Tryggingagjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 21:31:30 (1273)

1996-11-14 21:31:30# 121. lþ. 24.7 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv., EgJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[21:31]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Það á væntanlega eftir að fara fram umræða um þetta frv. í nefndum þingsins og þar af leiðandi ætla ég ekki að ræða það ítarlega við 1. umr. Ég vil þó benda á nokkur atriði sem mér finnst eðlilegt að komi fram við. Talað er um að verið sé að koma á jafnræði á milli atvinnugreinanna með því að stilla saman tryggingagjaldið. Ég vil í þessu sambandi minna á að auðvitað er tryggingagjaldið, í því formi sem það er núna, inni í töxtum þeirra atvinnugreina sem við það hafa búið. Það er aftur á móti ekki inni í töxtum eða rekstrargrundvelli þeirra atvinnugreina sem nú á að hækka tryggingagjaldið á. Ég vek sérstaklega athygli á að þessi breyting þýðir 700 millj. kr. gjaldahækkun fyrir sjávarútveginn. Ég hlýt að ætlast til þess að sá þáttur frv., sem sérstaklega lýtur að sjávarútveginum, verði tekinn til sérstakrar athugunar í sjútvn. með sama hætti og ég ætlast til þess um þann þátt sem að lýtur að landbúnaði, eins og raunar öðrum atvinnugreinum, að nefndirnar sem hafa forræði þeirra mála fjalli sérstaklega um þau.

Ég vil hins vegar vekja strax athygli á því við umræðuna að þessi mál eru býsna flókin í sambandi við landbúnaðinn. Álagningin miðast við reiknaðar tekjur en ekki rauntekjur. Tekjur í sauðfjárrækt, svo ég nefni þá grein sérstaklega, hafa lækkað um 40% á sl. fjórum árum. Það er nú hvorki meira né minna. Það þarf að athuga nákvæmlega hvort að reiknuðu tekjurnar, sem yrðu skattstofn eða eru skattstofn að tryggingagjaldinu, hafa verið eða séu í samræmi við þennan samdrátt í tekjum. Ég vil líka benda á að landbúnaðurinn, að stórum hluta, er samningsbundinn að því er varðar verðlagningu eða verðhækkanir. Það er því ekki sjálfgefið að þessi skattur gangi til gjalda, reiknist gjaldamegin í rekstri þessarar búgreinar. Það er svo annað mál ef menn líta til reynslunnar í þeim efnum, þá mundi það tæpast gera, því að landbúnaðarvörur í hefðbundnum greinum hafa ekki hækkað í fjögur ár gagnstætt því sem hefur gerst í öðrum liðum vísitölunnar. Þetta þarf auðvitað að athuga mjög nákvæmlega. Ég vil líka segja það sem mína skoðun, án þess að þau mál liggi fyrir, að ég hef efasemdir um atvinnuleysistryggingar inn í landbúnaðinn. Það má vel vera að eitthvert snilldarráð finnist til að framkvæma slíkar greiðslur en ég óttast að það sé nú ekki handbært. Nógu er það kerfi flókið þótt menn fari ekki með það inn í enn frekari ófyrirsjáanlegar ófærur. Þetta er ég að segja án þess að hafa nokkra einustu hugmynd um hvernig tillögur, þær sem hæstv. félmrh. er að vinna að, muni vera. En ég hef fullar efasemdir um að það sé góður kostur að ætla sér að fara með atvinnuleysisbætur inn í landbúnaðinn. Ég tek reyndar undir það sem hæstv. fjmrh. sagði áðan að athuga verður mjög nákvæmlega hvort landbúnaðurinn eigi ekki að vera undanþeginn þeim hluta gjaldsins sem fer sérstaklega til atvinnuleysistrygginga.

Ég hef komið þeim tilmælum á framfæri við form. landbn. að um þessi mál verði fjallað í nefndinni og gerð verði þar góð greining á áhrifunum sem landbúnaðurinn verður fyrir með þessari nýju skattlagningu því auðvitað er þetta skattlagning þó hér sé verið að láta orð að því liggja að greiðslurnar fari ekki beint í ríkissjóð. Og með því að sú umfjöllun fari fram lýk ég máli mínu að þessu sinni, virðulegi forseti.