Afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 18:25:47 (1247)

1996-11-14 18:25:47# 121. lþ. 24.15 fundur 127. mál: #A afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[18:25]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Virðulegi forseti. Ég hygg að hv. þm. Viktor B. Kjartansson hafi í raun byrjað á öfugum enda í tillöguflutningi sínum. Nær væri að leggja fram þáltill. um að leggja Ríkisútvarpið niður því ekkert annað felst í þessari tillögu en sú hugsun. Með því að afnema skylduáskrift að Ríkisútvarpinu er verið að kippa grundvellinum undan rekstri ríkisútvarps á Íslandi og það ber þá að viðurkenna það. Ganga hreint til verks og bera fram þá tillögu en koma ekki aftan að málinu með þessum hætti. Ég spyr eins og hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, hvernig hyggst þingmaðurinn bæta skaðann, 1.560 millj. kr. samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs? Það er sjálfsagt að ræða þessi mál frá öllum hliðum og velta því fyrir sér hvernig best sé að reka ríkisútvarp á Íslandi. En þessi tillöguflutningur, þar sem aðeins er skoðaður afmarkaður þáttur í starfi og starfsemi Ríkisútvarpsins, leiðir að mínu viti ekki til heillavænlegrar niðurstöðu eða til niðurstöðu sem þjónar almannaheill og almannahag.

Eins og hv. þm. vita hafa verið settar saman ýmiss konar nefndir í gegnum tíðina til þess að skoða og skilgreina starfsemi Ríkisútvarps á Íslandi. Hver á fætur annarri hefur komist að þeirri niðurstöðu að óráðlegt sé að afnema afnotagjöldin og að þau séu þó illskársti kosturinn í stöðunni. Þetta er gert víða annars staðar í þessari álfu. Það eru ríkisstöðvar annars staðar í Evrópu sem eru reknar með svipuðum hætti. Aðalatriðið í málinu er auðvitað að með því að tryggja Ríkisútvarpinu tekjur í gegnum afnotagjöldin tryggjum við rekstur þess og við tryggjum líka sjálfstæði þess. Við tryggjum sjálfstæði stofnunarinnar og það skiptir mestu máli í umræðunni. Sjálfstæði stofnunarinnar til þess að vera sá lýðræðislegi miðill sem hún er og mun vonandi alltaf verða. Það er mergurinn málsins. Það verður að gera Ríkisútvarpinu kleift að uppfylla þær lagaskyldur sem það hefur samkvæmt útvarpslögum. Sé það hins vegar vilji hins háa Alþingis að leggja niður þennan ríkisútvarpsrekstur og sé það skýr og klár vilji Sjálfstfl. ber þeim flokki auðvitað að leggja fram tillögu um það og þá skal hún rædd. En þáltill. af þessu tagi leiðir okkur, held ég, aðeins inn í öngstræti í umræðu um Ríkisútvarpið og skoðar bara eina hlið á því húsi sem eins og við öll vitum hefur miklu fleiri hliðar.