Vörugjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 22:21:12 (1287)

1996-11-14 22:21:12# 121. lþ. 24.8 fundur 142. mál: #A vörugjald# (gjaldflokkar, lækkun gjalda) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[22:21]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum. Þetta frv. er að finna á þskj. 157 og er 142. mál þingsins.

Með lögum nr. 89/1996, sem Alþingi samþykkti síðastliðið vor, voru gerðar ýmsar breytingar á vörugjaldslögunum. Með breytingunum var komið til móts við athugasemdir sem Eftirlitsstofnun EFTA hafði gert, bæði hvað varðar mismunandi greiðslufrest og mismunandi gjaldstofn vörugjalds, eftir því hvort um var að ræða innfluttar vörur eða innlendar framleiðsluvörur. Þannig var greiðslufrestur af innfluttum vörum og innlendum framleiðsluvörum samræmdur og ákvæðum um gjaldstofn vörugjalds breytt, þannig að gjaldstofninn er nú hinn sami hvort sem vara er innflutt eða innlend.

Í athugasemdum við frumvarp það sem lagt var fram til fyrrgreindra laga kom fram að ríkisstjórnin stefndi að lækkun vörugjalds í tengslum við samræmingu tryggingagjalds á milli atvinnugreina. Boðað var að breyting þess kæmi til framkvæmda í formi lækkaðra magngjalda, lækkunar á hæstu flokkum verðgjalds og fækkunar gjaldskyldra vara.

Í lagafrumvarpi því sem nú er lagt fram og er hér til umræðu eru lagðar til breytingar vörugjaldi í samræmi við framangreind fyrirheit ríkisstjórnarinnar þannig að vörugjald verði lækkað eða fellt niður af ýmsum vörum. Í fyrsta lagi er lagt til að 15% vörugjald af snyrtivörum og filmum og 20% vörugjald af ritföngum verði fellt niður. Í öðru lagi er lagt til að magngjald verði lækkað af sælgæti, drykkjarvörum o.fl. Í þriðja lagi er lagt til að vörugjald af þeim varahlutum í bifreiðar sem borið hafa 20% vörugjald lækki í 15% þannig að allir varahlutir bera þá 15% vörugjald. Í fjórða lagi er lagt að vörugjald af þeim vörum sem borið hafa 30% vörugjald lækki í 25%. Þarna er um að ræða mynd- og hljómflutningstæki, útvörp og segulbönd en þessar vörur eru nú í tveimur gjaldflokkum svo og byssur og skotfæri.

Gera má ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af vörugjaldi lækki um 300 millj. kr. ef frv. verður að lögum en við það bætist að lækkun tekna vegna virðisaukaskatts verður um 50 millj. kr. Þetta eru því 350 millj. kr. alls. Í athugasemdum við frv. er gerð grein fyrir áhrifum breytinganna á tekjur ríkissjóðs af einstökum vöruflokkum.

Mér er ljóst að það þyrfti að taka fleiri skref til lækkunar á vörugjöldum og vonandi verður það hægt á næstu árum vegna þess að tekjusamsetning ríkissjóðs er hér með nokkuð öðrum hætti en í nágrannalöndunum og það er afar óheppilegt af ýmsum ástæðum eins og m.a. hefur komið fram í umræðum hér í dag um önnur skattbreytingamál.

Eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar voru tildrögin að breytingu á vörugjaldslögunum þau að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hafði gert athugasemd við tvö atriði í framkvæmd þeirra í kjölfar athugunar á lögum vegna kæru innlendra aðila. Þar sem nokkurrar ónákvæmni hefur gætt í fréttaflutningi og frásögnum af þessu máli vil ég fara um það nokkrum orðum.

Þegar EES-samningurinn var gerður lá ljóst fyrir að fella yrði niður svokallaða fjáröflunartolla sem þá voru við lýði á grundvelli heimilda í þágildandi fríverslunarsamningum. Var þá þegar ákveðið að breyta þeim í vörugjöld eins og gert var með breytingum á vörugjaldslögunum á Alþingi árið 1993. Ég vil undirstrika að aldrei stóð til að fella þessa tekjuöflun ríkisins niður og fyrir lá að álagning vörugjalda væri í samræmi við EES-samninginn. Í þeim kærum sem beint hefur verið til ESA hefur því verið haldið fram að álagning vörugjalda út af fyrir sig sem slík sé ólögmæt og brjóti samninginn. ESA hefur hafnað slíkum sjónarmiðum og taldi einungis að tvö nánar tilgreind atriði samrýmdust ekki samningnum. Þar er annars vegar átt við 25% regluna svokölluðu þar sem í lögum var í raun og veru gert ráð fyrir 25% heildsöluálagningu, algjörlega burt séð frá því hvort hún var meiri eða minni. Hins vegar var greiðslufrestur ekki sá sami á innlendri framleiðslu og innflutningi. Það liggur ekkert fyrir hvor aðilinn hafi hagnast eða tapað, innflytjandinn eða innlendi framleiðandinn, og sjálfsagt getur það virkað í báðar áttir.

Það tók nokkurn tíma að koma í framkvæmd breytingu á vörugjaldslögunum sem fullnægði kröfum ESA. Það tók sjálfsagt rúmlega hálft ár að ná niðurstöðu sem flestir gátu sætt sig við og þau lög gengu í gildi 1. júlí sl. Í framhaldi af því var þess farið á leit við stofnunina að það mál sem stofnunin hafði þingfest fyrir EFTA-dómstólnum yrði látið niður falla. Í því máli var af hálfu ESA krafist staðfestingar dómstólsins á því að tiltekin ákvæði vörugjaldslaganna samrýmdust ekki ákvæðum samningsins. Tilmæli okkar voru studd þeim rökum að með breytingu á lögunum hefðum við bætt úr þeim atriðum sem ekki hefðu samrýmst samningnum og væri þess vegna lagalegur ágreiningur ekki lengur milli aðila og málarekstur því óþarfur. ESA féllst á þessi sjónarmið og var málið dregið til baka. Það var kannski stóra fréttin. En sá misskilningur virðist vera uppi að með þessu hafi verið viðurkennt að EES-samningurinn hafi verið brotinn. Það tel ég ekki hafa verið gert. Kæra ESA byggðist ekki á því að Ísland hefði brotið ákvæði samningsins í einhverju tilviki og kæran ekki studd neinum tilvikum um meint brot. Máli þessu var því lokið farsællega að því er ESA varðar. Hugsanleg áform um að krefjast skaðabóta af ríkinu vegna meintrar rangrar álagningar vörugjalda verða því alls ekki byggð á lyktum þessa máls heldur hafa alveg sjálfstæða tilveru og ég tel engar líkur fyrir því að slíkur skaðabótaréttur sé til staðar.

Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að kæmi fram í upphafi því að því hefur verið haldið fram í fyrsta lagi að það sé ólögmætt að leggja á vörugjöld og það hafi staðið til að leggja af öll aðflutningsgjöld þegar við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Meira að segja er þetta orðað eitthvað á þá leið í yfirlýsingu frá landsfundi Sjálfstfl. En þetta er rangt. Það er röng saga sem þarna er verið að reyna að segja og það þarf að leiðrétta hana.

Í öðru lagi er því haldið fram að samningurinn hafi verið brotinn með þeim hætti að hægt sé að byggja skaðabótamál á hendur ríkinu á grundvelli niðurstöðu samkomulagsins við ESA. Ég tel svo ekki vera. Það sem hafði gerst var að ESA gerði athugasemdir við tvö tiltekin atriði í lögunum af því þau væru til þess fallin að hægt var að mismuna samkvæmt þeim greinum. Þessum atriðum hefur verið breytt. Málinu er lokið og eina fréttin sem hefði átt að slá í gegn var að Eftirlitsstofnun EFTA féllst á að kalla málið aftur frá dómstólnum en áður hafði verið gefið í skyn að það væri ekki hægt heldur yrði dómstóllinn að ákveða það sjálfur.

Þetta vil ég, virðulegi forseti, að komi mjög skýrlega fram í þessari umræðu. Það er síðan tillaga mín, virðulegi forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hæstv. efh.- og viðskn.