Stytting vinnutíma án lækkunar launa

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 16:23:09 (1348)

1996-11-18 16:23:09# 121. lþ. 26.13 fundur 4. mál: #A stytting vinnutíma án lækkunar launa# þál., GE
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[16:23]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Það er fyllsta ástæða til þess að ræða þetta mál. Það er af sama meiði og það frv. sem undirritaður mælti fyrir fyrir tíu dögum og það kemur í ljós að það er fyllsta ástæða fyrir stjórnarandstöðuna að vinna saman í málum sem tengjast málefnum fjölskyldunnar.

Ég vil minna á að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir vann í sinni ráðherratíð að framsetningu fjölskyldustefnu og lagði hana hér fram. Það mál snýst um afkomumál fjölskyldunnar í víðasta skilningi og það má fagna því að slík mál skuli koma til umræðu hv. Alþingis.

Það er ástæða til, þegar hvert málið á fætur öðru ber á borð þingmanna eins og skerðingarnar eða upplýsingar um þær skerðingar sem fólk verður fyrir, að benda á þskj. 193. Þar er svar við fyrirspurn hv. þm. Sigurðar Hlöðvessonar um ökutækjastyrki og hjálpartæki fyrir fatlaðra íbúa á sambýlum. Hvað kemur þar í ljós? Ökutækjastyrkir hafa lækkað úr 160 millj. í 80 millj. Þetta er alvarleg skerðing. Það er m.a. af þessum ástæðum sem menn eru að tala um þessi mál enda er fyllsta ástæða til.

Herra forseti. Í þessari þáltill. er verið að ræða um um styttingu vinnutíma án lækkunar launa. Auðvitað ætti kannski að ræða um lágmarkstekjur sem þarf til að unnt sé að framfleyta einstaklingi, dagvinnutekjur eða tekjusamsetningu launa, þótt dagvinnutími á mánuði styttist. Ég hef fullyrt að fjöldi manna á Íslandi er með undir 55 þús. kr. í tekjur á mánuði fyrir dagvinnu. Ég tel að allur meðaltalstekjuútreikningur sem t.d. er verið að birta og kom til umræðu áðan, sé til þess að blekkja. Og til að fela hina raunverulegu skömm íslensks þjóðfélags sem er skammarlega lág lægstu samningsbundin laun og lágmarksbætur til ellilífeyrisþega og öryrkja. Við þetta stend ég fullkomlega og ég skora á þá sem neita að afsanna framsetningu mína.

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari þáltill. Hún er nefnilega af sama toga og frv. til laga sem ég mælti fyrir fyrir tíu dögum, en mismunurinn er engu að síður sá að ég setti fram tillögu um lögbindingu lágmarkslauna. Og vegna hvers? Vegna þess að laun eru svo lág og vegna þess að Vinnuveitendasamband Íslands hefur gert tillögu um 3,5--4% hækkun á almenn laun. Þess vegna var sú tillaga sett fram.

Það hefur verið sagt að það sé örðugt að skilgreina fátækt. Menn hafa sagt í þessum stól: ,,Það eru svo mismunandi þarfir að einn getur komist vel af með tekjur sem annar nær ekki saman endum með.`` Það getur vel verið að það sé rétt að þetta fari eftir aðstæðum. En ég fullyrði að sá sem ekki getur leyft sér að fara í leikhús og á veitingahús, samtals 4--6 sinnum á ári, er fátækur. Sá sem ekki getur leigt sér 35 fermetra íbúð, haft sjónvarp og síma auk fæðis og klæðis, er líka fátækur. Ég tel að það þurfi ekkert aðra skilgreiningu. Ef launin eru svo lág að það sé ekki hægt að fullnægja svona lágmarksþörfum er um fátækt að ræða.

Ég hef gert að umræðuefni útspil Vinnuveitendasambandsins, miðvikudaginn 30. október sl. Ég tel að sú framsetning þeirra sé fullkomin ástæða til þess að verkalýðsfélögin, almenningur, þingmenn og ríkisstjórn bregðist við. Miðað við þessar aðstæður tel ég fyllstu ástæðu til að lög verði sett um lágmarkslaun. En ég ítreka það sem ég hef áður sagt um að draga það frv. af borði ef þannig kemur til.

Ég vil minna á, herra forseti, að frambjóðendur til embættis forseta Íslands sögðu allir í kosningabaráttu sinni að það yrði að hækka lægstu laun verulega. Hæstv. forsrh. Íslands, Davíð Oddsson, sagði í hátíðarræðu sinni 17. júní sl. að það yrði að hækka verulega lægstu laun. Allir framantaldir aðilar og margir fleiri hafa sagt: ,,Það verður að hækka lægstu laun, bæta kjör öryrkja og aldraðra.`` Það er heilög skylda allra þessara aðila að standa við stóru orðin í þessum máli. Það er skylda sérhvers alþingismanns að taka undir þá kröfu að lægstu laun verði hækkuð verulega án þess að þeir sem best eru settir fái sömu prósentuhækkun. Ég tel, herra forseti, vera til skammar að aðstæður skuli vera slíkar á Íslandi að sífellt og stöðugt þurfi að vera að berjast í málefnum fjölskyldunnar á Alþingi. Það á að sjálfsögðu að semja um laun, almennileg lágmarkslaun, á vinnumarkaði. En meðan svo er ekki þá tel ég að ekki sé hægt að víkja sér undan því að fjalla mjög alvarlega um málefni fjölskyldunnar. Og ég minni á, herra forseti, að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir talaði um að það væri eðlilegt að þessi þáltill. og frv. til laga um lögbindingu lágmarkslauna færu sameiginlega að einhverju leyti til umfjöllunar hjá hv. félmn. og ég tek undir það. Þetta eru mál, eins og hv. þm. Svavar Gestsson rakti áðan, sem eru af sama toga og svo mörg fleiri. Það þarf svo sannarlega að bæta stöðu fjölskyldunnar á Íslandi í dag.