Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 18:08:29 (1367)

1996-11-18 18:08:29# 121. lþ. 26.16 fundur 44. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[18:08]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Það kom fram áðan í máli hæstv. iðn.- og viðskrh. að hann væri enn með nefnd að störfum sem fylgdist með þróun og kæmi með tillögur um breytingar á lögunum um erlenda fjárfestingu þegar mönnum sýndist það tímabært. Þetta er mjög merkilegt í ljósi þess að lögunum var jú breytt fyrir tæplega ári síðan. Sérstaklega er það þó merkilegt fyrir þær sakir að þegar verið var að semja um Evrópska efnahagssvæðið áttum við Íslendingar í þó nokkrum átökum við viðsemjendur vegna þess að við töldum nauðsynlegt að undanþiggja íslenskan sjávarútveg öllum erlendum fjárfestingum en mér heyrist hér í dag að það hvarfli ekki að nokkrum manni heldur sé miklu frekar nú orðið spurningin um það hversu mikið og að hvaða leyti við leyfum fjárfestinguna. Hér hafa orðið miklar breytingar á viðhorfum manna gagnvart erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi og menn eru farnir að ræða þessa hluti út frá allt öðrum forsendum en þeir gerðu bara fyrir nokkrum árum síðan. Og það er vel.

Vegna orða hv. þm. Kristjáns Pálssonar áðan vil ég undirstrika það að hugsunin í frv. er ekki sú að kljúfa sjávarútvegsfyrirtækin upp. Og ég held að við stöðvum enga þróun þó svo að þetta frv. yrði að lögum vegna þess að þetta frv. heimilar beina fjárfestingu í tilteknum greinum fiskiðnaðar. Nú þegar er heimilt að fjárfesta beint í öðrum greinum fiskiðnaðar eins og í öðrum iðnaði og öðrum matvælaiðnaði. Að mínu mati er hér miklu frekar um ákveðna leiðréttingu að ræða vegna þess að það er ákveðin mismunun í gangi eftir því hvaða vinnsluaðferð eða kannski öllu heldur hvaða geymsluaðferð er viðhöfð í vinnslunni. Ég er líka alveg viss um það að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki kljúfa ekki frá sér lífvænlega anga bara til að efna til samstarfs við útlendinga ef það veikir heildina. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa sýnt það á undanförnum árum að þau eru mjög aðlögunarhæf. Þau eru mjög dugleg að nýta sér þá möguleika sem eru í stöðunni hverju sinni. En þau hafa líka verið mjög dugleg við að ávaxta sitt pund og í rauninni að efla sína stöðu. Þau hafa haft til þess margs konar aðstæður á undanförnum árum en við sjáum af þeim tölum sem við erum að lesa um og heyra varðandi afkomu, varðandi stærðir þessara fyrirtækja að þau hafa mjög verið að eflast. Ef þessi fyrirtæki sjá sér hag í því að vera með alla þá breidd inni sem hv. þm. lýsti hér áðan þá munu þau gera það. Ef þau hins vegar sjá sér hag í því að efna til samstarfs við erlenda aðila um einhverja tiltekna þætti þá mun það áreiðanlega styrkja heildina.

Ég vil líka endurtaka það að hér sé um ákeðna leiðréttingu að ræða vegna þess að mitt mat er það að lögin eins og þau eru núna séu óskýr og erfitt að vinna með þau. Ég held að það sé ekki tilviljun að útlendingar kaupa ekki fisk á fiskmörkuðum hér og láta síðan vinna hann hérna. Ég held að það sé vegna þess að lögin eru óþjál. Ég veit það líka að þeir aðilar sem eru að leita fyrir sér erlendis um samstarf við aðila í öðrum matvælaiðnaði þar sem útlendingum er heimilt að fjárfesta eru auðvitað spurðir um fiskiðnaðinn vegna þess að menn vilja gjarnan eiga samstarf við Íslendinga um það sem lýtur að sjávarútvegi eins og við þekkjum en þessir aðilar eiga í erfiðleikum með lögin eins og þau eru núna. Það sem knýr á um að þetta sé skoðað er bæði það að við viljum gjarnan reyna að ná erlendu áhættufjármagni í annan matvælaiðnað. Við viljum ná inn þekkingu, við viljum ná inn þróun, við viljum ná inn samstarfi um markaðsmál en það knýr líka á að hér eru og hafa verið í gangi ákveðnar fjárfestingar, innan gæsalappa þó, erlendra aðila í fiskvinnslunni en þó ekki með hlutafjárkaupum. Ekki með þeirri nálgun sem menn reikna með þegar verið er að tala um fjárfestingar erlendra aðila. Við vitum dæmi þess að útlendingar hafa lánað íslenskum aðilum fé til þess að þeir geti keypt fiskvinnsluhús. Þeir lána og eiga tæki og vélar. Þeir hafa alfarið með markaðsmálin að segja og þar með hvað er framleitt. Þannig eru til fyrirtæki á Íslandi þar sem erlendir aðilar eru í raun eigendur án þess þó að þeir séu skrifaðir fyrir rekstrinum vegna þess að það er óheimilt. Ég held að löggjöf sem þessi mundi breyta þessu ástandi, hún yrði til þess að menn kæmu beint framan að þessum hlutum og við fengjum erlent áhættufjármagn inn í þennan atvinnurekstur með þeim hætti sem menn, að mínu mati, voru að tala um þegar þeir voru að tala um erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

Nú ég vil lýsa yfir ánægju minni með það sem kom fram hjá hæstv. viðskrh. og jafnframt þá bind ég vonir við það að hv. efh.- og viðskn. fari mjög nákvæmlega yfir það við yfirferð frv. hvernig þróunin hefur verið að undanförnu varðandi fjárfestingar erlendra aðila í fiskiðnaði. Ég held að það sé nokkuð brýnt fyrir okkur að kortleggja hvernig veruleikinn er vegna þess að ég held að hann sé að sumu leyti dálítið öðruvísi en blasir við ef menn lesa bara lögin. Eins og ég sagði áðan þá hefur vilji manna til að taka upp samstarf fundið sér annan farveg en reiknað var með. Ég tel rétt að við bregðumst við því með einhverjum hætti.

[18:15]

Herra forseti. Ég vil aðeins í lok umræðunnar rifja upp helstu atriðin sem ég tel mikilvæg í þessu máli. Þá er það í fyrsta lagi að það er mitt mat að óeðlilegt sé að mismuna fyrirtækjum í matvælaiðnaði eftir því í hvaða greinum þau eru. Það sé í rauninni fráleitt að mismuna fiskiðnaði eftir því hvaða vinnsluaðferðir eru viðhafðar. Þetta gerir, eins og ég sagði áðan, lögin þannig að það er erfitt að vinna eftir þeim og kannski ekki auðvelt að útskýra fyrir erlendum aðilum af hverju má ekki fjárfesta í söltun en allt í lagi að fjárfesta í reykingu, bara svo ég taki dæmi. Þetta er dálítið snúið og erfitt að útskýra og eykur ekki samkeppnishæfni Íslands eins og þar stendur vegna þess að það er ekki verið að gera atvinnuvegi sem þarf að búa við svona löggjöf auðveldara fyrir eða að bæta starfsumhverfið sem ég tel að við þurfum að hafa augun á á Alþingi þegar við erum að tala um atvinnulífið, að reyna að bæta starfsumhverfið þannig að fyrirtækjunum okkar verði gert kleift að vinna.

Það eru mörg dæmi um erlendar fjárfestingar á Íslandi, þó ekki nógu mörg, en þau sem við þekkjum hafa yfirleitt verið til góðs. Menn hafa talað um að það væri hættulega lítið um fjárfestingar annars staðar en í stóriðju og af því að menn hafa áhuga á því núna að ná inn erlendu fjármagni í annan matvælaiðnað þá held ég að við eigum að leita þeirra leiða sem hægt er vegna þess að það er jú stóriðja okkar og ekki síst stóriðja landsbyggðarinnar.

Menn hafa talað um að eignatengsl Íslendinga og útlendinga í fiskvinnslufyrirtækjum geti örvað markaðsstarf og leitt til nýsköpunar. Það kom fram áðan í máli hv. þm. Kristjáns Pálssonar að menn væru að sækja í kvótann. Það er ekki alls kostar rétt. Ég held að erlendir aðilar séu ekkert endilega að sækja í veiðiheimildir. Með því er ég ekki að segja að einhverjir þeirra væru ekki meira en viljugir til þess að komast inn í landhelgina en ég held að þeir séu í raun að sækjast eftir öðru. Ég held að margir þessara aðila séu að sækjast eftir afurðum til sölu erlendis. Þeir eru að sækjast eftir fiski til vinnslu vegna þess að þá vantar einhverjar tilteknar sérhæfðar afurðir inn á sinn markað. Í sumum tilfellum vilja þeir jafnvel hafa hönd í bagga með því hvernig þessar afurðir eru og hvernig þær berast inn á markaðinn. Við vitum um dæmi þess. Þannig að ég held að þarna kunni að liggja allt önnur sjónarmið að baki heldur en þau að menn vilji komast inn í útgerðina. Ég er ekki endilega viss um að hefðbundin erlend matvælavinnslufyrirtæki, sem væru tilbúin að taka upp samstarf við Íslendinga um matvælaiðnað, hafi endilega áhuga á því að fara í útgerð. Ég held að þetta séu sérhæfð fyrirtæki á sviði matvælaiðnaðar og hafi ekkert áhuga á að breikka sig þannig. Þó ég, eins og ég segi, þykist vita að menn væru fúsir til að komast inn í landhelgina ef það byðist stendur það ekki til með þessu frv. hér.

Ég talaði áðan um samkeppnisstöðu Íslands. Ég held að það skipti verulegu máli að við erum að einfalda löggjöfina og ég vænti þess að þegar bæði hv. efh.- og viðskn. og sú nefnd sem ráðherra er með á sínum vegum til að skoða þessi mál verða búnar að fara yfir þetta frv. þá muni það verða niðurstaða þeirra aðila eins og mín að hér sé frekar um ákveðna leiðréttingu að ræða en að um ákveðna stefnumörkun sé að ræða vegna þess, eins og ég sagði áðan, í sumum greinum fiskiðnaðar er þegar leyfilegt að vera með beina 100% þátttöku erlendra aðila.