Almannatryggingar

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 16:51:12 (1353)

1996-11-18 16:51:12# 121. lþ. 26.14 fundur 9. mál: #A almannatryggingar# (sálfræðiþjónusta) frv., ISigm
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[16:51]

Ingibjörg Sigmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar sem er á þskj. 9. Flm. er Margrét Frímannsdóttir.

Frv. þetta var lagt fram á fyrstu dögum þingsins en hefur nú verið prentað að nýju örlítið breytt. Í stað þess að í 1. gr. var áður aðeins kveðið á um þátttöku almannatrygginga í greiðslum vegna þjónustu sálfræðinga við börn að 18 ára aldri er nú kveðið á um þátttöku vegna sérfræðiþjónustu sálfræðinga og félagsráðgjafa.

Þegar um er að ræða svokallaða sérhæfða fjölskylduráðgjöf eða fjölskyldumeðferð felur það oft í sér þjónustu beggja þessara stétta. Félagsráðgjafar taka ekki síður en aðrir fagaðilar að sér meðferð og fjölskylduráðgjöf ásamt stuðningsviðtölum en þeirra hlutverk er m.a. að koma á framfæri ýmsum upplýsingum um réttindi og möguleika á annarri opinberri þjónustu.

Í frv. er gert ráð fyrir að binda þátttöku tryggingakerfisins við sérfræðiréttindi í þessum starfsgreinum. En samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef stendur yfir endurskoðun á lögum um félagsráðgjöf þar sem gert er ráð fyrir sérfræðiréttindum innan greinarinnar. Að þessari endurskoðun lokinni verða væntanlega gerðar kröfur um sérfræðiþekkingu á ýmsum sérsviðum t.d. hvað varðar fjölskyldumeðferð og þjónustu fyrir börn með sérþarfir. Það er einnig eðlilegt að binda frv. þetta við starfsemi sérfræðinga á þessu sviði til að takmarka þá útgjaldaaukningu sem fylgir samþykkt frv. fyrir tryggingakerfið. Auk þess ætti krafa um sérfræðiþekkingu að tryggja að hægt er að veita þá þjónustu sem sóst er eftir.

Nokkur hópur félagsráðgjafa hefur bæði almenn meðferðarréttindi og þjálfun til að stunda einstaklings-, foreldra- og fjölskyldumeðferð. Í Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands er tveggja ára þverfaglegt nám í fjölskyldumeðferð fyrir reynt fagfólk. Þróunin í dag er í þá átt að spyrja um sérfræðiþekkingu án tillits til þess hver faghópurinn er, ekki síst þegar um sérhæfð verkefni er að ræða.

Margir sérfræðingar, sálfræðingar og félagsráðgjafar neyðast að eigin sögn til að vísa fólki frá af því að það getur ekki greitt kostnaðinn að fullu. Oft er þetta fólk sem ekki getur hugsað sér að leita til félagsmálastofnunar enda er þar löng bið og takmarkaða sérhæfða þjónustu að fá. Skólarnir hafa sömuleiðis lítið bolmagn og taka í reynd aðeins að sér greiningu vandans hjá börnum en ekki meðferð, eins og lesa má í bréfi frá skólaskrifstofu Suðurlands. Með leyfi forseta langar mig að vitna hér í bréf undirritað af Jóni Hjartarsyni, forstöðumanni skólaskrifstofu Suðurlands, og jafnframt í bækling sem hvort tveggja var sent hæstv. heilbrrh., Ingibjörgu Pálmadóttur, í byrjun síðasta mánaðar. Þar segir m.a.:

,,Rétt er að geta þess hér að ráðgjafarþjónustu skóla er ekki ætlað að veita meðferð. Ein af ástæðunum fyrir því að undirritaður sendir yður bæklinginn til kynningar og í allar heilsugæslustöðvar á Suðurlandi er sú skörun sem á sér stað milli þessara aðila innan skólans þar sem heilsugæslan hefur margvíslegar lagaskyldur, samanber m.a. 53., 57. og 58. gr. reglugerðar nr. 160/1982. Nauðsynlegt er að skólastjórar geti reitt sig á þessa þjónustu heilsugæslustöðva og vísað nemendum þangað til meðferðar þegar við á. En víða er verulegur skortur á að heilsugæslan annist þessa þjónustu eins og reglugerðin mælir til um.

Undirritaður telur nauðsynlegt að hugað sé að þessum atriðum og beinir þeim eindregnu tilmælum til heilbrrh. að hann hlutist til um að þessum þætti heilbrigðisþjónustunnar sé sinnt í samræmi við lög og reglugerðir.``

Þá segir í bæklingnum sem þessu fylgir, sem er stefnumörkun og starfsemi skólaskrifstofu Suðurlands:

,,Sérfræðiþjónusta fyrir grunnskólann tekur ekki að sér meðferð einstaklinga eða fjölskylduráðgjöf. Það er á verksviði félagsþjónustu sveitarfélaga, félags- og heilbrigðisþjónustu ríkisins og á ábyrgð forráðamanna.``

Við vitum líka að þó fjölskylduþjónusta kirkjunnar anni talsverðu og nýstofnuð fjölskylduráðgjöf Reykjavíkur og Mosfellsbæjar, Samvist, bætist nú við þá dugar það skammt. Með því að víkka út tryggingaákvæði mundi einnig það bil brúast sem hin ófullburða þjónusta innan skólans sjálfs, samanber grunnskólalögin, býður upp á. Sömuleiðis kynnu þar með að skapast fleiri möguleikar fyrir foreldra sem eru að skilja til að fá aðstoð við tilfinningalegt uppgjör og gerð skilnaðarskilmála.

Það er barnaverndarmál og mikilvægt forvarnastarf að tryggja börnum og foreldrum þeirra aðgang að þjónustu félagsráðgjafa og sálfræðinga. Þörfin er til staðar, eins og sést í nýlegri könnun, sem var lokaverkefni sálfræðinema Elínar Jónsdóttur og Herdísar Einarsdóttur í Háskóla Íslands. Samkvæmt henni eru um 10% íslenskra barna á aldrinum 10--14 ára með þunglyndiseinkenni og um 20% barna á fermingaraldri sögðust hafa hugleitt sjálfsvíg. Í ritgerðinni koma fram athyglisverðar staðreyndir. Meðal annars að öll einkenni þunglyndis hjá fullorðnum geta komið fram þegar í bernsku og á unglingsárum.

Í tímaritinu Nýtt Líf er sagt frá ritgerðinni og niðurstöðum könnunar sem eru birtar í henni. Þar kemur fram að auk þessara einkenna þunglyndis, sem greina megi jafnt hjá fullorðnum sem börnum, bætist oft við, þegar um ungling er að ræða, árásargirni og andfélagsleg hegðun, sérstaklega hjá unglingsstrákum. Þá segir jafnframt í greininni að þunglynd börn undir 12 ára aldri þjáist þar að auki oft af sektarkennd og hafi miklar áhyggjur af framtíðinni.

Margvíslegir þættir auka hættu á geðlægð barna t.d. streita í fjölskyldum og neikvæð lífsreynsla, svo sem skilnaður eða togstreita foreldra, missir foreldris eða systkinis. Því miður benda rannsóknir til þess að ef þunglyndi kemur fram hjá barni séu miklar líkur á að það eigi við geðlægð eða aðra alvarlega röskun að stríða á fullorðinsárum. Mikilvægt er því að greina einkenni geðlægðar hjá börnum til að bregðast megi við þeim áður en þau ná að festast. Meðferð á börnum ber góðan árangur og er varanleg. Meðal þess sem hægt er að gera til að draga úr þunglyndi barna og unglinga er að veita þeim betri uppeldisskilyrði og grípa inn í um leið og geðræn vandamál gera vart við sig.

Þær Elín og Herdís segja fullvíst að streitan og hraðinn í þjóðfélaginu hafi neikvæð áhrif á andlega líðan íslenskra barna. Mörg börn búa við erfiðar aðstæður, verða að sjá mikið um sig sjálf og axla miklu meiri ábyrgð en þau standa undir með góðu móti. Börn hér á landi taka oft þátt í erfiðleikum og vandamálum foreldra sinna og þjást af öryggisleysi og sektarkennd yfir því að ráða ekki við aðstæður.

[17:00]

Umönnunarbætur og umönnunarstyrkur er greiddur vegna barna að 16 ára aldri sem þurfa á mikilli aðhlynningu að halda á heimilum sínum. Umönnunarbætur eiga að koma til móts við umönnun foreldra fatlaðra og sjúkra barna og útgjöld þeirra. Hæstu greiðslurnar eru vegna mikið fatlaðra og/eða barna með alvarlega langvarandi sjúkdóma, t.d. barna með krabbamein á meðan þau eru í meðferð. Vera þessara barna á leikskóla eða skóla lækka greiðslurnar verulega. Lægstar verða umönnunarbæturnar 2.907 kr. á mánuði en þær hæstu 5.212 kr. á mánuði. Það má velta því fyrir sér hvort þessum greiðslum er ætlað að dekka þann kostnað sem fjölskyldan þarf að bera vegna meðferðar hjá sérfræðingi á sviði félagsráðgjafar eða sálfræði. Það er mjög algengt að fjölskyldur þessara sjúklinga þurfi á þess konar aðstoð að halda. Í dag eru greiðslur umönnunarbóta, umönnunarstyrks og barnaörorku inntar af hendi vegna rúmlega 1.800 barna. Af þessum 1.800 börnum eru um 900 með þroskafrávik, eru misþroska og/eða ofvirk. Hin 900 eru börn haldin alvarlegum langvarandi sjúkdómum eða fötlun. Til þessa hefur verið látið nægja að fá læknisvottorð vegna misþroska barna svo foreldrar eigi rétt á greiðslum vegna umönnunar. Fullkomin greining fæst hins vegar ekki nema hjá sálfræðingi og slík greining kostar eftir því sem ég hef upplýsingar um í kringum 10.000 kr. Ekkert eða lítið hefur verið komið til móts við þarfir þeirra barna eða foreldra þeirra sem þurfa á aðstoð sálfræðings eða félagsráðgjafa að halda vegna veikinda eða fötlunar barns. Þjónustan er vissulega til staðar en kostnaður vegna hennar er mikill og nær óviðráðanlegur efnalitlum fjölskyldum. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna hefur ítrekað leitað eftir því við heilbrrn. að þátttaka vegna kostnaðar við þjónustu sálfræðinga og/eða félagsráðgjafa verði viðurkennd. Þá hafa Landssamtökin Þroskahjálp ásamt félaginu Umhyggju, sem er félag til stuðnings sjúkum börnum, sent ráðherra erindi varðandi þessa þjónustu á barnadeildum sjúkrahúsanna.

Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í bréf sem þessir aðilar sendu heilbrrn. um miðjan júní sl. en þar segir m.a.:

,,Landssamtökin Þroskahjálp og Umhyggja, félag til stuðnings sjúkum börnum hafa á undanförnum mánuðum haldið nokkra sameiginlega fundi til að ræða þörf og skort á sálfræðilegum stuðningi á barnadeildum sjúkrahúsa hérlendis. Fundina hafa setið auk fulltrúa frá ofangreindum samtökum ýmsir fagaðilar frá barnadeildum, þar með taldir yfirlæknar.

Eins og fram kemur í hjálögðu eru aðilar sem fundina hafa setið á einu máli um það sem hér er til umfjöllunar. Í stuttu máli, að fyrir löngu sé orðið tímabært að ráða félagsfræðinga og sálfræðinga við barnadeildir sjúkrahúsanna hér á landi. Nefndum aðilum er þó ljóst að slíkt gerist ekki í einu stökki og er því eftirfarandi tillögu komið á framfæri:

,,Heilbrigðisráðherra sjái til þess að sem allra fyrst verði ráðinn einn félagsráðgjafi sem sinni báðum barnadeildunum í Reykjavík. Um 100% starf verði að ræða sem skiptist á milli deildanna tveggja í réttu hlutfalli við fjölda legudaga. Ráðning þessi verði til fimm ára og skoðist sem tilraun. Mat verði lagt á árangur í lok tímabilsins og framhald skoðað í ljósi þess.``

Virðulegi forseti. Með bréfi þessu fylgir greinargerð sem ætluð er til að skilgreina og skýra þörf veikra og eða fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra fyrir þjónustu sálfræðinga og/eða félagsfræðinga. Þar kemur m.a. fram að rannsóknir víða erlendis og frásagnir foreldra, m.a. hér heima, sýna svo ekki verður um villst að foreldrar og í raun öll fjölskylda barns sem greinist með alvarlegan sjúkdóm eða fötlun þarf mikinn sálfræðilegan stuðning til að takast á við áfallið og þær afleiðingar sem greiningunni fylgja. Sama á auðvitað við þegar áfallið á sér stað við fæðingu barns eða þegar um alvarlegt slys er að ræða. Sjálfkrafa og eðlileg þátttaka sálfræðings og/eða félagsráðgjafa í meðferð barns og fjölskyldu þess auðveldar öllum viðkomandi að takast á við vandamálin.

Stór áföll, sem hafa langvarandi áhrif á fjölskyldur, móta fjölskylduna fyrir lífstíð. Það getur því haft afgerandi áhrif á hvern hátt fjölskyldan er studd fyrstu skrefin eftir að erfiðleikarnir dynja yfir. Ótalmargar fjölskyldur vitna um það að skortur á sálfræðilegum stuðningi hafi þegar á þurfti að halda haft varanlegar afleiðingar á fjölskyldulífið og þá ekki hvað síst sett mark sitt á framtíð barna innan þessara fjölskyldna. Niðurstöður rannsókna benda ótvírætt til þess að þar sem þjónusta sálfræðinga og félagsráðgjafa er sjálfsagður hlutur þeirrar heilbrigðisþjónustu sem fötluð börn eða börn með langvarandi sjúkdóma og fjölskyldur þeirra njóta tekst fjölskyldum betur að vinna úr sameiginlega úr erfiðleikunum.

Á allt þetta hefur verið bent í viðtölum við hæstv. heilbrrh. og á fundum og ábendingarnar hafa borist frá fleiri aðilum en þeim sem áður eru nefndir. Samtökin Barnaheill héldu fund um stöðu barna og unglinga á Íslandi. Í skýrslu um niðurstöðu þess fundar kemur m.a. fram að Íslendingar eru yngsta norðurlandaþjóðin, 30% Íslendinga eru undir 18 ára aldri. Við verjum hins vegar hlutfallslega minna fjármagni til félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir börn en annars staðar á Norðurlöndum. Þar kemur einnig fram að vaxandi skuldastaða heimilanna bitnar illilega á börnum. Börnin verða beinir og óbeinir þátttakendur í fjárhagserfiðleikum heimilanna sem kemur niður á andlegri líðan þeirra og bitnar oft á þátttöku þeirra í skóla- og félagsstarfi. Þá segir í skýrslunni að ætla megi að 20% íslenskra barna þurfi að leita aðstoðar vegna tilfinningalegra afleiðinga. Þar af megi búast við að um 4.000 börn hið minnsta eigi við verulega tilfinningalega erfiðleika að etja. Erfiðleikar þeirra hafa síðan áhrif á foreldra, systkini, skólafélaga og nágranna. Bægja þarf frá goðsögninni að vandamál barna séu léttvæg og að þau vaxi upp úr erfiðleikum sínum. Þessu er öfugt farið. Vandamál barna geta verið mjög alvarleg og afleiðingar þeirra sömuleiðis. Það er útbreiddur misskilningur að sérfræðiaðstoð skóla eigi að sinna meðferð þessara barna. Það er ekki rétt, sú aðstoð felst fyrst og fremst í því að greina vandann og vísa í áframhaldandi meðferð.

Heilsugæslan ætti að vera með á sínum snærum sálfræðinga og félagsráðgjafa sem sinni þessari þjónustu. Þar er hins vegar verulegur misbrestur á. Því verða foreldrar barna sem eiga við þessi vandamál og veikindi að stríða oftar en ekki að sækja þjónustu til sjálfstætt starfandi sérfræðinga þar sem tryggingakerfið tekur ekki þátt í kostnaði fyrir þjónustuna.

Fíkniefnaneysla barna og unglinga hefur vaxið gífurlega á undanförnum árum. Það er vandi sem oft hefur verið rætt um á Alþingi. Samt erum við í þeirri stöðu að sárlega vantar meðferðarúrræði fyrir unglinga sem hafa ánetjast fíkniefnum. Það sannaðist nú fyrir stuttu þegar ríkisstjórninni voru afhentar undirskriftir nokkur þúsund einstaklinga sem vildu knýja á um úrlausnir í þessum málum.

Það er nauðsynlegt að hafa meðferðarúrræði þar sem ungum fíkniefnaneytendum er hjálpað en einnig er nauðsynlegt að foreldrar og systkini þessara barna fái faglega aðstoð við að leysa úr þeim mörgu vandamálum sem upp koma í fjölskyldulífi þegar einn meðlimur fjölskyldunnar ánetjast eitrinu. Vandamálin verða jafnvel stærri og sárari þegar þessi einstaklingur er barn eða unglingur. Margir foreldrar, sem eru í þeirri stöðu að eiga barn í neyslu eða barn sem komist hefur út úr þessum vítahring, hafa sagt að litla sem enga aðstoð sé að fá eða ráðgjöf þar sem unnið er með vandamálið með allri fjölskyldunni. Utan stofnana sé afar erfitt að fá slíka ráðgjöf nema þá að greiða fyrir hana fullu verði. Í raun sé nauðsynlegt fyrir ungling eða barn, sem hefur neytt vímuefna, að fá stöðuga aðstoð til að aðlagast umhverfi sínu aftur. Slík aðstoð þurfi að vera til staðar í langan tíma eftir að meðferð inni á stofnuninni lýkur. Hins vegar er dýrt að kaupa sér þjónustu fyrir einstaklinginn eða fjölskyldu hans. Þjónusta sálfræðinga og/eða félagsráðgjafa þyrfti að vera sjálfsagður hlutur félagsþjónustunnar og kostnaðarþátttaka ríkisins í samræmi við það. Sama vandamál hefur komið fram hjá þeim börnum og unglingum sem beitt hafa verið hvers konar ofbeldi. Þau þurfa á þessari þjónustu að halda oft í langan tíma, jafnvel árum saman.

Virðulegi forseti. Ef frv. um þátttöku ríkisins í kostnaði vegna þjónustu sérfræðinga á sviði sálfræði- og félagsráðgjafar fyrir börn og ungmenni verður samþykkt fylgja því að sjálfsögðu aukin útgjöld ríkisins. Erfitt er að segja til um hve mikil þessi aukning er. Hitt er þó alveg ljóst að sé tekið í tíma á þeim sálfræðilegu og/eða félagslegu vandamálum sem stór hópur barna og unglinga á við að etja er það vissulega forvarnastarf sem skilar sér í sparnaði innan heilbrigðiskerfisins þegar til lengri tíma er litið. Þjónusta sérfræðinga á sviði sálfræði og félagsráðgjafar ætti fyrir löngu að vera búið að viðurkenna sem sjálfsagðan hlut heilbrigðisþjónustunnar með eðlilegri þátttöku ríkisins í kostnaði sjúklings vegna þessarar þjónustu.

Að lokinni umræðunni legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hæstv. heilbr.- og trn.