Fjárreiður ríkisins

Föstudaginn 15. nóvember 1996, kl. 14:42:27 (1308)

1996-11-15 14:42:27# 121. lþ. 25.1 fundur 100. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[14:42]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það líður senn að lokum þessarar umræðu. Mig langar til að segja örfá orð í lokin en þau skulu ekki verða mjög mörg.

Umræðan í dag hefur auðvitað mótast nokkuð af því að frv. hefur verið flutt áður á hinu háa Alþingi og þess vegna óþarfi að endurtaka allt það sem þar var sagt. Það sem rekur mig fyrst og fremst í ræðustólinn nú er fyrirspurn síðasta hv. ræðumanns. Hann spurðist fyrir um það hvort þess mætti vænta í framhaldi af samþykkt þessa frv. að stærðir í fjárlagafrv. yrðu settar fram á auðveldan, einfaldan og skiljanlegan hátt. Hann vék í sínu máli að því hvort ekki mætti með myndrænum hætti, ef svo má að orði komast, vekja athygli á breytingum á milli ára sem orðið hafa eins og oft er gert í reikningum fyrirtækja og tiltölulega auðvelt er að gera með tilkomu tölvuforrita. Við höfum leitast við á undanförnum árum að skila frá okkur upplýsingum á þessu formi og ég vil geta tvenns í því sambandi. Annars vegar má minnast á verkefnavísana, sem reyndar eru ekki settir upp á myndrænan hátt, en þó er um að ræða samanburð á tölum. Tölum sem ekki sjást í fjárlagafrv. en eru þó mælikvarðar um breytingu á starfsemi sem er á bak við tölurnar í fjárlagafrv. Þetta er mikilvægt þegar menn eru að bera saman starfsemi að átta sig á starfsmagni á bak við tölur. Stundum eykst starfsmagnið þótt tölurnar breytist ekki. Það þýðir væntanlega á mæltu máli að gera má ráð fyrir að framleiðnin sé meiri. Við erum á hverju ári að kappkosta að ná betri og meiri framleiðni í ríkisrekstrinum eins og allur almennur rekstur gerir.

Annað dæmi um nýja framsetningu er almenna hefti ríkisreikningsins sem kom út fyrr á þessu ári, reyndar óvenjusnemma í haust. Nú er ríkisreikningnum skipt upp í tvennt, annars vegar almennur hluti, þar sem öll uppsetning er mjög einföld fyrir þá sem vilja fá fljótteknar upplýsingar. Þar er þetta sýnt með breytingum frá ári til árs.

[14:45]

Það þriðja sem mætti nefna en hefur ekki enn komið fram er að um leið og fjárlög eru sett upp á sama grunn og ríkisreikningurinn þá verður allur slíkur samanburður miklu auðveldari. Ég á von á að unnið verði að því. Ég treysti mér ekki hér til að lofa því hvenær nákvæmlega það gerist því ég veit að það mun taka tíma. Það kostar fyrirhöfn að breyta fyrirkomulaginu í takt við það sem gert er ráð fyrir í frv. Það getur tekið eitt, tvö eða þrjú ár. En ég minni aðeins á að þessu starfi lýkur ekki með þessu frv., ekki með því að það verði að lögum. Smám saman færumst við áfram og ég er sammála því sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni. Það var reyndar rætt í fyrra líka að búast má við að fjárlagaafgreiðsla Alþingis verði með allt öðrum hætti í framtíðinni en hún er í dag. Sjálfsagt þannig að menn munu horfa á fleiri en eitt ár í senn, hafa a.m.k. tvö og jafnvel fleiri ár undir. Það þekkist nú þegar í sumum ríkjum, t.d. í Bandaríkjunum, að fjárlög eru samþykkt til tveggja ára og hin eiginlega fjárlagaumræða fer ekki fram nema annað hvert ár. Síðan eru bara gerðar leiðréttingar þess á milli. Það fer kannski of mikill tími í að ræða um fjárlög hvers árs fyrir sig. Ástæðan er sú að í raun og veru gera stjórnvöld ekki góðar áætlanir langt fram í tímann.

Með þessu frv., ef samþykkt verður, er það orðið lögbundið að fjmrh. er skylt að gera áætlanir lengra fram í tímann. Eftir því sem þær verða betri þeim mun minna skref verður að fara yfir í fjárlög til lengri tíma og gera síðan árlegar breytingar. Það mun að sjálfsögðu leiða til meiri vinnu, hygg ég, fyrir viðkomandi nefnd í þinginu en ætti að vera léttara fyrir allt annað starf.

Mér hefur verið sagt að t.d. á Írlandi komi þingið sem slíkt ekkert að fjárlögum fyrr en á lokastigi og taki þá endanlega afstöðu til málsins eftir að fjárlagafrv. hefur velkst um hjá ráðgefandi aðilum og loks hjá þingnefnd sem endanlega leggur það til atkvæða og þá standi menn frammi fyrir afarkostum þeim sem slíkar tillögur eru þegar að lokum kemur. Það hefur verið talinn galli á íslenska kerfinu hve auðvelt er að skilja í sundur ákvarðanir um tekjuöflun og gjaldfærsluna. Með öðrum orðum, menn geta samþykkt hér að tillögu meiri hluta fjárln. tölur í fjárlagafrv. sem stangast á við önnur lög sem aðrar nefndir eða nefndarmenn leggja til að samþykktar verði eða legga ekki til að samþykktar verði. Það er gagnslítið að gera ráð fyrir tekjum í fjárlagafrv. ef tekjulögum, skattalögum, er ekki breytt samsvarandi. Það er lítið gagn að því að taka niður útgjaldatölur, t.d. í heilbrigðismálum, sem byggjast á tilteknum aðgerðum sem kosta lagabreytingar ef þær lagabreytingar verða ekki. Með því að stilla saman bæði tekju- og gjaldahliðina hjá einni nefnd eru meiri líkur til að menn standi frammi fyrir því að þurfa að skoða heildardæmið og þá mun það varla gerast, sem var algengt áður fyrr, að lánsfjárlög voru ekki afgreidd fyrr en á nýju ári. Frægasta dæmið er frá 1991 þegar lánsfjárlög voru ekki afgreidd fyrr en í marsmánuði en kosið var í apríl. Þau lánsfjárlög voru kannski áhrifameiri fjárlög heldur en nokkurn tímann fjárlagafrv. sjálft. Sem betur fer hefur það ekki orðið, utan einu sinni, eftir það.

Virðulegi forseti. Það mætti teygja lopann og hafa mörg orð um það sem hefur komið fram. Ég hef kosið að gera ekki að umtalsefni ýmis atriði sem ég veit að eru viðkvæmari í þessu frv. eins og t.d. samskipti og samstarf löggjafarvaldsins eða fjárveitingavaldsins og framkvæmdarvaldsins. Ég bið menn hins vegar að skoða að það er ekki allt sem sýnist í þeim efnum. Nákvæmlega eins og hv. þm. Sturla Böðvarsson benti á, þá kann að vera verra fyrir eftirlitshlutverk þingsins ef sífellt er gert ráð fyrir einhverju samráði við nefndina um hluti sem eiga að vera á forræði framkvæmdarvaldsins. Við megum aldrei gleyma því að samkvæmt stjórnarskránni ríkir hér þingræði sem felur í sér að meiri hlutinn ber ábyrgð á ráðherrum og ráðherrar bera ábyrgð á athöfnum sínum samkvæmt stjórnarskránni. Síðan er þetta nánar útfært í stjórnarráðslögunum og reyndar með sérstæðri reglugerð sem er undirskrifuð af forseta Íslands. Þessi lög og þessa reglugerð verðum við auðvitað að virða, allar stofnanir, ekki síður þingið en aðrar stofnanir, og sætta sig við að það er hlutverk eins ráðherrans, forsrh., að fara með í vissum tilvikum málefni sem snerta þingið, Hæstarétt og forsetaembættið, þó þau embætti séu alls ekki veigaminni en embætti forsrh. Þannig er þetta í þingræðisríki og þessa leikreglu þarf að virða. En á sama hátt ber líka að tryggja að vald þingsins sé það sem það á að vera.

Ég skil mjög vel þegar fjárln. er að fást við tiltekin verkefni á lokadögum afgreiðslu fjárlagafrv. og ekki tekst að ljúka verkefninu nægilega skýrt og afmarkað þannig að hægt sé að setja upp tilteknar tölur í frv. sem mæla fyrir um tilteknar aðgerðir, að þá skuli við 6. gr., sem er heimildargrein, vera sett inn ákvæði eins og þau að einhver tiltekin aðgerð sé leyfileg í samráði við fjárln. vegna þess að þar hefur fjárln. verið að fást við hluti á tilteknum forsendum. Ég tel hins vegar að það sé ósiður að hafa föst lagaákvæði þar sem fjárln. eða hluti fjárln. er í sífelldu samaráðshlutverki um mál sem eðli sínu samkvæmt eru framkvæmdarvaldsmálefni. Þá getur það gerst, eins og hv. þm. benti réttilega á, að samráðshlutverkið breytist í bönd þannig að framkvæmdarvaldið hafi í raun sterkari bönd á löggjafarvaldinu en löggjafarvaldinu finnst. Þetta verða menn að skoða mjög rækilega þegar um þessi mál er fjallað.

Nú hef ég syndgað því að ég ætlaði alls ekki að tala um þessa hluti. Ég veit að nefndin mun gera það þegar hún tekur málið í sínar hendur. Ég vildi aðeins þakka þingmönnum fyrir málefnalegar umræður og fyrir undirtektir þeirra við þetta frv.