Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 22:41:33 (1293)

1996-11-14 22:41:33# 121. lþ. 24.10 fundur 144. mál: #A virðisaukaskattur# (málsmeðferðarreglur o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[22:41]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Þetta frv. er 144. mál þingsins og er að finna á þskj. 159.

Í frv. eru fyrst og fremst lagðar til breytingar sem nauðsynlegt er að gera á lögunum vegna breytinga sem gerðar hafa verið á öðrum skattalögum. Helsta breytingin sem lögð er til í frv. er um málsmeðferðarákvæði laganna. Ef frv. þetta verður að lögum verða málsmeðferðarreglur í virðisaukaskattslögunum skýrari og aðgengilegri fyrir skattgreiðendur en verið hefur. Samkvæmt núgildandi lögum þarf að líta til ákvæða laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna ákvæða um málsmeðferð. En það er æskilegt að sjálfstæð ákvæði séu um málsmeðferð í virðisaukaskattslögunum sjálfum.

Breytingar þessar eru í 3., 4. og 7. gr. frv. Aðalbreytingarnar á málsmeðferðarreglum eru þær að við endurákvörðun virðisaukaskatts er málsmeðferðin stytt um eitt kærustig og almennur frestur til endurákvörðunar er styttur úr sex árum í fjögur nema í þeim tilvikum sem skattgreiðandi hefur sýnt stórfellt gáleysi eða ásetning.

Fyrri breytingin er til samræmis við breytingar sem gerðar voru á síðasta þingi á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og sú síðari er til samræmis við breytingar sem lagðar eru til á lagafrumvörpum sem hafa verið til umræðu í dag.

Sú breyting er lögð til í 3. gr. frv. að felld verði saman í eina grein ákvæði 25. og 26. gr. laganna sem kveður á um reglulega ákvörðun virðisaukaskatts hvort sem um er að ræða virðisaukaskatt til greiðslu eða til endurgreiðslu. Breytingar frá núgildandi lögum eru m.a. þær að tekið er fram að skattstjóri skuli ákvarða virðisaukaskatt skráðra aðila á hverju uppgjörstímabili hvort sem um er að ræða álagningu skatts eða ákvörðun endurgreiðslu. Þetta hefur þýðingu með tilliti til kærufrests eins og kemur fram í athugasemdum við 7. gr. frv.

Í 4. gr. frv. er lagt til að 26. gr. laganna verði efnislega samhljóða 96. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Ákvæði þetta mun hafa nokkrar breytingar í för með sér.

Í fyrsta lagi eru reglur um fyrirspurn skattstjóra færðar inn í ákvæði virðisaukaskattslaga.

Í öðru lagi er tekin upp 15 daga lágmarksfrestur til andmæla við endurákvarðanir til samræmis við ákvæði tekjuskattslaganna ásamt því að tekið er upp almennt ákvæði um boðun breytinga.

Í þriðja lagi er lagt til að frestur skattstjóra til að endurákvarða skatta verði að jafnaði tveir mánuðir í stað þess að áður hafði skattstjóri 30 daga til að kveða upp úrskurð. Fresturinn er lengdur til samræmis við ákvæði tekjuskattslaganna.

Í fjórða lagi má nefna að samkvæmt núgildandi ákvæði virðisaukaskattslaga ber að gera aðila viðvart í ábyrgðarbréfi áður en virðisaukaskattur er reiknaður að nýju en slíkt ákvæði hefur ekki verið í lögum nr. 75/1981 og þykir því rétt að gæta samræmis hvað þetta varðar og fella út ákvæðið.

[22:45]

Ég veit ekki, herra forseti, hvort ástæða er til að fara í fleiri þætti málsins en þó vil ég benda á að hér eru gerðar meiri skyldur til eigenda svokallaðra virðisaukaskattsbifreiða. Þeim er gert skylt að tilkynna til skattstjóra áður en þeir taka viðkomandi bifreið til einkanota. Þetta er gert til þess að styrkja framkvæmd og eftirlit með virðisaukaskattsbifreiðum og setja skýrari reglur um tilkynningarskylduna.

Í 9. gr. frv. er lagt til að endurgreiðslur vegna vinnu manna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis verði lækkaðar til samræmis við endurgreiðslur vegna vinnu manna við nýbyggingar. Ætlað hafði verið að þessi breyting yrði hluti af þeirri lagabreytingu sem gerð var á sl. vori til að mæta tekjutapi af lækkun vörugjalda en við nánara mat á þeim breytingum þótti tryggara að fresta þeim hluta sem að viðhaldi snýr og gera lagaheimildina skýrari. Það skal tekið fram að þetta hefur ekki í för með sér breytingar á byggingarvísitölunni. Sú breyting hefur þegar átt sér stað vegna þess að endurgreiðslum vegna vinnu manna við nýbyggingar var breytt með lögunum á sl. ári.

Í 1. gr. laganna er lagt til að felld verði á brott tilvísun í lög nr. 97/1987, um vörugjald á tilteknar vörur til manneldis, sem bera fullan virðisaukaskatt. Í stað þess kemur tilvísun í viðauka við virðisaukaskattslög, sbr. 10. gr. sem er efnislega samhljóða fyrrgreindum viðauka við vörugjaldslögin. Ástæður til þessara breytinga eru þær að með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á vörugjaldi er tilvísun milli laganna orðin torveldari og eðlilegra þykir að hafa fremur sérstakan viðauka við þessi lög.

Aðrar breytingar eru minni háttar og skýra sig að mestu leyti sjálfar. Þetta er um flest tæknileg atriði auk leiðréttinga sem verið er að gera. Ég mælist til þess að hv. nefnd skoði þetta mál, fái um það frekari upplýsingar þannig að frv. nái fram með eðlilegum hætti.

Að svo mæltu legg ég til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.