Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 22:49:09 (1294)

1996-11-14 22:49:09# 121. lþ. 24.10 fundur 144. mál: #A virðisaukaskattur# (málsmeðferðarreglur o.fl.) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[22:49]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Í athugasemdum við lagafrv. þetta, breytingar á lögum um virðisaukaskatt, segir að frv. sé lagt fram til nauðsynlegrar breytingar á lögum sem gera þarf vegna breytinga á öðrum skattalögum, eins og hæstv. fjmrh. tíundaði í fjórum greinum. Kannski væri nær að segja að frv. væri lagt fram til þess að bæta fyrir það sem síðar er kallað í athugasemd við 9. gr. ónákvæmni hæstv. fjmrh. eða embættismanna hans því hann ber ábyrgð á þessu.

Í þessari grein er lagt til að ,,endurgreiðslur vegna vinnu manna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis verði lækkaðar í 60% til samræmis við endurgreiðslu vegna vinnu manna við nýbyggingar.`` Síðan er þessi athyglisverða grein sem verðskuldar að verða fótnóta í skattasögunni:

,,Við breytingu sem gerð var á lögum um virðisaukaskatt sl. vor gætti þeirrar ónákvæmni að lækkun endurgreiðslunnar náði einungis til vinnu við byggingu íbúðarhúsnæðis en ekki til vinnu við viðhald eða endurbætur.``

Ég staldra við þetta orðalag, hæstv. fjmrh., ,,gætti þeirrar ónákvæmni``. Við lagasmíð á sviði skattamála eru kannski gerðar meiri kröfur til nákvæmni en í flestri annarri lagasetningu eða ætti a.m.k. að vera svo. En að flokka það undir ónákvæmni að jafnvítt starfssvið eins og vinna við endurbætur á húsnæði hafi fallið út í ógáti. Það verðskuldar að því sé haldið til haga og spurningin er, hæstv. fjmrh.: Hvað hefur þessi ónákvæmni kostað hingað til?