Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 15:53:03 (1384)

1996-11-19 15:53:03# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[15:53]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. hefur ofurtrú á flugstjórasögum og það er kannski gott og blessað. En ég vil gera athugasemd við það að hann talaði um að mér hefði orðið tíðrætt um að það ætti að hækka aldursmörkin í 18 ár. Það sem ég sagði var það að ég teldi eðlilegra að skýr rammi væri um þetta og ef þetta væri gert ætti tilgangurinn að vera sá að ýta fólki inn í menntakerfið frekar en að það færi frá menntakerfinu yfir á bætur. Þá þyrfti menntakerfið að vera í stakk búið til að taka við því fólki. Það var fyrst og fremst það, herra forseti, sem ég sagði um þessi aldursmörk. Ég gagnrýndi þau aðallega út frá þessu sjónarhorni en ekki að óæskilegt væri í sjálfu sér að börn væru á framfæri foreldra sinna til 18 ára aldurs eða í skóla. Ég tel það þvert á móti mjög æskilegt þannig að það er ekki rétt að ég hafi gagnrýnt þetta harðlega eða að mér hafi orðið tíðrætt um þetta ákvæði. Ég kannast ekki við það.