Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 20:32:44 (1259)

1996-11-14 20:32:44# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[20:32]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hjó sérstaklega eftir því í ræðu hæstv. fjmrh. að kerfisbundið hefði verið unnið að því að bæta hag atvinnulífsins og því yrði haldið áfram. Við höfum upplifað á síðustu sjö árum röð sértækra aðgerða og kerfisbundinna breytinga og bóta fyrir atvinnulífið og ekki var vanþörf á. Ég vil fara svolítið aftur í tímann. Ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að á síðustu tíu árum höfum við verið að rétta kúrs í íslensku efnahagskerfi. Leiðréttingar til hagsbóta fyrir atvinnulífið hafa verið ofarlega á baugi síðustu ríkisstjórnar og þessarar og ég held að almennur skilningur hafi verið í samfélaginu og hjá þjóðinni á að leiðréttinga var þörf. Atvinnulífið á sér góða málsvara, sérfræðinga og kunnáttumenn sem streyma hingað inn með tillögur um úrbætur þannig að betur megi fara. Þannig eru þeir greinilega miklu betur settir varðandi allan málatilbúnað. Ég vil benda fólki á að þjóðin sætti sig við þrengingar vegna skilnings á stöðu atvinnulífsins en þjóðin var líka að vonast til þess að röðin kæmi að sértækum aðgerðum vegna ástands í fjármálum heimilanna. Sértækum aðgerðum vegna ástandsins í fjármálum heimilanna var lofað í síðustu kosningum. Eins og fram hefur komið í ræðum margra hér þá láta slíkar aðgerðir mjög á sér standa. Ríkisstjórnin hefur setið í 19 mánuði og ekkert bólar á því að menn fari kerfisbundið í þau mál sem brenna á fólkinu, lág laun, og leiðréttingar á skattkerfi, og þó svo að allir sem hafa talað hér virðast vera sammála um að höfuðmeinsemdin sé e.t.v. jaðarskattarnir þá treystast menn ekki til að fara í þá vinnu. Það hlýtur að vera Alþingis að vera málsvari almennings gagnvart þessu kerfi því eins og ég nefndi áðan þá hefur atvinnulífið, eðli málsins samkvæmt, miklu meiri möguleika á því að benda mönnum á og koma hér inn með þær sértæku aðgerðir og þær hugmyndir og tillögur sem þarf á að halda til þess að það geti styrkst og bætt stöðu sína.

Við síðustu kosningar gekk Framsfl. fram með kosningaprógramm, ,,Framsókn fyrir fólkið``. Það ætlar að láta á sér standa. Almenningur viðurkennir að það var nauðsynlegt að fara í sértækar aðgerðir og rétta hag atvinnulífsins en almenningur krefst þess núna að fá sértækar aðgerðir og að farið verði af alvöru ofan í hag heimilanna og settar fram alvöru tillögur um það hvernig megi snúa ofan af þeirri óheillaþróun sem við höfum þurft að búa við á undanförnum árum. Ég held að málið sé þannig að ekki sé pólitískur vilji hjá ríkisstjórnarflokkunum fyrir því að fara í þetta mál. Kannski vilja menn enn um sinn að þrengt sé að heimilunum og að ekki séu gerðar úrbætur vegna þess að það sé allur hugur hafður bara við þá sem meira mega sín en hinn almenni borgari sé ekki kominn upp á dekk, ekki kominn á blað varðandi þær aðgerðir sem er þörf á.

Ég vil nefna þær gríðarlegu breytingar sem hafa átt sér stað í íslensku efnahagslífi á undanförnum árum, sérstaklega síðustu sjö árin þegar bankakerfið þurfti að rétta af og dekka inn útlánatöp sín. Það er kannski ein af ástæðunum fyrir því að menn vilja núna lengja þann tíma sem menn geta afskrifað töp aftur í tíu ár, einmitt aftur fyrir þann tíma þegar flestir töpuðu sem mestu eða hlóðu upp sem mestum skuldum þegar verðbólga var lág og vaxtastigið í engu samhengi við það sem verðbólgan mældi í samfélaginu. Ég legg áherslu á að hér eru til tillögur ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Lögð hafa verið fram frumvörp sem eru sennilega auðveldustu aðferðir til leiðréttinga fyrir hinn almenna launamann og fyrir almenning í landinu að ráðast á jaðarskattadæmið og gera þar raunhæfar tillögur til þess að vinda ofan af því kerfi sem allir viðurkenna og hefur komið fram í ræðum margra, að er orðið forskrúfað og er kannski undirrótin að mörgum þeim vandamálum sem koma svo oft upp hér og við erum að ræða í þinginu, heimilismálin, afborganir lána, húsnæðismálin o.s.frv. Kannski eru þetta meginmálin sem við þurfum að ræða um og fara í og ég vil hvetja hæstv. fjmrh. til þess að gefa okkur skýr svör um það hvenær ríkisstjórnin hyggist fara í kerfisbundnar sértækar aðgerðir til þess að rétta stöðu almennings sem hefur farið halloka í kerfinu með sömu formúlum og sama metnaði og hagur fyrirtækjanna hefur verið réttur og kerfisbundið er unnið að á öllum vígstöðvum.

Að svo mæltu læt ég máli mínu lokið en beini þessum spurningum til hæstv. fjmrh.