Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 18:01:28 (1404)

1996-11-19 18:01:28# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:01]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einfaldlega staðreynd að frá því að lögin um starfsmenntun í atvinnulífinu voru samþykkt hefur mjög margt gerst á vinnumarkaði okkar. Bæði gerðist það að atvinnuleysi fór mjög vaxandi og kallaði það á nýjar aðgerðir, nýjar hugmyndir og ný viðbrögð en hins vegar hefur mikil þróun átt sér stað í menntun og nýjar kröfur um símenntun og endurmenntun og fleira slíkt. Ég held að við ættum í alvöru að skoða þetta þó að það ætti í sjálfu sér ekkert að koma í veg fyrir samvinnu á milli félagsmálaþáttarins í samfélaginu og menntakerfisins. En ég er eiginlega að sannfærast um það að þetta er fyrst og fremst hluti af menntun, við þurfum að hugsa algerlega upp á nýtt í þessu samhengi og vera sífellt að hugsa um að gefa öllum kost á endurmenntun hvort sem þeir eru lögfræðingar, sagnfræðingar eða hvað þeir nú eru.

En lögin um vinnumarkaðsaðgerðir eru eitt og einhvers staðar þarf að fá peninga í þær aðgerðir. Lögin um atvinnuleysisbætur eða Atvinnuleysistryggingasjóð eru önnur lög og skv. 22. gr. er þar skilgreint þetta hlutverk að veita styrki til úrræða fyrir atvinnulausa. Hitt sem við erum að tala um er ekki fyrir atvinnulausa heldur fyrir atvinnulífið almennt. Þess vegna er ég að velta því fyrir mér hvað verður um starfsmenntun í atvinnulífinu sem hingað til hefur fengið hátt í 50 millj. á ári í sinn hlut. Í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum til næsta árs verður þetta flutt yfir í Atvinnuleysistryggingasjóð og gert er ráð fyrir því að þarna verði ákveðin upphæð en hvað svo þegar þau lög falla úr gildi og þessi lög standa eftir?