Tryggingagjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 21:58:01 (1280)

1996-11-14 21:58:01# 121. lþ. 24.7 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[21:58]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Hér er fjallað um breytingar á lögum um tryggingagjald með síðari breytingum. Af því tilefni vil ég segja nokkur orð. Hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir ástæðum þess að frv. er flutt og ég get út af fyrir sig fallist á þau sjónarmið að eðlilegt sé að sömu reglur gildi gagnvart öllum atvinnugreinum hvað varðar þessa skattlagningu. Hins vegar vil ég taka undir þau varnaðarorð sem hv. 3. þm. Austurl., Egill Jónsson, flutti um þessa breytingu. Það er alveg ljóst, þó að sé verið að jafna hér og gera skattlagninguna eins gagnvart öllum atvinnugreinum á tilteknu tímabili, að verið er að leggja tilteknar álögur á atvinnugreinar, sjávarútveg og landbúnað, sem verður að sjálfsögðu að taka tillit til. Það er óhjákvæmilegt. Í því felst minn fyrirvari gagnvart frv. að ég tel að það sé óhjákvæmilegt að hv. efh.- og viðskn. skoði mjög rækilega hvernig, og það þarf hæstv. fjmrh. að hlusta á, verður komið til móts við þessar atvinnugreinar sem verið er að auka álögur á. Það er alveg ljóst að þessar greinar eru ekki sérstaklega í öllum tilvikum vel undir það búnar að greiða hærri gjöld þannig að um þetta verður að fjalla.

Hins vegar fer ekki hjá því að nokkrar efasemdir setur að manni þegar hv. þm. sem eru sérstakir talsmenn skattlagningar á sjávarútveg, hv. þm. jafnaðarmanna á Íslandi, og nota hvert tækifæri til að mæla fyrir veiðileyfasköttum og þvílíku, leggast í sérstakan stuðning við þetta frv. Það færir manni nokkrar efasemdir um það sem verið er að leggja til hér. En það má kannski segja að fyrir hæstv. fjmrh. er sama hvaðan gott kemur þegar um stuðning er að ræða. En ég vil vekja athygli á þessu og vænti þess að þeir hv. þm. sem hér hafa verið úr hópi þingflokks jafnaðarmanna, af því þeir sitja nú í hv. efh.- og viðskn., að þeir taki þátt í þeirri leit sem þarf að fara fram í þinginu --- til þess erum við í nefndum --- að lausnum á þessari lagabreytingu hvað varðar sérstaklega sjávarútveginn og landbúnaðinn þannig að þessi aðgerð verði ekki til þess að íþyngja þessum greinum. Þetta vildi ég segja, virðulegi forseti.

Að öðru leyti vil ég endurtaka að ég tek undir þau varnaðarorð sem komu hér fram. Hæstv. fjmrh. veit vel um mína afstöðu. Ég hef haft þessi varnaðarorð yfir í mínum ágæta þingflokki.