Félagsleg aðstoð

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 17:31:47 (1358)

1996-11-18 17:31:47# 121. lþ. 26.15 fundur 10. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:31]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég tel að þau tvö frv., sem hafa verið flutt af hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og mælt var fyrir af hv. þm. Ingibjörgu Sigmundsdóttur, staðfesti mjög vel hvað velferðarlöggjöfin og þá aðallega almannatryggingalöggjöfin er gölluð. Almannatryggingalöggjöfin gengur út frá þeirri grunnforsendu að þeir einir geti átt rétt á greiðslum í gegnum almannatryggingakerfið sem eru og flokkast mega undir hefðbundnar heilbrigðisstéttir, þ.e. lækna og þá sem starfa undir faglegri stjórn lækna.

Í gildandi lögum er með öðrum orðum ekki gert ráð fyrir að möguleikar séu á því að aðrir komi þarna til. Ég held hins vegar að mjög mikilvægt sé að átta sig á því að nútímaheilbrigðisþjónusta getur ekki skilað árangri nema sálfræðingar og félagsráðgjafar komi að þeim vandamálum, sem fólk á við að glíma. Það er því gamaldagsnálgun að ganga út frá því að eingöngu læknismenntaðir aðilar eða aðilar á vegum hinna svokölluðu heilbrigðisstétta í þrengsta skilningi geti leyst þau mál. Þess vegna er frv. um almannatryggingarnar, sem var rætt áðan, gríðarlega stórt í þessu samhengi. En það er líka frv. um félagslega aðstoð, sem er á dagskrá, vegna þess að þar er hreyft stórmáli. Það sem hefur komið fram hjá hv. ræðumönnum er allt mjög umhugsunarvert. Ég held að nauðsynlegt sé að fólk geri sér grein fyrir að vandinn í þessum málum hefur kannski ekki síst stafað af stöðugri kostnaðartogstreitu milli ríkisins og sveitarfélaganna. Þau dæmi sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir nefndi áðan eru talandi um það. Aðstaða er fyrir hvíldarinnlagnir á hjúkrunarheimilum á nokkrum stöðum á Reykjavíkursvæðinu og væntanlega víðar, ég veit um fáeina aðra staði, en sú þjónusta sem hún er hins vegar að tala um, að því er varðar eina og eina kvöldstund eða eitthvað því um líkt, er þjónusta sem er til sums staðar og í einhverjum mæli, þó í litlu sé, og er kostuð af viðkomandi sveitarfélagi og er þá mál sem hefur í Reykjavík farið í gegnum Félagsmálastofnun Reykjavíkur. Auðvitað er það svo að Reykjavík, eins og eðlilegt er, reynir að halda utan um sitt og ríkið reynir að halda utan um sitt og endar með því að dálítil togstreita verður um þessa hluti, sem er mjög slæmt. Þess vegna er frv. afar mikilvægt því það tekur á þessu máli.

Grundvallarmunur er á frv. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur annars vegar og hv. þriggja þingmanna þingflokks jafnaðarmanna hins vegar vegna þess að í frv. þeirra hv. þm. er talað um rétt á umönnunarbótum sem nemi tiltekinni upphæð og þar með er þessi þjónusta sett inn í hið almenna bótakerfi. Aftur á móti er í frv. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur gert ráð fyrir að maki eða hver sá sem heldur heimili með og annast elli- eða örorkulífeyrisþega og getur af þeim sökum ekki eða takmarkað stundað vinnu utan heimilis eigi rétt á greiðslum fyrir umönnunarstörf á heimili sínu. Það er sem sagt ekki verið að tala um umönnunarbætur í venjulegum skilningi heldur greiðslur sem eru greiddar þessum aðilum við sérstakar aðstæður samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Og eins og kom fram í framsöguræðu hv. þm. Ingibjargar Sigmundsdóttur er með þessari aðferð komið til móts við þau sjónarmið sem m.a. hafa verið gerðar ályktanir um á vegum Öryrkjabandalagsins.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna, hæstv. forseti, er til umhugsunar. Þetta eru hvort tveggja og allt hin bestu mál og sömuleiðis þau mál sem hv. þm. Gísli Einarsson nefndi. En það er til dálítillar umhugsunar að í kerfinu hjá okkur, í þessari stofnun, lítur oft út eins og þingmenn séu að keppa um hin ágætustu mál og eru jafnvel að leggja fram frumvörp, tillögur eða annað svo að segja um sömu hlutina. Spurningin er hvort ekki er hægt að koma því þannig fyrir í vinnuferlinu í þinginu að það gerist ekki. Vegna þess að ég tel að það sé málum ekki til góða að það verki eins og kapphlaup sé í kringum þau. Ég held þvert á móti að nauðsynlegt sé að virkja samstöðuna þegar um hana er að ræða og hún er til staðar í þessu máli. Það er full samstaða í raun um grunnhugsun þessara mála og á þessu vil ég, hæstv. forseti, vekja sérstaka athygli. Hér er auðvitað hreyft gríðarlega stórum málum, bæði þessu og síðasta dagskrármáli sem bæði um sig mundu valda dálitlum kaflaskilum í velferðarkerfinu af því að kallað er til nýrra og allt annarra skilgreininga en áður hafa verið notaðar í þeim kerfum.