Atvinnuleyfi fyrir nektardansara

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 15:14:30 (1317)

1996-11-18 15:14:30# 121. lþ. 26.1 fundur 92#B atvinnuleyfi fyrir nektardansara# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:14]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég get sparað mér langan formála að þessari fyrirspurn. Hún varðar sama efni sem ég beindi til hæstv. dómsmrh. Hæstv. félmrh. hefur með höndum leyfisveitingar til erlendra ríkisborgara fyrir starfsleyfi hér á landi. Og þar á meðal til þeirra kvenna, því mér skilst að hér sé um að ræða konur eingöngu enn sem komið er, sem koma til landsins til þess að standa fyrir þeirri starfsemi eða ráða sig til þeirra veitinga- og skemmtistaða sem um ræðir, í fjórir vikur í senn og koma hér á færibandi í þessu sambandi, sleppa við venjulegar kvaðir varðandi skattgreiðslur og þess háttar að öðru leyti en því sem varðar listamenn og starfsemin er rekin undir því nafni.

Hæstv. félmrh. hefur ótvírætt valdið varðandi veitingu atvinnuleyfa og þarf kannski ekki að bíða með sama hætti og hæstv. dómsmrh. eftir því að taka af skarið. Því er mín spurning til hæstv. félmrh.: Ætlar hann að veita frekari atvinnuleyfi til þeirra einstaklinga sem hér er um að ræða undir því yfirskini að verið sé að sýna þeim list sem kaupa sig inn á þessa staði en ekki verið að stunda iðju sem fellur undir klám eins og mér sýnist augljóst m.a. í ljósi þess sem fram kom í sjónvarpinu í síðustu viku.