Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 22:54:00 (1296)

1996-11-14 22:54:00# 121. lþ. 24.11 fundur 147. mál: #A Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda# (iðgjöld, stigaútreikningur, ávöxtun o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[22:54]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 95/1980, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, með síðari breytingum. Er það 147. mál þingsins og á þskj. 162.

Frv. þetta var samið að frumkvæði stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, en í henni eiga sæti fulltrúar lífeyrissjóðasambandanna, lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og ríkisins. Í frv. eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum um sjóðinn. Breytingarnar lúta einkum að heimildum sjóðsins til að fjárfesta og að verðtryggingu lífeyris. Tvenns konar breytingar eru lagðar til á reglum um fjárfestingar. Annars vegar er lagt til að sjóðurinn fái heimild til að fjárfesta í skuldabréfum og víxlum traustra fyrirtækja en það skilyrði sett að viðkomandi skuldabréf séu skráð á Verðbréfaþingi Íslands. Þetta er sams konar heimild og flestir lífeyrissjóðirnir hafa haft um nokkurt skeið. Þess má jafnframt geta að sjóðurinn hefur í nokkur ár haft heimild til að kaupa hlutabréf af fyrirtækjum sem skráð eru á verðbréfaþinginu og má telja eðlilegt að sjóðurinn hafi heimild til að kaupa skuldabréf og víxla útgefna af þessum fyrirtækjum.

Hins vegar er lagt til að sjóðurinn fái heimild að leggja Speli hf. til viðbótarlánsfé þegar Hvalfjarðargöngin eru fullgerð í samræmi við viljayfirlýsingu sjóðsins. Með breytingu sem gerð var á lögum sjóðsins árið 1995 fékk sjóðurinn heimild til að kaupa víkjandi skuldabréf, útgefin af Speli hf., fyrir 70 millj. kr. en hér er lagt til að hann geti keypt skuldabréf fyrir 100 millj. kr. til viðbótar. Eðlilegast þykir að heimild þessi sé í bráðabirgðaákvæði enda er eingöngu verið að veita heimild til tiltekinnar fjárfestingar.

Hin meginbreytingin sem lögð er til í frv. lýtur að því að verðtrygging lífeyris miðist við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar í stað lánskjaravísitölu.

Í 3. gr. frv. er fjallað um grundvöll lífeyrisréttindanna, stigaútreikninginn, en í 4. gr. um úrskurðaðan lífeyri. Eðlilegt er að miða við neysluverðsvísitölu enda hefur hún, eins og kunnugt er, tekið við af lánskjaravísitölu þegar skuldbindingar eru verðtryggðar.

Loks má nefna að í 2. gr. frv. er lagt til að heimilt verði að ákveða með reglugerð að sjóðurinn geti tekið við viðbótariðgjöldum umfram lögbundið 10% iðgjald og í 5. gr. frv. er lagt til að sjóðurinn endurgreiði iðgjöld sem berast eftir að sjóðfélagi hefur náð 70 ára aldri. Þessi síðarnefnda breyting er í samræmi við breytingar sem gerðar hafa verið á reglugerðum SAL-sjóða.

Virðulegi forseti. Eins og heyra má af ræðu minni er fyrst og fremst verið að leggja til breytingar á lögum sjóðsins í samræmi við þær reglugerðarbreytingar sem átt hafa sér stað hjá öðrum lífeyrissjóðum. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta að sinni en óska eftir því að málið verði sent til hv. efh.- og viðskn. og verði síðan vísað til 2. umr.