Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 23:11:04 (1303)

1996-11-14 23:11:04# 121. lþ. 24.12 fundur 118. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[23:11]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki með góðu móti svarað þessari fyrirspurn beint hér en ég stend í þeirri meiningu að sams konar fyrirgreiðsla af hálfu ríkissjóðs eigi við þegar um er að ræða svokallaðan lífeyrissjóð aldraðra þar sem eru aðrir en bændur. Þetta er lífeyrissjóður fyrir fólk sem er fætt á árinu 1914 eða fyrr, þ.e. verður 83 ára á næsta ári. Eins og gefur að skilja fækkar í þessum hópi. Það var lagt af stað í upphafi með þeim hætti að ríkissjóður styrkti þetta og lífeyrissjóður og aðrir sjóðir á móti en smám saman hefur það gerst að þetta hefur að verulegu leyti lent á ríkissjóði. Ég kann ekki þetta kerfi nægilega vel til þess að geta sagt hver munurinn er á framlagi ríkissjóðs til þessara tveggja sjóða en tel mjög eðlilegt að í nefndinni verði farið ofan í það mál og skal gera það sem ég get til þess að koma upplýsingum til hennar um þessi tvö mál.

Prinsippbreytingin er kannski sú að í stað þess að ýta þessu á undan sér árlega, síðast á fimm ára fresti, þá er því hætt en eins og gefur að skilja, þá verður þessu sjálfhætt einhvern tíma á fyrri hluta næstu aldar.