Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 18:29:30 (1411)

1996-11-19 18:29:30# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:29]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Sjóðurinn lýtur núna ellefu manna stjórn. Ég held að það sé óþarflega stór stjórn fyrir sjóðinn. Það var ekki ég sem fann upp þetta skipulag á sjóðstjórninni. Þetta var í tillögum nefndarinnar að hætta að hafa þingkjörna fulltrúa. Ég tek fram að jafnmargir eru frá ASÍ og VSÍ. Þar er líka fulltrúi frá BHM. Þar er fulltrúi frá BSRB, fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fulltrúi frá Vinnumálasambandinu. Þetta var um stjórnina og ég sé ekki að það sé neitt óeðlilegt.

Bótafjárhæðin er líka tekin upp úr nefndarstarfinu, það sem nefndin hafði komið sér saman um og ég held að menn ættu að fara varlega í þessum reikningskúnstum sem menn hafa verið með á æfingum í dag og er ég tilbúinn að fara ofan í það síðar. En varðandi bótafjárhæðina þá stendur hún nákvæmlega eins og gengið var frá henni í frv. meiri hlutans að öðru leyti en því að meiri hlutinn lagði til að einungis væri um að ræða 90% af þessari upphæð. Ég leit svo á að hin upphæðin hefði samþykki þeirra minnihlutamanna.