Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 16:58:42 (1393)

1996-11-19 16:58:42# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:58]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef mál mitt á því að taka sérstaklega undir málflutning hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur í þessu máli, Bryndísar Hlöðversdóttur og Össurar Skarphéðinssonar og ætla ekki að fara ofan í þau mál sem ég er sammála um í framsetningu þeirra en vil segja efnislega um frv. að mér finnst alveg ótækt þegar menn stilla málum upp þannig að hér sé verið að vinda ofan af kerfi sem sé eitthvað í líkingu við danska kerfið. Það er svo af og frá að við getum líkt íslensku atvinnuleysisbótakerfi við danska kerfið þar sem menn hafa átt kost á því að halda lífsstíl sínum um nokkurn tíma meðan þeir huga að úrbótum, þ.e. að fá atvinnu til þess að geta haldið lífi sínu áfram. Það er svo óviðeigandi að líkja þessu kerfi okkar við það kerfi sem Danir komu upp með og hafa verið að vinna að því undanfarin ár að sníða af agnúa. Það er svo langur vegur frá að við getum notað þetta til samanburðar.

[17:00]

Á sama hátt er ósmekklegt að setja málin þannig fram að við séum í góðum málum miðað við Færeyjar. Eru menn ekki kunnugir því að fyrir nokkrum árum höfðu Færeyingar yfir höfuð ekkert tryggingakerfi og voru vegna vandamála sinna að koma á kerfi sem er allsendis ófullkomið vegna þess að menn voru að leysa bráðavanda. Þetta er alveg ótækt í umræðunni og samanburði hér. Það sem stendur upp úr í mínum huga í þessu frv. eru sparnaðarráðstafanir án þess að menn hafi heildarsýn og það er meginmálið.

Ég ætla sérstaklega, af því að ég er búinn að lýsa yfir stuðningi við málflutning annarra hérna, að taka eitt atriði sem mér finnst þurfa að koma mjög skýrt fram. Menn þekkja ekki samfélagið sitt, Ísland, ef menn gera sér ekki grein fyrir því hér í þingsölum að við eigum hulduher í þessu samfélagi. Það eru 16--18 ára unglingar sem hafa engar tekjur og eru á framfærslu foreldra í heimahúsum. Þetta eru hundruð manna, þetta eru tugir í litlum samfélögum. Þetta er eyðileggingarástand fyrir allt fjölskyldulífið á þeim heimilum þar sem þetta ástand ríkir. Ég kalla þetta hulduherinn vegna þess að þetta er fólkið sem sefur á daginn og fer á kreik á kvöldin því það skammast sín fyrir að geta ekki tekið þátt í samfélaginu og guð veit hvað það tekur sér fyrir hendur eftir að það fer út um fjögur eða fimmleytið þegar hinn hluti fjölskyldunnar er kominn í hús. Með því að hækka aldurinn úr 16 ára í 18 ár verða menn að skoða afleiðingarnar. Er það ósk manna með svona frv. að bæta við hulduherinn? Setja fleiri í hús sem enga framfærslu hafa og hvernig ætlum við að taka á þeim vandamálum sem það hefur í för með sér? Það verður að svara þessum spurningum.

Ég bendi á að Einar Oddur Kristjánsson kom inn á það í ræðu sinni áðan að auðvitað yrðum við að skapa öllum framfærslu en langur vegur er frá að það hafi verð gert. Ýmis vandamál á götum bæja og borga eru afleiðingar þess að við höfum ekki tekið á þessum málum einmitt fyrir þennan aldursflokk. Þess vegna vil ég taka það alveg sérstaklega upp.

Að lokum vil ég segja þetta. Frv. er meingallað og hefur það komið fram hjá langflestum sem hafa talað hér í dag, líka hjá stjórnarliðum. Félmn. verður að gera á því grundvallarbreytingar. Grundvallarbreytingar sem miða að úrbótum á þeim atriðum sem hafa komið fram. Það eru örfá atriði í frv. sem horfa til bóta en þetta varðar framfærsluna á kerfi sem ekki að gera neitt sérstaklega vel við neinn og, eftir minni þekkingu á þessum málum, er ótækt.

Ég legg til að félmn. fari ofan í málið á ný og það verði tekið upp í algjörlega nýju ljósi. Það er engin lausn að ætla að spara einhverja tugi milljóna og taka út með ómældum tilkostnaði og mannraunum annars staðar í kerfinu.