Vörugjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 22:34:30 (1290)

1996-11-14 22:34:30# 121. lþ. 24.8 fundur 142. mál: #A vörugjald# (gjaldflokkar, lækkun gjalda) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[22:34]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Frv. eru vissulega stjfrv. En það er óvanalegt að í umræðunni skuli þeir stjórnarþingmenn sem taka til máls hafa mjög mikla fyrirvara um meginefni frv. Það kom fram hjá þessum þingmönnum að þeir höfðu verulegar efasemdir um álögur á atvinnugreinina sem þetta mundi leiða til. Sú athugasemd mín að efast um getu ríkisstjórnarinnar til að ná þessu stjfrv. fram í þessu formi er því fyllilega réttmæt. Þetta er mikilvægt af því að það hangir við hitt frv.

Ég nefndi, svo við höfum það nú alveg á hreinu, varðandi yfirfæranlega tapið að ef við tækjum töluna sem fjmrh. nefndi sjálfur, um 15 milljarða, og tækjum einfaldlega skatta af því þá væri það 5,5 milljarðar sem hugsanlega væri tekjutap. Ég lækkaði þessa tölu frá nokkur hundruð millj. upp í 1,5--2 milljarða. Ég get ekki sagt á hvaða bili þetta liggur. Ég tel hins vegar fullvíst að hér er um að ræða umtalsverðar upphæðir, frá nokkrum hundruðum upp í 1,5--2 milljarða. Hvar það liggur veit ég ekki. Það getur vel verið að það liggi nær nokkrum hundruðum millj., svo fjmrh. festi sig ekki endalaust í tölunni 2 milljarðar. Ég efast reyndar um að það nái svo hátt en ég hef ekki forsendur til að meta það hér. En efasemdir mínar eru réttmætar og ég óska eftir því, herra forseti, að bæði málin verði skýrð í efh.- og viðskn. til að við getum fjallað eðlilega um þau. Við erum að tala um tilfærslu á 300 millj. kr. og það er því mikilvægt að menn viti nákvæmlega vilja ríkisstjórnarflokkanna í því efni. Það er mjög óvanalegt, herra forseti, þegar ráðherra mælir fyrir einum meginþætti í skattastefnu sinni og fjárlagastefnu, skuli þrír stjórnarþingmenn koma með mjög alvarlega fyrirvara við þá stefnu. Það sýnir kannski betur en annað að þegar á reynir segir gamla hagsmunagæslan vel til sín í þingflokkum stjórnarliða.