Fjöleignarhús

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 18:33:20 (1414)

1996-11-19 18:33:20# 121. lþ. 27.10 fundur 174. mál: #A fjöleignarhús# (eignaskiptayfirlýsing) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:33]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er fljótmælt fyrir þessu frv. Það er á þskj. 191 og þar er um orðalagsbreytingu að ræða eða að í stað ,,1. janúar 1997`` í 1. mgr. ákvæðis til bráðbirgða í lögunum kemur: 1. janúar 1999.

Það voru sett flókin lög um fjöleignarhús og í þeim var kveðið svo á að eignaskiptayfirlýsingum fjöleignarhúsnæðis í landinu skyldi hafa verið þinglýst fyrir 1. janúar 1995. Í fyrra afgreiddum við breytingu á þessu því það var svo mikið eftir af þinglýsingum og frestuðum til 1. janúar 1997. En enn er eftir mjög mikið verk við að koma eignaskiptayfirlýsingum á og þinglýsingum þannig að Fasteignamat ríkisins, Félag fasteignasala, byggingarfulltrúinn í Reykjavík og sýslumaðurinn í Reykjavík komu að máli við mig og óskuðu eindregið eftir því að fá aftur frest og töldu að ekki dygði minna en tvö ár. Þess vegna er þetta frv. fram komið og ég legg til að það fari til félmrn.