Fjárreiður ríkisins

Föstudaginn 15. nóvember 1996, kl. 14:28:50 (1307)

1996-11-15 14:28:50# 121. lþ. 25.1 fundur 100. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[14:28]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég byrja á að þakka fyrir að þetta frv. er komið fram aftur. Ég lít á þetta sem mjög mikilvægan þátt í stjórnun íslenska ríkisins, enda grundvallaratriði.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig fjárreiðurnar eru. Hvað eru fjárreiður? Ég velti því þá fyrir mér hvort það megi líkja fjárreiðum ríkisins við stórborg, hvort fjárreiður ríkisins eiga einhverja samlíkingu með stórborg sem er með höfuðstrætum, sem er með göngugötum, sem er með torgum, sem er með brautum og hverju því sem stórborg fylgir. Þeir sem geta fallist á þessa skilgreiningu hljóta að vera sammála mér um að það þarf stöðugt að vinna að skipulagi og endurskipulagi, endurnýjun og viðhaldi af hvaða tagi sem er við fjárreiður ríkisins, ekkert síður en þegar verið er að fjalla um stórborg.

Ekki var gerð ítarleg grein fyrir frv. í framsöguræðu hæstv. fjmrh. en kannski var ekki þörf á því þar sem við ræddum þetta mál hér á síðasta þingi en hæstv. ráðherra gerði grein fyrir þeim breytingum sem hafa verið gerðar. Ég ætla ekki að ræða mjög mikið um frv. eins og það liggur fyrir. Ég lít á frv. sem forsendur að því hvernig ætlast er til þess að menn starfi.

Þetta málefni hefur verið mér og fleirum mikið áhugamál á liðnum árum og ég fagna því skrefi sem er verið að stíga. Fjárreiður ríkisins eru flókið og viðamikið verkefni eins og þau hafa verið og eru, allt frá áætlunargerð til reikningsskila. Brýn nauðsyn er að gera átak í meðferð fjármuna ríkisins ef árangur á að nást. Hver er þá sá árangur sem við viljum sjá? Við viljum sjá sparnað og betri framkvæmd með meðferð fjárreiðna.

Ég sagði áðan að frv. væri ekkert nema forsendur og ég stend við það. Frv. er aðeins forsendur til þess að liðka fyrir um hvernig ber að vinna og hvað á að gera, þ.e. hvernig á að fara með bókhald, hvernig á að fara með eftirlit og hvernig á að fara með áætlanagerð. Útfærsla og tæknileg framkvæmd er allt annað mál en forsendur. Ég tel að gera verði átak í útfærslu í þeim efnum eins og ég viðurkenni reyndar að er byrjað á, hæstv. fjmrh. Ég tel að byrjað sé á breyttum vinnuaðferðum sem eru til hins betra en þó vantar að mínum skilningi töluvert á.

[14:30]

Ég tel að fjárreiður ríkisins þurfi að vera mjög aðgengilegar. Ég tel að fjárreiður ríkisins þurfi að vera þannig úr garði gerðar að þær séu settar í eitt aðgengilegt kerfi þar sem fjárhagsáætlun hvers og eins ráðuneytis sé skilgreind í lykli fyrir hvert og eitt þeirra með eins mörgum undirdeildum og þörf er á. Og ef vel á að vera, þó það samræmist kannski ekki lögum eins og þau eru nú, þarf fjmrn. sem yfirstjórn að geta átt aðgang að skoðun á rekstri hvers og eins aðila, þ.e. ráðuneyta, hvort sem menn vilja hafa daglegt eftirlit, vikulegt eftirlit eða eftir öðrum óskum. Fjárreiðurnar þurfa að vera mjög ljósar. En forsendurnar þurfa þá að vera lagðar út nákvæmlega eins og hjá hvaða fyrirtæki sem er. Það er brýn nauðsyn að eins gott aðgengi sé að fjárreiðum ríkisins og að heimilisreikningi, eins og að litlu eða stóru fyrirtæki. Þetta er kannski einfölduð mynd en ef menn horfa til þeirrar skilgreiningar, sem ég nefndi í upphafi, að við eigum að líta á fjárreiður ríkisins eins og stórborg með öllu því sem henni fylgir, þá veit ég að menn skilja hvað ég er að fjalla um.

Mitt mat er nefnilega það að forsendur og framkvæmd séu svo nátengdar að ekki verði komist hjá því að hnýta þetta saman í einn pakka.

Ef ég tek eitt pínulítið atriði út úr sem er fjárlagafrv. og við þingmenn vinnum mest með þá þarf aðgengið að fjárlagaframsetningunni eða fjárlagafrv. að vera þannig að menn geti á einfaldan máta, án þess að fara í sérstakan skóla, áttað sig á hvað menn eiga við í framsetningu málefna í frv. Ég viðurkenni, herra forseti, að þetta hefur lagast verulega á síðustu árum en þó finnt mér, sem fjárlaganefndarmanni, að nokkuð vanti á. Það má auðvitað tilnefna fjölmarga þætti sem ég geri kannski ekki hér. En ég vil t.d. binda framsetningu við hvert ráðuneyti tengda lyklum sem læsa heildardæmi hvers ráðuneytis saman þannig að í hverjum kafla fjárlagafrv. sé hægt að klára raunverulega yfirferð hvers ráðuneytis svo menn þurfi ekki að fletta aftur á bak og áfram í sama plagginu til að reyna að átta sig á hvað verið er að fara með. Þetta tengist allt, herra forseti, fjárreiðum ríkisins. Þetta er bara einn lítill hluti.

Ég ætla að nefna eitt lítið dæmi sem ég veit að allir hv. þm. þekkja. Þegar farið er yfir fjárlagafrv. er venjulega einhvers staðar aðgengilegur talnadálkur en til að þingmenn geti áttað sig á hvað verið er að tala um, hækkun eða lækkun, þá þarf að leita mikið í skýringum. Ef einn dökkmálaður dálkur fylgdi með, við hliðina á talnasúpunni, sem greindi frá fjárlagatillögum síðasta árs eða kannski tveggja ára, þá gætu menn haft einhverja yfirsýn í fljótu bragði yfir það sem verið er að fjalla um. Þetta mundi auðvelda vinnubrögð og aðgengi. Ég tel að þetta hljóti að vera löglegt. Það hlýtur að mega setja þetta fram. Þó svo að frv. til fjárlaga sé auðvitað lagasetning, þá væri þetta ekki annað en skýring á lagasetningu sem þyrfti að vera með.

Herra forseti. Ég reyndi að setja fram einfalda skilgreiningu og samanburð á stórborg og fjárreiðum ríkisins. Ég er að hugsa um að setja þetta fram á enn einfaldari máta, fyrir hvert og eitt okkar, sem þurfum að hafa með fjárreiður ríkisins að gera. Við eigum að líta á fjárreiður ríkisins og hvert afleitt atriði þeirra eins og verkfæratösku, ef menn skilja hvað ég á við með því. Eins og verkfæratösku smiðs sem veit nákvæmlega hvað á að vera í hverju hólfi og veit hvaða verkfæri þarf fyrir hvert verkefni. Heildarkerfið þarf að vera eins aðgengilegt, gagnsætt og einfalt og mögulegt er og ég veit að það er hægt. Ég þekki kerfi þar sem unnið er á svo einfaldan máta með flókna fjármuni eins og t.d. Ålborg kommune, sem er auðvitað miklu einfaldara dæmi en íslenska ríkið. Þar náðu menn á ótrúlega skömmum tíma, tveimur eða þremur árum, umtalsverðum árangri og þeir sem fylgjast með blöðum, t.d. í Danmörku, geta séð að þetta hefur vakið hvað mesta eftirtekt af öllu í meðferð fjármuna danskra bæjarfélaga eða danskra amta, þ.e. hvað náðst hefur mikill árangur í þessu amti.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mjög mál mitt. En ég vona að ég hafi komið því til skila sem ég er að meina með einfaldri framsetningu. Ég vonast til í framhaldi af þeirri vinnu, sem ég veit að á eftir að verða við frv., að menn nái að setja fram langtímaáætlanir, ekki bara til tveggja eða þriggja ára. Við þurfum að hafa fimm ára áætlun fyrir okkur til að geta séð hvert við erum að halda og til að geta haldið utan um fjárreiður hvers árs og til að geta rétt af. Þess vegna talaði ég um verkfæratösku og einfalda hluti eins og að skipta henni niður í hólf.

Herra forseti. Ég vil í lokin spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hugsi sér að bæta úr innra skipulagi í meðferð fjárreiðna ríkisins. Það sem ég á við er hvort hæstv. fjmrh. hugsi sér að í kjölfar þess að plaggið verði að lögum verði því fylgt eftir að allar fjárreiður verði settar í það einfalt form að unnt sé, ekki bara fyrir fjmrn. að hafa eftirlit og athugun, heldur fyrir hvert og eitt ráðuneytanna og jafnvel Alþingi að fylgjast með, nánast með því að hafa aðgang að kerfi, hvernig framvinda fjármála er fyrir hvert ár. Ég segi: Þeim mun einfaldara kerfi, þeim mun fleiri hafa aðgang að því og þeim mun betri verður reksturinn. Ég er sannfærður um að þetta þarf að koma. En hvort þarf að breyta lögum er önnur saga. Ég geri mér ekki grein fyrir hversu mjög þarf að breyta lögum í sambandi við þessar hugleiðingar mínar. En ég bið hæstv. fjmrh., ef hann getur, að gera grein fyrir hugmyndum sínum um raunverulega útfærslu og framkvæmd á meðferð fjárreiðna ríkisins.