Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 22:51:23 (1295)

1996-11-14 22:51:23# 121. lþ. 24.10 fundur 144. mál: #A virðisaukaskattur# (málsmeðferðarreglur o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[22:51]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú svo að það getur alltaf gerst í flókinni lagasmíð og sérstaklega rétt fyrir jól eða rétt fyrir þinglok að vori að menn sjái ekki nákvæmlega alla þætti málsins og það er oft og tíðum auðvitað vegna þess að hlutir gerast á hlaupum. Ég man ekki hvernig það var þegar þessi breyting átti sér stað í vor hvort flutt var sérstakt frv. um virðisaukaskattinn ásamt vörugjöldunum eða hvort í þinginu var virðisaukaskattsfrv. til meðferðar en það gerist stundum þegar þeim er breytt.

Það mál vel vera að þetta orðalag í frv. sé kurteislega orðað og varfærnislega. Það er nú siður ... (Gripið fram í: Það var flutt sérstakt frv.) Það er kallað fram í að það hafi verið flutt sérstakt frv. en í meðförum þingsins hefur þessi klaufaskapur átt sér stað og er það auðvitað ekkert síður á ábyrgð fjmrn. sem leggur þingnefndum tæknilegt lið þegar verið er að gera slíkar breytingar. Hins vegar geta slíkir hlutir alltaf gerst og hefur svo sem gerst áður og margoft og því miður allt of oft.

Því miður get ég ekki svarað nákvæmlega hvað þetta hefur kostað ríkissjóð. Það hleypur sjálfsagt á einhverjum tugum milljóna ef gert er ráð fyrir að þetta haldist út árið. Það er þetta hálfa ár sem um ræðir, frá 1. júlí og til ársloka, en það tap hefur verið annarra gróði því að þeir sem hafa látið gera við húsnæði fengu 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu við endurbæturnar á þessum tíma. Nú breytist það í 60% þannig að ég get ekki svarað því nákvæmar. En sjálfsagt er að upplýsa það í nefndinni og vona ég að þar verði gætt mikillar nákvæmni.