Tryggingagjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 21:08:25 (1267)

1996-11-14 21:08:25# 121. lþ. 24.7 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[21:08]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

Tryggingagjald í þeirri mynd sem það er nú var tekið upp í ársbyrjun 1991. Þá voru sameinuð í eitt gjald launaskattur og ýmis smágjöld sem áður voru við lýði. Við undirbúning þeirrar löggjafar komu mjög sterkt fram þau sjónarmið að eðlilegt væri að jafna þessi gjöld og afnema það misræmi sem þá var á milli atvinnugreina en þau komu einkum fram í mismunandi háum launaskatti. Í þeim tillögum sem þá voru lagðar fram á Alþingi var gert ráð fyrir því að afnema þetta misræmi á nokkrum árum líkt og gert er í því frv. sem nú er til umræðu. Af því varð þó ekki og var því gjaldið lagt á upphaflega í tveimur gjaldþrepum. Sá sem hér stendur átti þá sæti í hv. fjárhags- og viðskiptanefnd, eins og hún hét þá, og frv. sem kom frá ríkisstjórninni var með áætlun um að falla frá þessu misræmi í nokkur ár en þessu var breytt og sagt að málið yrði tekið aftur upp að afloknum kosningum. En nú fyrst sést frv. sem gerir ráð fyrir slíkum breytingum.

Á þeim tíma sem liðinn er frá gildistöku þessara laga hafa verið gerðar nokkrar breytingar á gjaldinu. Annars vegar hafa komið til hækkanir á báðum gjaldþrepunum og hins vegar hafa nokkrar atvinnugreinar verið fluttar úr efra þrepinu í lægra þrepið. Samfara því hefur lægra þrepið verið látið hækka. Þannig hefur á undanförnum árum dregið nokkuð úr þeim hlutfallslega mun sem er á gjaldþrepunum. Ég þarf ekki að rifja upp fyrir hv. þm. umræður sem urðu um þetta mál á síðasta þingi þegar ákveðið var að skipta gjaldinu í tvennt, þ.e. almennt tryggingagjald og hins vegar atvinnutryggingagjald. Þær almennu hækkanir sem gerðar hafa verið á gjaldinu hafa tengst öðrum ráðstöfunum í skattamálum og því að fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur vaxið mjög á þessum tíma en hluti af tryggingagjaldinu rennur til hans eins og ég var að segja. Þannig var hluti Atvinnuleysistryggingasjóðs samkvæmt upphaflegum tillögum 0,15% af gjaldstofninum en er á yfirstandandi ári 1,5%.

Tvískipting tryggingagjaldsins hefur alla tíð sætt gagnrýni. Lítil rök hafa þótt fyrir henni með tilliti til ráðstöfunar á gjaldinu en eins og kunnugt er er því auk þess að renna í Atvinnuleysistryggingasjóð varið til að kosta lífeyris- og sjúkratryggingar Tryggingastofnunar ríkisins. Þá hefur einnig verið gagnrýnt að skatttaka sem þessi mismuni atvinnugreinum með tilliti til rekstrarskilyrða. Enn fremur hefur verið bent á að frá þjóðhagslegu sjónarmiði sé til langframa óheppilegt og óhagkvæmt að mismuna atvinnugreinum og beina þannig fjárfestingu í starfsemi sem ella væri óhagkvæmari en gera öðrum rekstri erfiðara um vik.

Þegar Eftirlitsstofnun EFTA hóf að eigin frumkvæði athugun á því hvort álagning tryggingargjalds í EFTA-ríkjunum stæðist ákvæði EES-samningsins komst hún að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Í bréfi til íslenskra stjórnvalda í upphafi þessa árs greindi hún frá því að líta yrði á mismunandi tryggingaagjald sem ígildi ríkisstyrks til þeirra atvinnugreina sem eru í lægra þrepinu. Ríkisstyrkir af þessum toga, einkum ríkisstyrkir sem eru fólgnir í því að greiða niður rekstrarkostnað, eru algjörlega bannaðir samkvæmt samningnum. Í bréfi Eftirlitsstofnunarinnar er íslenskum stjórnvöldum kynnt þessi afstaða með tilliti til þeirra atvinnugreina sem falla undir samninginn og heyra undir verksvið eftirlitsstofnunarinnar. Ég tek fram að þetta gildir auðvitað einungis um þær atvinnugreinar sem falla undir verksvið Eftirlitsstofnunarinnar. Var óskað eftir því að úr þessu yrði bætt hið fyrsta og nauðsynlegum breytingum komið á fyrir byrjun næsta árs. Athugun á bréfi ESA leiddi til þeirrar niðurstöðu að ekki væru rök til þess að andmæla henni. Í umfjöllun ríkisstjórnarinnar var hins vegar ekki síður litið til hinna almennu sjónarmiða um óæskilegt misræmi milli atvinnuvega og þessarar gjaldtöku. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar var því sú að stefna að samræmingu tryggingagjaldsins, eins og í upphafi var áformað, óháð því hvort slík samræming væri nauðsynleg vegna EES-samningsins eða ekki. Eftirlitsstofnun EFTA var kynnt afstaða ríkisstjórnarinnar og að hún mundi beita sér fyrir þeim lagabreytingum sem nauðsynlegar væru. Hins vegar væri nauðsynlegt að hafa nokkurn aðlögunartíma í þessu efni og að breytingarnar yrðu gerðar í áföngum. Féllst stofnunin á þau sjónarmið þótt aðlögunartíminn samkvæmt þessu frv. sé hugsanlega lengri en stofnunin telur æskilegt.

Aðilum atvinnulífsins hefur verið kynnt efni þessa frv. og það rætt við þá. Ljóst er að skiptar skoðanir eru um það einkum hafa menn áhyggjur af áhrifum á rekstrarafkomu einstakra atvinnugreina. Flestir taka þó undir þau sjónarmið að hæpin rök séu til að mismuna atvinnugreinum með þeim hætti sem nú er gert. Talsmenn sumra þessara atvinnugreina, þ.e. þeirra atvinnugreina sem fá munu á sig hærra gjald, mæla því með samræmingunni, sumir þeirra hafa lengi hvatt til hennar jafnvel þótt það kunni að hafa óæskileg rekstraráhrif þegar til skamms tíma er litið. Þeir leggja hins vegar mikla áherslu á að ekki megi hvika frá því að samræming verði altæk, þ.e. nái til allra atvinnugreina og að aðlögunartíminn verði eins fyrir alla.

Í umræðum um samræmingu tryggingagjaldsins hefur því verið hreyft að nokkur rök fyrir mismunandi gjaldi væru í því að launþegar og sjálfstæðir atvinnurekendur í mismunandi atvinnugreinum nytu í misjöfnum mæli þeirra trygginga sem gjaldi bæri uppi eða ekki í hlutfalli við laun sem eru gjaldstofninn. Við nánari athugun eru þessi rök ekki ýkja haldbær. Í fyrsta lagi er til þess að taka að tryggingagjaldið er í eðli sínu skattur sem lagður er á samkvæmt almennum reglum óháð því hvort greiðandinn fær notið þeirrar þjónustu sem það er notað til að kosta í meira eða minna mæli.

[21:15]

Í öðru lagi er á það að benda að meiri hluti tryggingagjaldsins rennur til lífeyristrygginga og sjúkratrygginga sem gera á engan hátt greinarmun á mönnum eftir því hvar þeir starfa. Minni hluti gjaldsins rennur til atvinnuleysistrygginga sem gera í eðli sínu ekki heldur mun eftir atvinnugreinum þegar um er að ræða launamenn. Hins vegar er rétt að aðrar reglur gilda um ýmsa sjálfstæða atvinnurekendur en launamenn og njóta því t.d. bændur ekki sama réttar til atvinnuleysisbóta og launþegar. Því hefur verið ákveðið að kanna málefni einyrkja sérstaklega með tilliti til þess að þeir njóti sambærilegra réttinda og aðrir þeir sem greiða til sjóðsins. Þau sjónarmið koma fram í sérstöku frv. sem félmrh. flytur og fjallar um atvinnuleysistryggingar.

Í samræmi við framangreint fjallar það frv. sem hér er til umræðu um samræmingu á tryggingagjaldinu og er gert ráð fyrir að samræmingin verði gerð í fjórum áföngum sem koma til framkvæmda í byrjun áranna 1997, 1998, 1999 og 2000 þannig að á því ári hafi full samræming náðst. Tryggingagjald er nú 6,85% í almenna þrepinu en 3,55% í sérstaka þrepinu. Af álögðu gjaldi rennur sem svarar 1,5% af gjaldstofni til atvinnuleysistrygginga en afgangurinn til trygginga hjá Tryggingastofnun ríkisins. Gjaldstofninn er um 223 milljarðar kr. og þar af eru um 30 milljarðar hjá ríkinu sem er í hærra þrepinu. Tekjur af gjaldinu er um 12,7 milljarðar, þar af um 10,7 milljarðar frá öðrum en ríkinu. Til þess að tryggja óbreyttar tekjur af tryggingagjaldinu eftir að tekið hefur verið tilliti til þess að ríkissjóður sparar okkur útgjöld með lækkun gjaldsins þyrfti samræmt gjald að vera um 5,5%.

Samkvæmt frv. verður gerð nokkur breyting á gjaldinu af tveimur ástæðum. Samkvæmt ákvörðun sem ríkisstjórnin tók í vor og kynnt var þá og lögð til grundvallar breytingum á vörugjaldi sem þá voru samþykktar á Alþingi var gert ráð fyrir að vörugjald yrði lækkað í tveimur áföngum og kæmi sá síðari til framkvæmda um leið og tryggingagjaldið yrði samræmt og var ráðgert að það yrði hækkað til að bæta upp lækkun á vörugjaldinu. Áætlað er að sú lækkun kosti um 350 millj. kr. Hin breytingin á gjaldinu stafar af því að fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs á næsta ári er áætluð minni en núverandi gjaldstofn gefur í tekjur. Samkvæmt lögum um tryggingagjald skal þeim hluta gjaldsins sem rennur til sjóðsins breytt í samræmi við þarfir hans. Samkvæmt fyrirliggjandi áætlun er unnt að lækka tekjur sjóðsins um 250 millj. kr. Af þessu leiðir að sá hluti tryggingagjaldsins sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs lækkar úr 1,5% af gjaldstofni í 1,35% en almenni hlutinn hækkar samsvarandi vegna hækkunar vörugjaldsins. Í heild hafa þessar breytingar engin áhrif á heildartekjur af gjaldinu og hið samræmda gjaldhlutfall sem verður 5,5% eins og áður er greint frá. Samkvæmt frv. mun lægra gjaldið hækka um 0,5% á ári næstu þrjú ár og um 0,45% á fjórða árinu. Það verður 4,05% á næsta ári, 4,55% á árinu 1998, 5,05% 1999 og að lokum 5,55% á árinu 2000. Hærra gjaldið sem nú er 6,85% mun lækka um 0,35% á ári nema í síðasta áfanga sem verður 0,3%

Til að varpa ljósi á einstakar atvinnugreinar má nefna eftirfarandi áætlaðar breytingar. Talið er að árleg hækkun landbúnaðar í krónum talið verði 23 millj. kr., samtals 89 millj. kr. þegar allt er talið við óbreyttan rekstur.

Fiskveiðar: Árleg hækkun verði 116 millj., samtals 453 millj. kr.

Fiskiðnaður: Árleg hækkun um 65 millj., samtals 255 millj. kr.

Almennur iðnaður: Árleg hækkun um 126 millj., samtals 489 millj. kr.

Byggingariðnaður og veitustofnanir: Árleg lækkun um 70 millj., samtals 268 millj. kr.

Verslun: Árleg lækkun 87 millj., samtals 336 millj. kr.

Hótel, veitingar, bílaleigur: Árleg hækkun um 24 millj., samtals 92 millj. kr.

Samgöngur: Árleg lækkun um 53 millj., samtals 203 millj. kr.

Bankar og tryggingar: Árleg lækkun 35 millj., samtals 136 millj. kr.

Þjónusta, menningarstarfsemi o.fl., nú í hærra þrepi: Árleg lækkun um 110 millj., samtals 431 millj. kr.

Þjónusta o.fl. nú í lægra þrepi: Árleg hækkun um 30 millj., samtals um 114 millj. kr.

Frv. þetta er í raun einfalt að gerð og þarfnast ekki ítarlegra skýringa. Ég legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.