Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 16:17:03 (1387)

1996-11-19 16:17:03# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:17]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurt var um hvort rætt hefði verið við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og Vinnumiðlun Reykjavíkur og fulltrúa Reykjavíkurborgar. Því er til að svara að nefndin sem skilaði tillögum til ráðherra hélt einn sérstakan fund hjá Vinnumiðlun Reykjavíkurborgar og fékk þar að auki Oddrúnu Kristjánsdóttur á sinn fund sérstaklega. Ég vitnaði til þess í ræðu minni hér áðan. Starfsmaður Reykjavíkurborgar, Nikulás Einarsson, var einn af nefndarmönnum, starfsmaður Atvinnuleysistryggingasjóðs var ritari nefndarinnar og starfsmaður.

Hvað er svona gott við þetta frv.? Um það má lengi deila. Ég tel að það sem meginmáli skiptir og reyndi að færa fyrir því rök, kannski ekki með nógu skilmerkilegum hætti hér áðan, fyrir hinn atvinnulausa er í fyrsta lagi það að skilvirkri atvinnumiðlun skuli verða komið á ef það tekst. Það er gífurlega mikilvægt fyrir hinn atvinnulausa. Það hefur ekki verið skilvirkt hér á landinu í dag með undantekningum þó sem ég nefndi áðan. Það er mjög gott. Í annan stað nefni ég þær hugmyndir sem eru kynntar og ég vitnaði til í skýringum með 10. gr. í frv. um vinnumarkaðsaðgerðir. Ef tekst að koma þeim störfum á sem þar eru tilgreind og hinn atvinnulausi fær störf í stað þess að vera í félagslegri einangrun þá er það mjög jákvætt. Það er uppbyggjandi og það er styrkjandi og það er fátt sem mun hjálpa einstaklingum jafnmikið til þess að komast aftur inn á vinnumarkað.