Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 18:31:09 (1412)

1996-11-19 18:31:09# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:31]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar þá mótmælti hann sérstaklega þessari lækkun á bótafjárhæðinni og taldi hana vera það sem væri gagnrýniverðast í frv. Ég er reyndar þeirrar skoðunar líka að það sé eitt það alvarlegasta vegna þess að ekki hafa komið fram nein rök frá hæstv. ráðherra fyrir því að það sé endilega nauðsynlegt að klípa af þessari upphæð. Þess vegna fer ég fram á að það mál verði skoðað aðeins betur en mér heyrist að hafi verið gert. Ég heyri a.m.k. ekki betur en að rökin vanti.

Í sambandi við þingið, hæstv. forseti, vil ég bara segja að ég sé engin rök fyrir því að ævinlega eigi að henda fulltrúum kjörnum á Alþingi út úr stjórnum, ráðum og nefndum af því tagi sem hér er um að ræða. Þá eru menn, finnst mér, fangar tækniræðisins og eru að víkja frá forsendum þingræðisins á mörgum sviðum. Ég tel að það sé a.m.k. óhjákvæmilegt, ef þetta verður gert og ríkisstjórnin heldur uppteknum hætti í þessu máli og öðru, að þá verði að taka það fram í sömu lögum að Ríkisendurskoðun fari yfir reikninga viðkomandi stofnana vegna þess að það má ekki létta af eftirlitshlutverki og eftirlitsskyldu Alþingis.