Afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 18:33:13 (1250)

1996-11-14 18:33:13# 121. lþ. 24.15 fundur 127. mál: #A afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu# þál., TIO
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[18:33]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Ég held að þess hafi gætt nokkuð í umræðunni að menn hafi slitið þá till. til þál., sem hér er til umræðu, nokkuð úr samhengi við eðli málsins. Tillagan gengur út á að skorað er á menntmrh. að leggja fram frv. um afnám skylduáskriftar almennings að Ríkisútvarpinu. Þessi áskorun er studd með greinargerð sem kemur vissulega inn á mjög mörg vandamál sem eru því samfara að reka saman ríkisstofnun, sem fjármagnar sig annars vegar með áskrift, --- ég vil leiðrétta það sem kom fram hjá hv. 18. þm. Reykv., Ástu R. Jóhannesdóttur, að Ríkisútvarpið er ekki greitt úr sameiginlegum sjóðum eins og hún sagði áðan, ég skrifaði það niður eftir henni. Þetta er greitt með afnotagjöldum sem eru nánast þjónustugjöld sem eru skilgreind miðað við eign á viðtækjum. Ýmiss konar vandamál koma upp þegar stofnun eins og Ríkisútvarpið er rekin annars vegar af slíkum tekjustofnum og hins vegar af auglýsingum og raunar líka af eins konar stuðningsframlögum, eins og Ríkisútvarpið nýtir sér, ásamt hinum frjálsu fjölmiðlum. Þessi vandamál eru sum hver rakin í greinargerðinni réttilega en önnur sjónarmið koma þar ekki fram sem ég mun nú víkja að einnig.

Ekki er hægt að neita því að samfara áskriftargjaldinu eru margvísleg vandamál. Það gengur ekki að setja málið þannig upp að ef farin væri önnur leið til að fjármagna starfsemi Ríkisútvarpins værum við komin í öngstræti og því væri jafngott að leggja Ríkisútvarpið niður. Þessi umræða er allt of þröng miðað við eðli málsins.

Í tveimur nefndum sem ég hef starfað í, annars vegar svokallaðri útvarpslaganefnd sem tók þetta mál mjög til athugunar, reyndum við að gera okkur grein fyrir hverjir væru annmarkarnir við afnotagjaldið og hvað kæmi til greina að gera í staðinn. Annmarkarnir við afnotagjaldið hafa ekki komið mjög fram í þessari umræðu. Það virðast vera meiri annmarkar á innheimtu afnotagjalds á Íslandi en annars staðar. Ég hef ekki orðið var við, þó ég hafi leitað eftir upplýsingum um það, að afnotagjaldið sem BBC fjármagnar starfsemi sína á hafi valdið mikilli togstreitu í Bretlandi. Fjölmargir ríkisfjölmiðlar eru fjármagnaðir með afnotagjöldum í Evrópu en hafa, öfugt við BBC, einnig auglýsingatekjur. Svo er t.d. með þýsku ríkissjónvarpsstöðvarnar að þær hafa heimild til að afla auglýsinga en þær heimildir eru takmarkaðar vegna þess að menn telja, á nákvæmlega sama hátt og hv. flm. þessarar tillögu, að samkeppnin raskist. Voru þá settar hömlur á auglýsingastarfsemi til þess að vega upp á móti þessum samkeppnisaðstæðum sem ekki eru taldar eðlilegar. Ástæðan fyrir því að hér hefur risið mótmælaalda gegn áskriftargjaldinu, held ég að sé að hluta til, vegna þess að þetta er innheimt með nokkuð sérstökum aðferðum á Íslandi. Þar sem áskriftargjaldið tengist viðtækjaeign þá þarf í raun og veru Ríkisútvarpið að hafa mjög nákvæmar upplýsingar um viðtækjaeignina en jafnframt um það hvað verður um slíka viðtækaeign t.d. þegar hjónabönd leysast upp. Því miður gerist það æði oft á Íslandi að eignir manna skiptast mjög við tíða hjónaskilnaði. Þá hefur Ríkisútvarpið ekki um aðra möguleika að velja, að því mér sýnist, en að hefja yfirheyrslur um það hvernig fólk skiptir eignum sínum. Þessum eftirrekstri er stundum hægt að líkja við persónunjósnir. Þetta er mjög leiðinleg innheimtuaðferð og margir sneru sér til mín þegar ég var formaður útvarpslagnefndar og kvörtuðu undan þessu. Sögðu að þeir þyrftu að gera skil á opinberum skrifstofum fyrir sínum persónulegu málum til að hægt væri að innheimta af þeim þetta gjald. Fyrir utan það að oft hlóðust upp óheyrilegar skuldir af því að menn gerðu sér ekki grein fyrir hvernig þeir þyrftu að skýra Ríkisútvarpinu frá því hvernig þeir færu með eignir sínar við lögskilnað, svo ég taki sem dæmi. Þetta er eitt af því sem ég held að menn ættu að taka til athugunar í þessari umræðu, þ.e. að innheimta afnotagjaldanna hefur gengið verr hér en annars staðar. Hún hefur valdið meiri úlfúð. Og það er ekki að ástæðulausu að hér hafa komið upp samtök gegn þessum áskriftargjöldum.

Það er líka alveg hárrétt hjá flm. tillögunnar að samkeppnin milli einkamiðlanna og ríkisfjölmiðilsins er ójöfn. Hvernig dettur mönnum í hug að afneita þeirri staðreynd að t.d. einkahljóðvarpsstöðvarnar hafa engan möguleika til að fjármagna sig nema auglýsingar? Þær hafa engan annan möguleika. Áskrift er ekki til í þeim dæmum hjá hljóðvarpsstöðvunum. Hvernig standa þessar einkahljóðvarpsstöðvar í samkeppni við ríkisfjölmiðilinn sem er með fulla og óskerta auglýsingastarfsemi? Auðvitað standa þær mjög illa enda segja mér aðilar sem reka einkahljóðvarpsstöðvar, og það vill svo til að sumar þeirra eru býsna athyglisverðar þrátt fyrir þröngan fjárhag, að þeir standist ekki þessa samkeppni. Það sé ekki hægt. Hvers vegna ætla virðulegir þingmenn á Alþingi að tala um þetta eins og vandamálið sé ekki til? Hvers vegna vilja menn tala um það þannig að einkastöðvarnar geti ekki, ef þær fá til þess svigrúm, tekið þátt í því að gera starfsemi íslenskra ljósvakamiðla ríkari og betri m.a. vegna íslenskrar menningar og fyrir íslenska menningu ef hægt er að stuðla að því með einhverju móti? Mér finnst ekki ástæða til að þrengja umræðuna svona og loka augunum fyrir þessum vandamálum.

Tökum t.d. íslenska blaðaheiminn. Þar er ekki rekinn neinn opinber fjölmiðill. En þróunin hefur orðið þannig að íslenski blaðaheimurinn hefur vaxið upp í það að gegna mjög mikilvægu menningarhlutverki. Það er eiginlega sama hvort maður tekur Morgunblaðið eða DV eða þennan nýja sambræðing Dag og Tímann eða önnur blöð, þá verður að segjast eins og er, að þessi blöð gegna mjög mikilsverðu menningarhlutverki. Hvers vegna eigum við þá ekki að leita leiða til að efla einkastöðvarnar, einkaljósvakamiðlana, til að taka þátt með Ríkisútvarpinu í því að efla íslenska menningu? Ég held að við eigum að leita leiða til þess en ekki að loka leiðum. Ég hefði viljað láta það verða mitt hlutverk í ræðustól í dag að biðja menn að hugleiða hvort við getum ekki fundið leiðir til að efla starfsemi Ríkisútvarpsins en jafnframt að efla starfsemi einkamiðlanna og hlut þeirra í því menningarstarfi sem rekstur ljósvakamiðla vissulega er. Menn mega ekki gleyma því og hv. flm. má ekki heldur gleyma því að ljósvakamál eru annars vegar viðskiptamál en hins vegar menningarmál. Við getum aldrei fjallað um þessi mál án þess að hafa þetta tvennt í huga.