Tryggingagjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 21:20:27 (1268)

1996-11-14 21:20:27# 121. lþ. 24.7 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[21:20]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu minni um það mál sem áður var á dagskrá, breytingar á tekjuskatti og eignarskatti vék ég að þessu máli og sagði að þetta væri kannski það jákvæðasta í skattapakka hæstv. fjmrh. Sennilega væri ofmælt að segja að þetta mál væri fram komið vegna pöntunar frá samtökum atvinnurekenda nema þá að hluta en ákvörðun er sem kunnugt tekin vegna þess að Eftirlitsstofnun EFTA fann mjög að því við ríkisstjórnina að atvinnugreinum væri mismunað með þessum hætti og taldi að það samrýmdist ekki samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í ræðu hæstv. ráðherra kom fram að sú leið sem hæstv. ráðherra hefur valið, þ.e. að dreifa þessu á fjögur ár, væri lengri tími en fram hefði komið að æskilegt þætti af hálfu Eftirlitsstofnunarinnar. Spurningar mínar eru því fyrst og fremst þær hvers vegna er það að ráðherrann telur nauðsynlegt að dreifa þessu á svo langan tíma eða til ársins 2000?

Hér er því haldið fram að unnt sé að lækka vörugjald án þess að hækka tryggingagjaldið frá því sem nú er vegna þess að fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs sé fyrirsjáanlega sem því svarar minni en ætlað var. Á hvaða spám byggir það? Á hvaða rökum byggir það, hæstv. fjmrh.?