Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 17:19:49 (1398)

1996-11-19 17:19:49# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[17:19]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ágætu yfirliti hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, þar sem hún vitnaði til hugmynda þeirrar nefndar sem hún starfaði í, kom margt athyglisvert fram. Ég fæ ekki betur séð en að margar af þeim hugmyndum sem hv. þm. reifaði megi sjá í þeim frv. sem eru til umræðu og komu mjög til umræðu í nefndinni sem vitnað hefur verið til. En af því að hv. þm. beindi sérstakri spurningu til mín varðandi nefndarstarfið, hvort skoðaðar hefðu verið aðstæður einstakra hópa og úrræði fyrir þá, þá var það vissulega gert og gefinn góður tími til þess. Svar nefndarinnar er í rauninni þetta, og um það var einhugur innan nefndarinnar, að vitna til hinnar skilvirku vinnumiðlunar sem við trúum að hægt sé að koma á, --- skilvirka vinnumiðlun um landið allt sem þjónustustofnun undir stjórn heimamanna úr atvinnulífinu, þeirra sem hafa bestu yfirsýn yfir atvinnulíf á hverjum stað. Það sér nefndin sem uppsprettu úrræða, uppsprettu hugmynda og þjónustustofnanirnar skoði hagsmuni hvers einstaklings og finni úrræði á forsendum hvers einstaklings fyrir sig en ekki bara einstakra hópa. Ég tel afskaplega mikilvægt að hver einstaklingur fái að njóta sín.