Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 15:31:44 (1382)

1996-11-19 15:31:44# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[15:31]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Því miður verð ég að taka undir það sem hefur komið fram hjá mörgum sem hafa talað fyrr í þessari umræðu að fátt er um ánægjuleg tíðindi fyrir launaflólk í því frv. sem hér hefur verið lagt fram. Það er enn verið að herða skilyrðin fyrir því að fá bætur úr atvinnuleysistryggingakerfinu og undirtónninn í frv. er sá að nú eigi að hefja refsivöndinn á loft og gera þá atvinnulausu enn meðvitaðri um stöðu sína. Þeir eru nefndir bótaþegar áfram eins og var í gömlu lögunum en það lýsir ákveðnum skoðunum á því hvað þeim sem semja frv. þykir um þá sem missa vinnuna.

Ég ítreka að ég tel löngu tímabært að endurskoða lögin um atvinnuleysistryggingar en ég átti satt best að segja von á því að merkilegri endurskoðun kæmi út úr þessu nefndarstarfi en sú sem hér liggur fyrir eftir allan þann tíma sem nefndin starfaði. Ég átti von á einhverjum ferskari vindum, öðrum viðhorfum en þeim sem einkenndu gömlu lögin þar sem undirtónninn er sá að hinir atvinnulausu eru vandamál, klafi á kerfinu, þar sem kerfið bregst við með því að reyna að hrista hina atvinnulausu af sér rétt eins og hver önnur sníkjudýr.

Ég gerði mér vonir um að nefndin sem sett var í málið mundi ef til vill leggja áherslu á það í sinni vinnu að ríkisstjórnin reyndi á einhvern hátt að viðurkenna vandamálið sjálft sem er atvinnuleysið og að ef til vill mundi hún um leið viðurkenna á einhvern hátt ábyrgð sína á því að atvinnuleysi skuli vera til staðar. En allt annað hefur komið í ljós í þessu frv. Hæstv. félmrh. mælir hér fyrir frv. til laga um atvinnuleysistryggingar þar sem, ég vil nánast segja, gamla ruslið er dregið fram og þær breytingar sem eru gerðar ganga helst í þá átt að herða að þeim sem þurfa á þessari samfélagsaðstoð aðhalda.

Hæstv. félmrh. segir að andi lagabreytinganna sé sá að það eigi að virkja hina atvinnulausu, koma þeim í vinnu með einum eða öðrum hætti. Nú þykist ég vita að hæstv. félrmh. vill vel með þessu. En er þetta svona einfalt? Það er eitthvað til staðar sem heitir atvinnuleysi og þessi tilvitnun mín í ræðu ráðherra hér áðan um að það ætti að virkja hina atvinnulausu með þessum lögum, styður þá kenningu mína að hæstv. félmrh. líti svo á að meginvandamálið séu hinir atvinnulausu, þ.e. að ekki sé hægt að virkja þá, en ekki að það sé eiginlegt atvinnuleysi. Það er grundvallaratriði í þessu máli. Það læðist að manni sá grunur að veikindin frá því í vor hafi kannski tekið sig upp í hæstv. félmrh. en þá þverneitaði hann því að hann hefði brugðist trausti samtaka launafólks með samráðið margumrædda þrátt fyrir að heilt alþýðusambandsþing væri komið á Austurvöll til að lýsa gremju sinni með störf hans. Lærði hæstv. félmrh. ekkert af þessum hremmingum eða hefur hann formlega lýst yfir sambandsslitum við samtök launafólks?

Ég tel það að minnsta kosti mjög alvarlegt mál sem hér hefur gerst að fulltrúar samtaka launafólks hafi sagt sig frá þessu nefndarstarfi vegna þess, að því mér skilst, hversu djúp gjá hafi verið á milli þeirra og sjónarmiða hæstv. ráðherra og ef til vill annarra nefndarmanna í málflutningi þeirra vegna þess að ég tel það vera mjög alvarlegt mál þegar samtök launafólks sjá sér ekki fært að starfa í nefndum af þessu tagi sem beinlínis varða mjög brýna hagsmuni fyrir launafólk. Ég verð að segja eins og er að þrátt fyrir mikinn vilja þá sé ekki marga jákvæða hluti, herra forseti, í þessu frv. og ég ítreka að ég er fyrst og fremst að horfa á það út frá hagsmunum þeirra sem eru atvinnulausir, hagsmunum launafólks.

Ég vil enn og aftur benda hæstv. félmrh. á það, vegna þess að hann minnist gjarnan á, m.a. áðan þegar hann mælti fyrir frv., að hann hafi vilja til að bæta stöðu fólks sem er atvinnulaust, að til eru ýmsar leiðir sem hæstv. ráðherra hefur ekki farið í þeim efnum og það er af nógu að taka. Hæstv. ráðherra getur gert heilmikið til að laga kjörin hjá launafólki þó hann geti ekki beitt valdi til að hækka launin, ég geri mér grein fyrir því. Hann gæti t.d. lagt fram tillögu um fullgildingu á samþykktum um starfsöryggi sem ég hef viðrað við hann áður í ræðustóli og hann tók reyndar mjög vel í í vor og sagðist mundi vilja gera fyrir haustið. Það er grundvallaratriði sem þarf að tryggja áður en farið er að þrengja enn frekar að kostum launafólks hvort sem er þeirra sem verða fyrir því að verða atvinnulausir eða þeirra sem eru í starfi. En hæstv. félmrh. getur væntanlega ekki gert það með því að fá atvinnurekendasamtökin í lið með sér vegna þess að þau hafa lýst því yfir að þau eru ekki tilbúin til að styðja slíkar breytingar. Hann þyrfti að stilla sér upp við hliðina á samtökum launafólks og launafólki sjálfu gegn atvinnurekendasamtökunum. Ég bíð enn eftir því og vil gjarnan nota tækifærið og spyrja hæstv. félmrh. hvað hann hafi gert í því máli sem hann lýsti yfir í vor að hann mundi beita sér fyrir, þ.e. að samþykkt um starfsöryggi yrði fullgilt þannig að við gætum komið okkur á blað með siðmenntuðum þjóðum varðandi starfsöryggi launafólks.

Fleira mætti hæstv. félmrh. gera. Hann gæti t.d. lagfært kolómögulega löggjöf um veikindarétt launafólks sem er algjörlega götótt og orðin liðónýt fyrir fólk sem lendir í því að þurfa á henni að halda. Hann gæti lagt fram hugmyndir um atvinnulýðræði þar sem launafólki væri gert kleift að taka þátt í stjórnun fyrirtækjanna, gera því meðal annars mögulegt að koma að stjórnuninni í stað þess að láta það einungis axla ábyrgðina á efnahagslegum stöðugleika, eins og hér hefur verið gert á undanförnum árum, án þess að nokkur réttindi launafólks séu bætt eða kjörin að öðru leyti. Það gengur ekki lengur að vaða alltaf á skítugum skónum yfir réttindi og yfir kjör fólks. Ég verð því miður að segja að mér finnst enn og aftur þetta frv. sýna að ekkert er verið að gera til að laga stöðu þeirra sem verst eru settir, því miður.

Ég átti von á því að það væri a.m. eitthvað jákvætt sem skipti máli í frv. Mér líkar mjög illa sá tónn sem frv. virðist byggja á. Hann snýst um að í þjóðfélaginu sé hópur fólks sem lifi eins og sníkjudýr á kerfinu. Frv. er m.a. ætlað að koma í veg fyrir þetta. Hæstv. félmrh. heyrist trekk í trekk segja sögur af óprútnum flugumferðarstjórum sem leiki á kerfið og hann undrast líka af hverju fólk flykkist ekki í verbúðir út á land til að vinna í fiski á ómögulegum kjörum. Við erum kannski að tala um fjölskyldufólk. Við erum að tala um fólk sem er með börn í skóla. Við erum að tala um fólk sem á maka sem er kannski í vinnu hér í bænum. Og við erum aftur komin að því, herra forseti, að málið snýst líka um starfsöryggi fiskvinnslufólks. Hvers vegna í ósköpunum ætti fólk að rífa sig upp með rótum, flytja búferlum út á land þegar hægt er að segja því upp með svo til engum fyrirvara? Hvers vegna í ósköpunum ætti fólk að gera það vitandi að það fær ómöguleg kjör og það er hægt að segja því upp með engum fyrirvara eins og mörg dæmi voru rakin um áðan?

Hæstv. félmrh. verður að byrja á að taka á þessum málum og tryggja launafólki einhver grundvallarréttindi áður en farið er að tala um að fólk eigi að flytjast á milli héraða fyrir vinnu sem kannski er einn, tveir, þrír eða fjórir dagar.

Það er einu sinni svo að vandamálið sem hæstv. félmrh. er að fást við er atvinnuleysi eins og reyndar hefur komið fram í umræðunum. Það á sér m.a. rætur í vitlausri hagstjórn. Vandamálið er ekki hinir atvinnulausu fyrst og fremst. Þeir eru fórnarlömb vitlausrar hagstjórnar en ekki rót vandans. Mér finnst kannski vanta í þetta frv. að gera sér grein fyrir því.

Hvað varðar einstök efnisatriði frv. þá tel ég nokkur þeirra að minnsta kosti vera mjög umdeilanleg. Þau hafa flest verið nefnd fyrr í umræðunum. Ég vil sérstaklega nefna lengingu refsitímabilsins í 4. tölul. 5. gr. þar sem segir að þeir eigi ekki rétt á bótum sem hafa sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á. Þetta er svipað ákvæði og var áður. En síðan fellur réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið niður í 55 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem því nemur. Þetta tímabil var áður 40 dagar. Þarna er verið að lengja það. Ég tel þetta vera óæskilegt því það liggur ekki ljóst fyrir hvert þetta fólk á að leita um framfærslu á meðan það tekur út þessa refsingu sína sem ég tel að hafi verið nógu mikil fyrir. Og mörg félagsleg vandamál hafa leitt af henni. Spurningin er: Hefur hæstv. félmrh. einhver úrræði fyrir það fólk sem er að taka út þessa refsingu? Hefur hann einhver úrræði fyrir fólk um það hvernig það eigi að framfæra sér þessa 15 daga sem þarna er bætt við? Er félagslega kerfið tilbúið til að taka á móti þessu fólki eða er því bara vísað á guð og gaddinn þar til það hefur afplánað sinn dóm fyrir að hafa misst vinnu af ástæðum sem það sjálft á sök á?

Ég vil líka taka undir það sem hér hefur komið fram að það er vægast satt mjög teygjanlegt hvenær fólk missir vinnu af ástæðum sem það sjálft á sök á. Þar erum við líka með ýmis vandamál í kerfinu sem hæstv. félmrh. mætti beita sér fyrir að laga. Ég vil nefna sem dæmi manneskju sem hættir á vinnustað vegna eineltis, vegna skorts á starfsöryggi. Og vegna þess að tilteknar málsmeðferðarreglur vantar um það hvernig taka skuli á slíkum hlutum, mundi manneskja sem hættir vegna eineltis, sem er að verða stærra og stærra vandamál og hefur m.a. verið skoðað uppi í Vinnueftirliti, --- ég veit að hæstv. félmrh. þekkir þann vanda sem fer óðum stækkandi og að það þarf að taka á honum --- eða að henni verður óvært í vinnu vegna þess að hún er lögð í einelti, mundi væntanlega vera talin hafa hætt af sjálfsdáðum nema hún haldi það það lengi út að hún geti beðið eftir að verða sagt upp af einhverjum orsökum. Aftur og aftur komum við að því að ekki er hægt að setja svona reglur með sanngirni nema tryggður sé einhver lágmarksréttur launafólks.

Aftur komum við að starfsörygginu. Við búum við þannig umhverfi í dag varðandi uppsagnir að atvinnurekanda er heimilt að segja fólki upp án þess að gefa nokkra ástæðu fyrir því sem er algjörlega óviðunandi. En að auki vantar ýmis úrræði þegar um er að ræða t.d. það sem að snýr að eineltinu, það sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nefndi áðan varðandi kynferðislega áreitni og fleira sem getur gert fólki óvært á vinnustað.

Ég tel óæskilegt að gera það að reglu að bótaréttur þeirra sem hætta námi, sem talað er um í 5. tölul. 5. gr., skuli falla sjálfkrafa niður það sem eftir er námsannar. Það er gert ráð fyrir að þeir sem hætta námi fyrir lok námsannar eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í jafnlangan tíma og eftir stendur af námsönn og skerðist bótatímabil sem því nemur. Nú er ég alveg innilega sammála hæstv. félmrh. í því að við eigum frekar að hvetja ungt fólk til að vera í námi en hvetja það til að fara á atvinnuleysisbætur. En munurinn á okkar sjónarmiðum er kannski fyrst og fremst sá að ég efast stórlega um að ungt fólk sæki í það í stórum stíl að komast inn í þann ,,forréttindahóp`` að vera atvinnulaust. Ég efast um að fólk sæki beinlínis viljandi í það í stórum stíl. Án þess að brjóta algerlega niður vilja hæstv. félmrh. um að vilja hafa fólk frekar í námi en á bótum, mætti setja þarna svipað ákvæði og er varðandi þá sem eru 16--18 ára, þ.e. að það þetta fólk geti í vissum tilvikum sótt um undanþágu og farið þannig inn á bætur. Ég tel að það væri eðlilegra að hafa slíka reglu heldur en hafa þetta undantekningarlaust.

[15:45]

Það er heldur ekki hægt annað en að skoða þetta ákvæði í samhengi við það sem hæstv. ríkisstjórn er að gera í málefnum menntafólks. Um daginn var haldinn stór útifundur um þar sem verið var að mótmæla úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar varðandi fólk í námi. Það er verið að þrengja að framhaldsskólunum, það er verið að setja á aukin gjöld og álögur á nemendur þannig að það er ekki heldur svo gott að hæstv. ríkisstjórn sé að auðvelda fólki að stunda nám því unga fólki sem vissulega er miklu betur komið í menntakerfinu, einhvers staðar inni í skóla en á bótum á meðan ekki eru til störf fyrir það. Ég held því að við verðum að skoða þetta allt í samhengi og ég mundi treysta þessum vilja hæstv. félmrh. mun betur ef ég sæi að hæstv. ríkisstjórn væri jafnframt að vinna í því að reyna að halda ungu fólki að námi og gera því auðveldara að stunda nám. En í staðinn höfum við ómögulegar reglur um endurgreiðslubyrði námslána og fleira sem hefur verið margrætt á seinustu dögum og fallskatt og ýmislegt sem hæstv. ríkisstjórn getur státað sig af í þeim efnum.

Ég tek undir gagnrýni á það að með því að miða bótafjárhæð við dagvinnulaunin sé verið að skerða rétt þeirra sem búa við bágust kjörin og það tel ég ekki vera æskilega þróun. Ég bendi hæstv. félmrh. á að það eru engir flugumferðarstjórar í þeim hópi, held ég. Lögfesting hámarksbótatíma í fimm ár veldur mér nokkrum áhyggjum. Ég get tekið undir það sjónarmið að það sé óeðlilegt að fólk sé svona lengi atvinnulaust eða á atvinnuleysisbótum og má spyrja sig að því þegar fólk hefur verið atvinnulaust í fimm ár hvort kannski sé þannig komið fyrir því að það eigi heima einhvers staðar annars staðar í kerfinu en ég held að á þessu ástandi, þegar fólk hefur verið atvinnulaust í svo mörg ár, þurfi stjórnvöld að taka ábyrgð. Enn og aftur komum við að því að ég sé hvergi úrræði hjá hæstv. félmrh. um hvert þetta fólk á síðan að fara.

Ég tel jákvætt að verið sé að auka virkni vinnumiðlana eins og verið er að gera með frv. um vinnumarkaðsaðgerðir varðandi starfsleitarkerfið en ég held að mjög mikilvægt sé að hafa það í huga að ekki er nóg að hjálpa fólki sem hefur verið atvinnulaust lengi að fá vinnu. Það er ekki nóg að hjálpa því að leita að vinnunni heldur þarf fólk sem búið er að vera mjög lengi atvinnulaust líka á stuðningsaðgerðum að halda. Það held ég að allir geri sér grein fyrir sem hafa kynnst því hvernig það fer með fólk að vera atvinnulaust mjög lengi.

Ég vil líka segja í lokin að ýmis atriði þessa frv. eru óljós. Reyndar tel ég sum þeirra fela í sér nánast óeðlilegt framsal löggjafarvalds til hæstv. ráðherra og jafnvel til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég vil í þessu sambandi nefna 2. mgr. 1. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Félagsmálaráðherra skal, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, setja nánari reglur um hvaða skilyrðum sjálfstætt starfandi einstaklingar skulu fullnægja til þess að njóta bóta úr sjóðnum. M.a. skulu settar reglur um hvaða skilyrðum menn verða að fullnægja til þess að teljast sjálfstætt starfandi og vera atvinnulausir.``

Hvað væri hið háa Alþingi að samþykkja með slíkri lagagrein? Við höfum í raun og veru ekki hugmynd um það. Ég nefni fleiri greinar, t.d. 3. mgr. 1. gr. þar sem segir:

,,Ráðherra er heimilt, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, að ákveða að aðrir hópar en launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar geti notið bóta úr sjóðnum gegn greiðslu iðgjalda. Um bótarétt þessara hópa skal kveða á í reglugerð.``

Hér er verið að heimila ráðherra mikið vald til þess að opna á einhverja tiltekna hópa. Ég tel engan veginn vera nægilegan öryggisventil að fengin sé umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs í þessum efnum. Þarna ættu að vera skýrari reglur um þetta í lögunum. Til þess erum við hér að fjalla um það hvernig þessar reglur eigi að vera.

Ég vil líka nefna 3. mgr. 2. gr. þar sem segir að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóða er heimilt, ég ítreka heimilt, ekki skylt, að setja reglur um það að þeir sem eru á aldrinum 16--18 ára skuli undir sérstökum kringumstæðum eiga bótarétt og að reglurnar skuli síðan hljóta staðfestingu félmrh. Þarna teldi ég aðlilegra að kveðið væri skýrar á um það í lagatextanum hvaða sérstöku kringumstæður þetta væru. Ég tel það vera nauðsynlegt.

Í lokin vil ég máli mínu til stuðnings vitna í það sem var til umræðu hér í síðustu viku um lagasetningaraðferðir á hinu háa Alþingi. Þá vorum við að ræða skýrslu umboðsmanns Alþingis þar sem hann gagnrýnir harðlega að því er ég tel í skýrslu sinni fyrir árið 1995 að Alþingi sé oft og tíðum mjög óskýrt í lagasetningu. Þetta valdi oft ákveðnum túlkunarvanda og ákveðnum vandamálum þegar síðan á að fara að túlka þessar reglur í hinum ýmsu nefndum og ráðum og hér og þar í stjórnsýslunni. Umboðsmaður ítrekar og leggur mikla áherslu á að Alþingi hafi skýra og skilmerkilega löggjöf fyrir þá sem eiga eftir henni að fara. Líka er varað sérstaklega við því í skýrslu umboðsmanns að þegar nánast er verið að framselja löggjafarvaldið, t.d. í hendur t.d. framkvæmdarvaldsins með því að kveða á um að tiltekin atriði skuli vera í reglugerð þá komi það skýrlega fram hver þau eigi að vera í megindráttum síðan er hægt að kveða á um það í reglugerð. Það er allt annar hlutur en að setja ákvæði í lög sem segir --- ég get ekki fallist á svona ákvæði: ,,Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að setja reglur um að þeir sem eru á aldrinum ... `` Þarna tel ég að Alþingi, sem hefur löggjafarvaldið þrátt fyrir allt þurfi að setja skýrari ramma utan um það um hvað þessar reglur eigi að vera. Við getum síðan falið hæstv. félmrh. í samráði við stjórnir og nefndir, sem starfa á vegum hans, að útfæra þær reglur nánar. Ég tel að þessum skýrleika laganna sem umboðsmaður Alþingis hefur lagt áherslu á sé ekki nægilega framfylgt með þessum ákvæðum.