Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 16:20:47 (1389)

1996-11-19 16:20:47# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:20]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að málflutningur af þeim toga sem síðasti ræðumaður viðhafði sé ekki mjög málefnalegur og töluvert slitinn úr samhengi. Ég vil líka vekja athygli hv. þm. á því að hér liggur fyrir frv. Hv. þm. spurði um afstöðu einstakra aðila, ég nefndi að þessir aðilar hefðu átt ýmist fulltrúa í nefndinni ellegar þeir hefðu komið á fundi nefndarinnar. Og það ætti þingreyndur maður eins og hv. þm. Svavar Gestsson að vita að hér er verið að ræða um frv. sem fer væntanlega til nefndar og eins og þingmenn vita þá senda nefndir mál út til umsagnar. Þannig að allir þeir aðilar eiga eftir að koma til umsagnar í þessu máli.

Hvað varðar unga fólkið þá skal ég ekkert fara dult með þá skoðun mína að skólamenn víða hafa veitt þeirri þróun athygli að ungt fólk tekur þá ákvörðun á miðri önn að hætta námi til þess ýmist að fara að vinna eða þá að komast á bætur. Það sjónarmið hefur vaxið ótrúlega hratt. Og mér þykir ástæða til þess að hafa áhyggjur af því og ég held að með hagsmuni ungs fólks í huga sé eðlilegt að þrengja rammann þannig að þau sitji út önnina, enda er önnin í rauninni ekki nema þrír til fjórir mánuðir. Það er eðlilegra, tel ég, fyrir ungt fólk að sitja önnina til enda. Og ég held að það aðstoði marga foreldra sem vilja að börn þeirra stundi nám til loka annar. Síðan geta nemendur tekið sér frí frá námi.