Tryggingagjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 22:08:14 (1285)

1996-11-14 22:08:14# 121. lþ. 24.7 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[22:08]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér sýnist að jafnvel þótt einhverjir stjórnarþingmenn mundu skerast úr leik í þessu máli þá sé tvöföld breiðfylking jafnaðarmanna á Íslandi búin að lýsa yfir stuðningi við það hvort sem það verður til að hraða málinu í gegnum þingið eða ekki. En hafi menn verið að hugsa um jöfnun á milli atvinnugreina og ekkert annað þá voru valkostirnir tveir. Það var einfaldlega að lækka á hinum og fá jöfnuð með því móti, jafneinföld leið. Það getur ekki verið hægt að segja að menn styðji þetta eingöngu vegna þess að þeir hafi viljað hafa sömu leikreglur. Hér hafa menn lýst yfir stuðningi af því að þeir vilja styðja þetta sem hækkun.

Nú stöndum við frammi fyrir því í dag að Seðlabanki Íslands hefur hækkað vexti í landinu vegna þess að útstreymi hefur verið á gjaldeyri umfram innkomu. Það hlýtur að vera eðlilegt að spyrja ef álögurnar eru auknar, m.a. á sjávarútveginn, hvort það þýði þá enn frekari vaxtahækkun í framhaldi af því.

Ég held að það séu að mörgu leyti fullgild rök að það sé réttlátt að hafa hliðstæða skattheimtu. Hins vegar er þessi skattur mjög líkur aðstöðugjaldinu. Hann er veltuskattur, í þessu tilfelli bara á laun. Hitt var skattur á allt þannig að ef atvinnurekandi fær sér, við skulum segja, fullkomið færiband eða fullkomna vél sem verður til þess að fækka mönnum þá á hann að fá sérstök verðlaun í skattafslátt fyrir tiltækið því að þetta er veltuskattur aðeins á laun. Hinn veltuskatturinn virðist hafa verið örlítið vitlegri sé þetta tvennt skoðað í samhengi. Ég held að það sé því miður svo enn þann dag í dag að það er svo ríkt í hugsun íslenskra ráðamanna að þeir vilji stjórna gengisskráningu krónunnar, þeir vilji ráða því hver hún er en ekki láta markaðinn ráða því hver gengisskráningin er, að það sé ákaflega hæpið að stilla þessum atvinnuvegum upp á sama veg. Hins vegar vil ég fullyrða það í þessum ræðustól að ég er ekki jafnviss um það og aðrir að lækkun á tryggingagjaldi á verslun t.d. væri allt tapað fé. Ég held nefnilega að íslensk verslun búi við verulega samkeppni erlendis frá og hluti af því sem skapar þá erfiðleika er allt of hár virðisaukaskattur. Og ef til vill þetta tryggingagjald líka. Þetta eru staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir.

Ég minnist þess einu sinni að ég flutti hér frv. til laga um að selja allan erlendan gjaldeyri á frjálsum markaði í landinu. Það hefur aldrei verið meiri þögn hjá markaðshyggjumönnum, hvort heldur þeir voru í mínum flokki, Sjálfstfl. eða Alþfl., en þegar ég flutti þetta frv. Þá setti gjörsamlega hljóða. Menn geta skoðað í þingtíðindum hversu mikla trú menn höfðu nú á markaðnum. Það er nefnilega því miður þannig að það gleymist að auðlindaskatturinn sem íslenskur sjávarútvegur hefur greitt í gegnum tíðina með kolvitlausu gengi er hár. En sá auðlindaskattur skaðaði íslenskan iðnað. Hann skaðaði íslenskan iðnað. Og það sem ég held að menn verði að skoða í samhengi ef þeir taka upp þessar leikreglur er hvort menn eru þá reiðubúnir að standa heiðarlega að því að það séu eðlilegar ákvarðanir sem ráða því hver gengisskráningin er eða láta menn sig enn dreyma um að það sé allt í lagi að fikta við þá hluti? Það hefði komið mun betur út fyrir sjávarútveginn að leiðrétta stöðu gengisins heldur en að hækka vextina. Það liggur alveg ljóst fyrir. Það hefði komið verr út fyrir markmið okkar í efnahagsmálum að halda stöðugleika í landinu að velja þá leið og menn völdu þá leið, hagfræðingar okkar lands sem eru við stjórnvöl í Seðlabankanum með ráðleggingar, að það ætti að hækka vextina. Því segi ég þetta að ég lít svo á að allt tal um markaðsvæðingu fram og til baka sé hálfbarnalegt tal nema menn líti svo á að þeir séu reiðubúnir að láta markaðinn og ekkert nema markaðinn ráða gengisskráningunni. Þá er nefnilega engin hætta á ferðum þó að boðið sé upp á samninga við hina ýmsu atvinnurekendur því þá verður leiðréttingin sjálfkrafa í kerfinu. Menn eru einfaldlega að taka ákvörðun um það að þeir selji ekki sinn erlenda gjaldeyri á sama verði og áður. En ef frystihúsin í dag þurfa að taka á sig auknar álögur þá eiga þau ekki nema eitt svar og það er að tæknivæðast, sem ég veit ekki hvort þau hafa fjármuni til, eða að segja upp fólki og loka. Þannig er staðan.

[22:15]

Þess vegna finnst mér það dálítið skrýtið þegar það kemur frá prófessor og þingmanni Alþfl., ég bið afsökunar, ekki þingmanni Alþfl. heldur þingmanni jafnaðarmanna, 11. þm. Reykn., að þegar hann ræddi hér fyrr í kvöld um hvað ráðherrann væri að leggja til í skattamálum og hverjar væru afleiðingar þeirra hugmynda sem hann setti þar fram að núna hefur hann snúið þessu við og sagt: Merkingin er góð, stefnan er góð, þ.e. það á að vera það sama á alla atvinnurekendur en ég veit að það stefnir í strand vegna þess að ég hef áhyggjur af því að frystihúsin geti ekki tekið á sig auknar álögur. Það er einmitt það sem ég hef áhyggjur af líka. Mér er ekki alveg ljóst að það sé slíkt borð fyrir báru sem menn vilja vera láta í þessum efnum. Ég er heldur ekki jafnviss og aðrir hér inni að sú hækkun sem þetta mundi trúlega hafa á búvörur yrði til góðs. Og ég tek undir það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði hér: Íslenskir sauðfjárbændur eru ekki ofsælir af þeirri stöðu sem þeir eru í í dag.

Nú það má vel vera að það komi fram meiri upplýsingar um þetta mál í efh.- og viðskn. og er það vel ef svo væri. En óneitanlega er það nú svo að það er erfitt að samþykkja breytingar, rugga bátnum, nema maður sé nokkuð öruggur um að maður hvolfi honum ekki. Og þó að ég geti endurtekið það sem ég sagði áðan, ég tel að það markmið út af fyrir sig að hafa sömu skattlagningu sé rétt, þá voru tvær leiðir til að ná því fram. Það voru tvær leiðir til að ná því fram og menn völdu hækkunarleiðina sem tvímælalaust stuðlar að því að veikja stöðu íslensku krónunnar.