Tryggingagjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 21:25:00 (1270)

1996-11-14 21:25:00# 121. lþ. 24.7 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[21:25]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að víkja að almennu efni þessa frv. þó það sé ljóst að verið er að flytja hér talsvert miklar byrðar yfir á sjávarútveginn frá því sem verið hefur eða upp á um það bil 700 millj. kr. Það er nokkurt umhugsunarefni. En spurning mín er þessi, hæstv. forseti. Um þriggja ára skeið hefur verið nokkurt deilumál hvernig fara ætti með atvinnuleysisbætur til bænda, sjómanna sem róa á eigin fari, svonefndra trillukarla og bílstjóra. Ekkert bólar á niðurstöðu í þessu máli og nú segir hæstv. ráðherra að næstu daga muni félmrh. í tengslum við þetta mál leggja fram frv. um rétt þessa fólks til atvinnuleysisbóta. Ég verð að segja það sem mína skoðun að ég teldi algjörlega fráleitt að reyna að afgreiða málið öðruvísi en það liggi alveg skýrt fyrir þá sem þarna er um að ræða sem telja mörg hundruð og hafa búið við afar krappan kost á síðustu árum vegna þess að þeim hefur verið gert að leggja inn virðisaukaskattsnúmer og leggja niður bíla og leggja niður trillur til að fá rétt til bóta. Nú er væntanlega tekið á þessu, segir hæstv. ráðherra. Ég spyr hann því: Hvenær kemur þetta frv. og er hann ekki sammála mér um það að þetta sé mál sem eigi að afgreiðast samhliða þessu frv.?

Ég vil að lokum segja að mér finnst satt að segja nokkuð glæfralegt að menn ganga ævinlega út frá því að Atvinnuleysistryggingasjóður hljóti að hafa þetta miklu minni fjárþörf á næsta ári. Það er svo mál sem við getum rætt við annað tilefni.