Afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 18:21:21 (1245)

1996-11-14 18:21:21# 121. lþ. 24.15 fundur 127. mál: #A afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu# þál., Flm. VK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[18:21]

Flm. (Viktor B. Kjartansson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði hvernig rekstur Ríkisútvarpsins yrði tryggður ef afnotagjöldin yrðu afnumin. Eins og nefnt er í greinargerðinni verður afnám skylduáskriftarinnar og ákvörðunin um það hvaða starfsemi Ríkisútvarpsins á að halda úti og hvernig að fylgjast að. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni eru um ýmsa möguleika að ræða, t.d. að endurskilgreina þann þátt Ríkisútvarpsins sem við teljum að gegni menningarlegu hlutverki og greiða það úr ríkissjóði en taka út þá starfsemi sem við teljum að væri betur komin annars staðar. Þá er spurning hvort það yrði fjármagnað með áskriftarkerfi eða hreinlega lagt niður. Þetta þarf allt að fylgjast að í þeirri ákvörðun að afnema afnotagjöldin. Hv. þm. nefndi einnig að dagskrárstefnan kæmi málinu ekki við. En það er það sem ég sagði, að menn eiga að hafa það í huga þegar verið er að tala um Ríkisútvarpið að þar fer fram margs konar starfsemi sem tengist að sjálfsögðu dagskrárstefnunni. Þar eru ýmsir dagskrárliðir sem yrði ekki boðið upp á á frjálsum markaði. Það er akkúrat slík starfsemi sem Alþingi gæti þá endurskilgreint og haldið úti af fjárlögum. Þannig að dagskrárstefna kemur inn á þetta mál að sjálfsögðu.