Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 14:29:13 (1379)

1996-11-19 14:29:13# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[14:29]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka fram að ég hef fullan skilning á beiðni félmrh. í upphafi fundar um að ræða þau mál sem hér eru á dagskrá saman. Málin eru tengd þó að sá grundvallarmunur sé á þessum tveimur málum að fulltrúar stjórnarandstöðuflokka voru fylgjandi öðru frv. en ekki hinu. Hins vegar eru þessi mál umfangsmikil og ef það hefði fyrir fram legið fyrir að mælt yrði fyrir þeim saman þannig að við sem ætluðum að taka þátt í umræðunni hefðum vitað það með einhverjum fyrirvara, þá hefðum við eflaust beðið um tvöfaldan ræðutíma. En okkar viðhorf var að gera það ekki til að umræðan yrði liprari og við mundum frekar koma aftur í ræðustól. Þetta er skýring mín á því að ég skyldi gagnrýna það og hafna því að þessi mál yrðu rædd saman.

Það er mjög jákvætt, virðulegi forseti, að lagfæra lög um atvinnuleysistryggingar. Þeim er í mjög mörgu ábótavant. Ég minnist þess að hafa setið á árinu 1994 í starfshópi um þjónustu- og öryggiskerfi atvinnulausra og þá var fullur vilji til þess að fylgja þeirri skýrslu eftir og setja í gang vinnu við breytingu á lögunum. En því miður höguðu aðstæður því þannig að sú lagasmíð varð kannski leiksoppur annarra atburða í félmrn.

[14:30]

Það er mjög mikilvægt að félmn. taki þessi mál og þetta frv. til ítarlegrar skoðunar. Ég tek fram, eins og sá ræðumaður sem talaði á undan mér, að ýmislegt er þar að finna sem er jákvætt og mikilvægt og var mikilvægt að breyta. En það er ýmislegt í frv. sem vekur miklar áhyggjur og furðu þeirra sem lesa og spurning hver hugsunin er að baki og jafnvel spurningar um hvort nægileg þekking sé á þessum málum hjá þeim sem unnu frv. miðað við ýmislegt sem þar stendur.

Vegna orða félmrh. áðan um að atvinnuleysi hafi minnkað tek ég undir að fagna ber því þegar atvinnuleysi minnkar og það á að vera okkar meginviðfangsefni. En í hádegisfréttum var sagt að atvinnuleysi hefði aukist milli september og október þannig að við vitum ekki alveg hvar við stöndum í þeim efnum.

Ráðherra sagði að hann teldi að vera þyrfti betra skipulag og koma þyrfti skikki á atvinnuleysistryggingarnar og undir það tek ég. En ég ítreka að það er spurning hvort margt af því sem þarna er gert sé til betri vegar.

Nú er búið að prenta upp frv. með umsögn fjmrn. sem skorti í frv. sem var lagt fram á mánudag. Þar kemur fram hver kostnaðarauki og sparnaður er.

Virðulegi forseti. Ég ætla að vísa í lokalínur umsagnar fjmrn. en þar segir:

,,Ætla má að sparnaður á árinu 1997 geti numið 40--50 millj. kr., 85--100 millj. kr. á árinu 1998 og 135--160 millj. kr. á árinu 1999.``

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög háar upphæðir vegna þess að þetta er sparnaður sem er reiknað með að verði, væntanlega miðað við að menn gefi sér ákveðið atvinnuleysi. Þetta er ekki sparnaður sem verið er að gefa sér vegna fækkunar atvinnulausra. Þetta er sparnaður vegna breyttra reglna um atvinnuleysisbætur og þetta eru háar upphæðir. Af hverjum eru þessar háu upphæðir teknar? Af núverandi bótaþegum og það er það sem við ætlum að ræða --- hvernig þessar upphæðir eru sóttar.

Hins vegar segir líka í lokaorðum umsagnar fjmrn.: ,,Frá þessum sparnaði dregst aukinn kostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna útvíkkunar á rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysisbóta eða myndunar sérstaks sjóðs fyrir þá sem gæti numið á bilinu 75--150 millj. kr.``

Þetta, virðulegi forseti, eru líka háar upphæðir sem þýðir að verið er að taka inn á sjóðinn hópa sem ekki hafa haft bótarétt áður. Það liggur í augum uppi. Því spyr ég félmrh.: Hverjir fá rétt til atvinnuleysisbóta, sem ekki hafa haft hann áður? Hér var vísað til athugasemda við 1. gr. en þar er talað um að sett yrðu skilyrði varðandi sjálfstætt starfandi einstaklinga, þ.e. hverju þeir skuli fullnægja til að geta notið bóta úr sjóðnum. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglur um hvaða skilyrðum sjálfstætt starfandi einstaklingar verða að fullnægja til að teljast atvinnulausir. Ég vil spyrja ráðherra hver sé hugmyndin á bak við þetta, því það hlýtur að vera búið að setja eitthvað niður fyrir sér hvað þarna er á ferð. Einnig um það sem hv. þm., er á undan mér talaði, nefndi að mjög jákvætt væri að námsmenn og heimavinnandi gætu öðlast bótarétt úr sjóðnum með greiðslu iðgjalda til hans samkvæmt sérstökum reglum. Hvernig hugsar ráðherra sér þessar reglur? Og til umhugsunar: Er það hugsað þannig að t.d. kona sem er á vinnumarkaði eignast barn og fer út af vinnumarkaði og er ef til vill á atvinnuleysisbótum ákveðinn tíma. Hún ætlar síðan að vera heimavinnandi um sinn, greiðir í sjóðinn meðan hún er heimavinnandi til þess að eiga rétt þegar hún fer út á vinnumarkaðinn aftur en fær ekki vinnu strax. Til þess að hafa öðlast rétt til bóta þarf hún að hafa borgað í sjóðinn meðan hún er heimavinnandi. Það er erfitt að skilja við hvaða aðstæður heimavinnandi kona á að borga í Atvinnuleysistryggingasjóð, væntanlega varla meðan hún er kannski árum saman heimavinnandi.

Virðulegi forseti. Ég vil líka nefna að nú á landið að verða eitt vinnusvæði samkvæmt vinnumarkaðsfrv. Það er mjög jákvætt og mjög mikilvægt að draga það fram að ráðherra lýsi því yfir að fólk verði ekki flutt á milli staða. En texti þess frv. gefur til kynna að fólk geti verið í þeirri aðstöðu að því sé gert að fara á annan stað fjarri heimabyggð til að þiggja vinnu.

Virðulegi forseti. Ég get ekki stillt mig um að gagnrýna það þegar svona stór mál eru lögð fram, eins og þetta sem var sett fram á föstudaginn, að það skuli komið í umræðu strax á þriðjudag. Við eigum von á að stór frumvörp, sem var dreift í gær og í dag, verði tekin til umræðu á fimmtudag. Þingmenn eru önnum kafnir. Þetta eru mjög stór mál og þeir sem vilja fjalla um þau af einhverri þekkingu verða að gefa sér tíma til að skoða þau og afla sér upplýsinga.

Ég vil líka taka undir það sem ráðherra sagði áðan, svo ég haldi því til haga sem jákvætt er, að atvinnuleysisbætur eiga að sjálfsögðu ekki að vera viðbætur við eftirlaunakerfi hálaunafólks. Ég tek undir það. Því styð ég þær aðgerðir sem hugsaðar eru til þess. En það má ekki vera þannig að til að koma í veg fyrir slíkt séu réttindi tekin af þeim sem þurfa mjög á þeim að halda og búa við allt aðrar aðstæður. Boðskapurinn í þessu frv. er að nú skuli taka á allri misnotkun. Frv. virðist því miður, þó jákvæðir punktar finnist í því, stefna að þrengingum á næstum því öllum sviðum. Ég hef tekið fram að ég er ekki á móti því að lagfæra ágalla en það er mjög alvarlegt, ef grunntónninn er að fólk sé almennt að reyna að svindla á þessu kerfi.

Mér sýnist að þetta frv. og vinnumiðlunarfrv. taki nokkuð mið af danska kerfinu. Danska kerfið er sniðið að því að þar hefur verið til langs tíma jafnvel 10--15% atvinnuleysi. Það kerfi tekur mið af því að ákveðnir hópar fólks vilja hreinlega ekki vera á vinnumarkaði. Ég hef efasemdir um að slíkt kerfi eigi við hjá okkur. Íslenska þjóðfélagið er öðruvísi. Það hefur verið rætt aftur og aftur við ýmis tilefni í þessum sal. Skólakerfið okkar hefur verið þannig, því miður, að allt að því helmingur framhaldsskólanema flosnar úr námi. Það er vanhugsað að ætla að lög geti haft þau áhrif að þetta unga fólk fari inn í framhaldsskólann á ný af því að búið er að setja í lög um atvinnuleysistryggingar að fólk fái ekki atvinnuleysisbætur fyrr en það er orðið 18 ára þó svo það sé ef til vill komið út á vinnumarkaðinn og búi ekki við það atlæti sem þarf til að geta setið á skólabekk. Það skortir fullkomlega skilning á því að ungt atvinnulaust fólk hafi öðlast fótfestu gegnum starfsmenntun í atvinnulífinu eða önnur fræðsluúrræði miðað við texta frv.

Ég minnist þess í umræðu um grunn- og framhaldsskóla síðasta vetur að þá var formaður þeirrar nefndar sem smíðaði þetta frv. mjög upptekinn af tveggja ára námsbrautum. Slíkar námsbrautir hefðu átt að vera komnar til áður en frv. sem þetta, er vísar ungmennum inn í skólakerfið á ný, er lagt fram.

Ég tek undir það og mér finnst jákvætt að virkni atvinnulausra er lykilorð í t.d. vinnumarkaðsfrv. og það er auðvitað tilvísun í þetta frv. sem við erum að ræða. En ég vil leggja áherslu á að sú virkni taki ávallt mið af virðingu gagnvart hinum atvinnulausa. Sjálf er ég mikill talsmaður þess að fræðsla og fræðsla og aftur fræðsla sé það sem skiptir máli fyrir þá sem verða atvinnulausir eða þá sem eiga í erfiðleikum með að skipta um störf. Þess vegna er hún afar mikilvæg en við megum ekki blekkja okkur með því að fræðslan ein eða skólaganga lækni atvinnuleysi. Fólk vantar vinnu í dag af því að ekki eru nægilega mörg störf í boði. Það er auðvitað kjarni málsins. Ég vil líka taka fram, virðulegi forseti, að ég hef mjög oft rætt þessi mál við það fólk sem er með námskeið og uppbyggingu atvinnulausra á sinni könnu og er með þessu fólki daglangt og vikurnar út í gegn. Mér er sagt að það sé staðreynd að 80--90% atvinnulausra eru með sannanlegan vinnuvilja. Því segi ég þetta að mér finnst lýsa í gegnum frv. að breyta þurfi og skerða vegna þess að allir séu að svindla sig inn á atvinnuleysisbætur. Ég hafna slíku. Ég hafna þeirri hugsun.

Mér finnst ákvæðin um 18 ára mörk og fimm ára hámarksbótatímabil mjög róttæk. Mér finnst þau neikvæð. Félmn. verður að leggja mikla vinnu í að skoða afleiðingu þessa ef fest verður í lög. Það er verið að ákveða að öll ungmenni yngri en 18 ára eigi að fara inn í skólakerfið á ný í umsjón mömmu og pabba. Nú virðast stjórnarflokkarnir vera á þeirri skoðun að eðlilegt sé að ungmenni séu í umsjón mömmu og pabba, eigi þar það skjól sem þarf til að geta verið í skóla óháð aðstæðum og minnist ég þá umræðunnar um lögræðisaldurinn í síðustu viku. Þá var annar tónn uppi.

Við vitum að slíkar aðstæður eru ekki hjá öllum að fólk búi við það atlæti að geta farið af vinnumarkaði og inn í framhaldsskólann. Það er líka verið að ákveða það að sá sem er kominn t.d. undir sextugt og missir vinnu, fer á öll hugsanleg námskeið og reynir að komast á vinnumarkað á ný, verði úrskurðaður út eftir fimm ár. Af hverju segi ég úrskurðaður út? Vegna þess að þrátt fyrir að okkar félagslega öryggisnet hafi tekið stakkaskiptum sl. fimm ár, sérstaklega með lögum sem sett voru um félagslega þjónustu sveitarfélaga, þá er langt í land með að okkar öryggisnet sé jafnvíðtækt og öflugt og t.d. öryggisnet í Danmörku. Ég er að vísa til þeirra réttinda sem einstaklingur á miðað við atvinnutekjur, miðað við fjölskyldustærð, miðað við erfiðleika sem koma upp þar sem búið er að leggja niður fyrir sér hvernig hjálp samfélagsins á að vera, á hvaða tíma og við hvaða aðstæður. Þetta skortir því miður enn þá hjá okkur.

Og hvað gerist ef 63 ára karl eða kona sem hefur reynt í fimm ár að fá vinnu án árangurs og er nú felld út úr bótakerfi atvinnulausra? Hvert á hún eða hann að fara? Í okkar félagslega öryggisneti virðist aðeins ein leið fær og það er framfærsla sveitarfélaganna. En það er misbrestur á því að öll sveitarfélög hafi sett sér reglur um fjárhagslega aðstoð sem dugar til framfærslu fjölskyldna þó sum sveitarfélög hafi gengið langt í þeim efnum og þar sé það ekki erfiðleikum bundið í raun og veru fjárhagslega fyrir viðkomandi. En við vitum líka að einmitt út af því hvernig þetta net okkar virkar er mörgum mjög erfitt að vera úrskurðaður út úr hefðbundnu, viðurkenndu bótakerfi inn á framfærslu sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Ég ætla að víkja aðeins að greinum frv. og við 2. gr. eru þessi tvö atriði, sem ég hef nefnt, um 18 ára aldurinn. Þar vil ég vísa til bráðabirgðaákvæða sem eru í þessu frv. Þar segir að þeir sem í dag eru 16--17 ára og eru á atvinnuleysisbótum eigi að halda rétti sínum til 18 ára. Hinir sem verða atvinnulausir eiga að lenda inni á ákvæðum nýju laganna. Ég vil einnig spyrja og taka undir það, sem kom fram hjá þingmönnum sem ræddu á undan mér, hvort fiskvinnslan falli undir tveggja vikna biðtímann sem getið er um í 2. gr.

[14:45]

Mig langar líka að spyrja ráðherra: Hvers vegna á einstaklingur að vera reiðubúinn að ráða sig í fullt starf? Af hverju á einungis að vera heimildarákvæði til þess að greiða bætur ef viðkomandi er ekki tilbúinn til að fara í meiri vinnu en áður? Er hlutastarf t.d. fjölskyldufólks ekki viðurkennt? Ætli það sé ekki mjög algengt að skipting foreldra sín á milli á tekjuöflun sé þannig að annað vinni fullan vinnudag, oftast hann, hitt vinni hlutastarf og beri meiri ábyrgð á börnum og heimilishaldi, oftast hún? Í 2. gr. er fjallað um þá sem eiga rétt til bóta samkvæmt lögunum fullnægi þeir eftirtöldum skilyrðum og 6. tölul. er þannig:

,,Eru reiðubúnir að ráða sig í fullt starf. Úthlutunarnefnd er heimilt að víkja frá þessu skilyrði ef hinum atvinnulausa er ókleift að ráða sig í fullt starf eða ef hann hefur verið í hlutastarfi áður en hann varð atvinnulaus, enda sé hann reiðubúinn að ráða sig í a.m.k. hálft starf.`` Þetta vekur því upp mjög margar spurningar.

Varðandi 2. gr. og rétt 18 ára finnst mér að ekki eigi bara að vera heimildarákvæði hjá sjóðnum að setja reglur varðandi þann þátt heldur eigi það að vera skylda að sjóðurinn setji reglur. Þá er ég að vísa til þess sem hér segir að þeir sem eru á aldrinum 16--18 ára skuli undir sérstökum kringumstæðum eiga bótarétt og það er heimilt að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs setji reglur þar um. Mér finnst að það eigi að vera alveg skýrt að það verði settar reglur. Það hlýtur að vera alveg ljóst að þessi dæmi koma upp.

Virðulegi forseti. Í 3. gr. segir:

,,Sá sem fullnægir skilyrðum um bótarétt en tekur að stunda nám eða verður að hverfa frá vinnu af heimilisástæðum, svo sem vegna veikinda barna eða maka eða vegna umönnunar aldraðs foreldris, heldur í allt að 24 mánuði þeim bótarétti sem hann hafði áunnið sér. Sama á við um þá sem sviptir eru frelsi sínu með dómi.

Á sama hátt og kveðið er á um í 1. mgr. heldur sá sem fer í fæðingarorlof áunnum bótarétti í allt að sex mánuði.``

Eins og greinin er sett fram sýnist mér að hún sé þrenging frá núgildandi lögum og það væri miklu nær varðandi þessa hópa að opna greinina, opna þessi réttindi og gera þau almenn í stað þess að neyða þá sem kjósa að hverfa af vinnumarkaði um skamman tíma til að taka bætur að viðlögðum missi bótaréttar.

Ég vil taka undir athugasemdir sem komu fram um 5. gr. Hún er óásættanleg. Það leikur sér enginn að því að vera tekjulaus í tæpa tvo mánuði, hvað þá tvo og hálfan mánuð, þannig að þetta þarf félmn. að skoða mjög vel.

Hvað varðar 7. gr. þá finnst mér losaralegt hvernig tenging við laun er sett fram. Þetta ákvæði bitnar fyrst og fremst á þeim sem eru á lægstu töxtunum eins og hefur komið hérna fram burt séð frá því hverjar tekjur þeirra voru. Það er umhugsunarefni hvort í þessu ákvæði geti falist að fólk í fullri vinnu nái ekki atvinnuleysisbótum. Ég minni ráðherrann á að hann er sjálfur með yfirlýsingar um það að grunnkaupstaxtar séu allt of lágir. Óttast hann þá ekki að þarna sé hann með þessu lagaákvæði í sjálfu sér að rýra kjör þeirra sem höllum fæti standa? Hann gerir sér grein fyrir því og hefur lýst því yfir úr þessum ræðustól að grunnkaupstaxtar séu allt of lágir.

Ég ætla að láta mér nægja í þessari ræðu að nefna 9. gr. Ég hef afar miklar efasemdir um fimm ára tímabilið. Eins og ég hef þegar getið um er óljóst hvað tekur við. Þegar menn setja svona lög verður að liggja fyrir hvað tekur við hjá viðkomandi. Hvert er honum vísað? Þeir sem lenda í langvarandi atvinnuleysi glata öryggiskennd, fólk bognar við atvinnuleysi. Það jafnvel brotnar niður. Sjálfsmynd skerðist og ég fullyrði að stærsti hluti langtímaatvinnulausra kýs að komast í vinnu, kýs að verða virkir þjóðfélagsþegnar sem leggja sitt af mörkum og ég vona að þeir tímar fari í hönd að fólk verði ekki atvinnulaust í fimm ár. Það á að vera meginmarkmið okkar. Úrræði Framsfl. fara væntanlega að sjá dagsins ljós og loforðin um 12 þúsund störf því að á það ættum við að leggja áherslu núna að fjölga störfum þannig að þeir sem eru núna atvinnulausir og stefnir í að verði atvinnulausir jafnvel í fimm ár þrátt fyrir að vera í námskeiðum, þrátt fyrir að fara í fullgilda fræðslu, þrátt fyrir að fara í öll þau verkefni sem eru í boði, fái starf við sitt hæfi. Það á að vera markmið ríkisstjórnarinnar en ekki að henda fólki út hugsanlega eftir fimm ár á bótatíma.