Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 13:56:24 (1371)

1996-11-19 13:56:24# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[13:56]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil staðfesta það sem hæstv. forseti var að enda við að segja. Ég var búinn bæði að ræða við hann og hæstv. forseta þingsins, Ólaf G. Einarsson, um að taka þessi mál saman og eins nokkra þingmenn sem ég vissi að mundu taka til máls í umræðunni.

En varðandi hækkuð aldursmörk þá er það eitt af álitamálum þessa frv. Niðurstaðan varð sú að leggja 18 ár til en þó með opnun á að í sérstökum tilfellum gætu 16 ára eða yngri en 18 ára notið atvinnuleysisbóta ef þeir t.d. hafa stofnað heimili eða geta ekki stundað nám af einhverjum öðrum orsökum. Hugsunin í þessu er væntanlega að æskilegt sé að unglingar stundi nám til 18 ára aldurs. Það felst ekki í því nein skólaskylda enda væri það að mínu mati ekki skynsamlegt því það hentar ekki öllum að stunda nám. Ég tel hins vegar að það eigi ekki að hvetja menn til að hætta námi eða freista þeirra skulum við segja með bótarétti. Það sem reið baggamuninn í mínum huga, svo ég játi það hreinskilningslega því ég velti einmitt þessu atriði mikið fyrir mér, var að fyrir þinginu liggur frv. sem ég flutti sem leggur nokkrar hömlur á vinnu ungmenna undir 18 ára aldri.