkisstyrkjum til atvinnulífsins.