Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 17:21:38 (1399)

1996-11-19 17:21:38# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[17:21]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér sýnist sem þessi setning: ,,Uppspretta úrræða heima í héraði`` þýði í raun að ákveðnum þýðingarmiklum þáttum hafi verið vísað inn í framtíðina og heim í hérað á meðan öðrum þáttum var gert skilmerkilega skil og festir í þann lagatexta sem er til umfjöllunar. Það sem ég átti við var ekki sú hugsun að fylgja eftir einstaklingi, sem ég held að sé ágæt, við munum að sjálfsögðu ræða vinnumarkaðsúrræðin fyrir næsta frv., heldur einmitt að afmarka hina mismunandi hópa og reyna að átta sig á hvaða þörf kemur í ljós hjá ólíkum hópum og miða síðan lagatextann við það. Ég þekki í vinnumarkaðsfrv. ýmislegt og ýmsar hugmyndir sem eru settar fram í þessari skýrslu en það sem ég var að draga fram voru sérstök tækifæri sem hið opinbera hefur til að koma með skilvirkar úrlausnir hinum atvinnulausu til handa eins og ég hef þegar bent á t.d. samtímagreiðslur o.fl. Þessa gætir hvergi í umfjöllun nefndar þingmannsins og ég sakna þess að ekki sé tekið á þessum þáttum. Ég sakna þess og harma að í yfirferðinni á þessu máli skuli ekki hafa verið reynt að kryfja betur til mergjar ýmsa hópa og aðallausnirnar séu þær að vísa ákveðnum hópum, eins og þeim yngstu og sennilega þeim elstu, út úr bótakerfinu án þess að tryggja að aðrar farsælar lausnir finnist.